Birgitta Líf Finnsdóttir Helland fæddist í Reykjavík 11. nóvember 1995. Hún lést á heimili sínu þann 6. desember 2023.

Foreldrar Birgittu eru Kristín Helga B. Einarsdóttir, f. 28. október 1969, og Finnur Hreinsson, f. 12. júní 1964. Systur hennar eru Aðalheiður Dögg Finnsdóttir Helland, f. 17. nóvember 1988, maki: Tryggvi Steinn Sturluson, f. 7. júlí 1989, og Maríanna Sif Finnsdóttir Helland, f. 4. september 1994, maki: Arnar Már Ágústsson, f. 21. febrúar 1990. Dætur Maríönnu og Arnars eru Hrafntinna Snædís, f. 22. nóvember 2020, og Kría Kristín, f. 17. október 2022.

Birgitta ólst upp í Seljahverfi í Breiðholti og bjó þar allt til ársins 2019 þegar hún fluttist með foreldrum sínum til Hafnarfjarðar. Árið 2022 flutti hún svo úr foreldrahúsum og settist að í Bryggjuhverfinu í Reykjavík.

Birgitta var alla sína grunnskólagöngu í Ölduselsskóla og þaðan lá leiðin á matvælabraut í Menntaskólanum í Kópavogi. Eftir eitt ár þar dvaldi hún vetrarlangt við lýðháskólann Bakketun í Noregi áður en hún fór aftur í MK og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 2017. Hún útskrifaðist með BA-próf í kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 2020 og lauk MA-námi við sama skóla í febrúar 2023. Birgitta fékkst við margvísleg störf á skólaárunum, m.a. í Hagkaupum og Garðheimum og við símsvörun hjá Miðlun. Veturinn 2022-23 starfaði hún sem kennari í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi og hafði nýverið hafið störf á leikskóla í Reykjavík þegar hún lést.

Útför Birgittu fer fram í Seljakirkju í dag, 21. desember 2023, klukkan 11. Streymt er frá útför:

https://seljakirkja.is/

Elsku fallega stelpan mín

svo litrík og einstök

lífið verður aldrei samt án þín

fyrir þessu engin rök.

Söknuðurinn er svo sár

trúi ekki að þú sért farin

aldur þinn var ekki hár

hjörtu okkar kramin.

Með sorg í hjarta í desember

fórst frá okkur allt of fljótt

tími þinn nú kominn er

ástin mín, sofðu rótt.

Kveðja frá

mömmu og pabba.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja. Ég trúi því ekki að ég sé að skrifa minningargrein um þig á þessum tímapunkti, elsku Birgitta. Það var svo ótalmargt sem þú áttir eftir að upplifa, en líka svo margt sem þú sigraðist á og áorkaðir á þinni stuttu ævi.

Ég þakka þér fyrir allar stundirnar okkar saman. Ég er þakklát fyrir öll ferðalögin, útilegurnar, kósíkvöldin, djömmin, spilakvöldin, samtölin, trúnóin og allt hitt. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera systir þín.

Fyrst eftir að þú komst í heiminn var ég víst ekki alltaf sátt við að þurfa að deila athyglinni, passa þig og að þurfa að leyfa þér að vera með í leikjum þar sem þú braust oft allt og bramlaðir. Það var ekki það sem ég hafði hlakkað til við að fá nýja litla systur. Síðan heltók unglingaveikin mig og galsi þinn og barnaleikir voru mér þyrnir í augum um tíma. En alltaf tók ég þó hlutverki mínu sem stóra systir þín og verndari alvarlega og ég var fljót upp á afturlappirnar ef einhver gerði eitthvað á þinn hlut. Þessum verndarvæng held ég enn yfir þér og mun alltaf gera.

Með tímanum þroskuðumst við báðar og urðum þær vinkonur sem ég hafði alltaf óskað mér. Og hvílíka einstaka vinkonu fékk ég. Þú varst gjafmild og góðhjörtuð, fyndin, réttsýn, hjálpsöm og litrík að innan sem utan. Þegar ég hugsa um þig núna eru mér efst í huga hrínandi hlátursköstin þar sem við grenjuðum beinlínis úr hlátri, yfirleitt yfir einhverju sem var ekkert svo fyndið og oftar en ekki vorum við að gera stólpagrín að okkur sjálfum. Það skipti ekki máli hvort við vorum að spila og fá okkur hvítvín, heima í kósí, á ferðalögum eða í rússíbana yfir Las Vegas, það tilheyrði alltaf að grenja úr hlátri saman.

Nú syrgi ég þig og það sem aldrei verður. Ég harma einna mest að þú og ófæddur sonur okkar Tryggva fáið aldrei að hittast. En ég veit að þú munt vaka yfir honum. Hann mun fá að heyra sögur og minningar um þig, sjá myndirnar og myndböndin. Hann mun þekkja þig.

Sjáumst um síðir, litla systir. Kveðjumst í bili.

Aðalheiður (Heiða).

Mjög er mér tregt tungu að hræra. Líf konu í blóma lífsins hverfur skyndilega. Það var erfitt, símtalið sem ég fékk frá elsta syni mínum þann 6. desember síðastliðinn, þar sem hann upplýsti mig um að Birgitta dóttir hans væri dáin. Það er eitt það versta, sem getur komið fyrir gamlan mann, að kær afkomandi hans hafi andast á undan honum. Þegar mesta höggið er afstaðið, þá rennur í gegnum huga manns minningasafn, æska, alvarlegt slys, endurfæðing í lýðháskóla og hetjuleg barátta gegnum kennaranám. Og ávallt var hún gleðigjafi í fjölskyldunni.

Hún Birgitta Líf varð snemma litríkur einstaklingur. Hún var yngst af þremur systrum, dætrum sonar míns og tengdadóttur. Hún var ljúft barn, hreinskilin og alltaf jákvæð. Þær systur fengu mjög gott atlæti hjá foreldrum sínum og það var því bara ánægja fyrir ömmu og afa að fá þær í heimsókn. Þær virtust líka skemmta sér vel. Ef dvelja átti yfir nótt var farið í bað með plastkörlunum, þeim Donald og Mickey, sem fóru í bað með börnum í yfir 30 ár.

Ýmislegt var gert sér til gamans. Einhverju sinni var ég að aka með þær systur, þær yngstu á leikskólaaldri, og hafði okkur orðið ýmislegt á og steininn tók úr þegar í ljós kom að afi hafði gleymt veskinu sínu heima, svo ekki var hægt að heimsækja Náttúrugripasafnið. Þá heyrðist frá þeirri yngstu úr aftursætinu: „Við erum kolrugluð fjölskylda.“ Frá hennar standpunkti var þetta staðreynd.

Þrátt fyrir ýmislegt mótlæti í lífinu lagði Birgitta ávallt áherslu á það jákvæða, t.d. hvað henni þótti vænt um litlu frænkur sínar, þær Hrafntinnu og Kríu. Hundurinn Indriði fékk einnig vænan skammt af umhyggju hennar. Nú er Birgitta horfin á braut en eftir situr hjá okkur safn af góðum minningum.

Minningin lifir, ég sakna þín sárlega.

Afi Hreinn.

Elsku hjartans Birgitta Líf, mikið er erfitt að taka það í sátt að þú sért farin frá okkur ljósárum of fljótt. Við erum svo lánsöm að hafa fengið að fylgjast með þér frá fæðingu og það sem það var skemmtilegt ferðalag. Að horfa á þig skottast um með systrum þínum, ávallt glöð og brosandi. Svo að sjá þig vaxa úr barnafötunum og yfir í ungling og svo yndislega og einstaka fullorðna konu en samt var aldrei langt í stelpuna sem maður þekkti svo vel.

Við munum aldrei skilja þennan harmleik en lærum vonandi smám saman að lifa með honum. Ef það er eitthvað sem við getum tekið með okkur héðan í frá er að bíða aldrei með neitt og lifa lífinu algjörlega eins og við viljum sjálf, jafnvel í ósamstæðum sokkum ef svo ber undir. Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur, elsku hjartans Finnur og Stína, Heiða og Tryggvi, Maríanna, Arnar, Hrafntinna og Kría, megi ljós hennar og minning lifa með ykkur og okkur öllum allar stundir.

Dagný, Úlfar Þór, Egill og Hildur Ósk.

Birgitta, elsku besta vinkona mín.

Ég veit ekki hvernig ég dreg saman 22 ára vináttu okkar, sem hefði átt að verða miklu lengri.

Þér fannst svo gaman að segja frá því hvað við vorum búnar að vera vinkonur lengi. Alltaf þegar þú kynntir mig fyrir einhverjum sem þú þekktir, því þú þekktir fólk alls staðar, eða ef við hittum ókunnugt fólki á djamminu, því þú varst sko óhrædd við að labba upp að hverjum sem er og byrja spjall, vildir alltaf kynnast nýju fólki, tókstu fram hvað við vorum búnar að vera vinkonur lengi og mér þykir svo vænt um það.

Síðustu ár bjuggum við hvor í sínu landinu, og vorum því þessar vinkonur sem hittust ekki oft, en svo var eins og enginn tími hefði liðið þegar við hittumst. Þú sendir mér oft memes um vinkonuna sem flutti langt í burtu. Ég svaraði þér „solly man, lov jú“. Nú þegar ég sé þessi memes veit ég að þau koma frá þér.

Ég mun hugsa til þín þegar ég horfi á Friends, þegar ég horfi á eða sé eitthvað Mulan-tengt og ef ég verð kennari eins og þú þá ertu fyrirmyndin mín.

Þú lifir í hjörtum okkar allra.

Þar til við hittumst aftur og tökum upp þráðinn eins og enginn tími hafi liðið.

Ég elska þig.

Þín

Ragnhildur S.
Kristjánsdóttir (Raggý).