Sólvallagata 14 Húsið umdeilda.
Sólvallagata 14 Húsið umdeilda. — Morgunblaðið/sisi
Íbúaráði Vesturbæjar hefur borist erindi frá 79 íbúum í Gamla Vesturbæ sem hafa miklar áhyggjur af umfangsmiklum breytingum sem bandaríska sendiráðið hyggst gera á Sólvallagötu 14

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Íbúaráði Vesturbæjar hefur borist erindi frá 79 íbúum í Gamla Vesturbæ sem hafa miklar áhyggjur af umfangsmiklum breytingum sem bandaríska sendiráðið hyggst gera á Sólvallagötu 14. Morgunblaðið hefur sagt frá þessum áformum sendiráðsins.

„Íbúar draga í efa að starfsemin sem fara á fram í húsinu geti flokkast undir heimilisrekstur í ljósi umfangs og eðlis þeirra breytinga og öryggisvarna sem fyrirhugaðar eru,“ segir í bréfinu.

Íbúarnir telja að breytingarnar sem sótt er um muni hafa óafturkræf áhrif á hverfisanda, öryggi, traust og jafnræði í hverfinu auk þess sem þær geti vegið að friðhelgi einkalífs nágranna, verði þær samþykktar.

„Kjarni málsins er að starfsemin sem fara á fram í húsinu fellur ekki að friðsælu og þéttbýlu íbúðahverfi. Bandaríska sendiráðið telur þörf á miklum og áberandi öryggisvörnum til að verjast aðsteðjandi vá, sem er í sjálfu sér ógn við hverfið og íbúa þess og næg rök til að leyfa alls ekki breytingarnar.“

Íbúarnir segja greinilegt af fyrirhuguðum öryggisviðbúnaði að sendiráðið telji sendiherrabústaðnum ógnað á þessum stað, sem er í þéttri, friðsælli íbúðabyggð. Því telja þeir réttast að Reykjavíkurborg aðstoði fulltrúa sendiráðsins við að finna farsæla lausn, sem tryggi sendiherranum öryggi, án þess að skerða öryggi og lífsgæði annarra.

Miðað við kröfur til öryggisviðbúnaðar verði það best gert með því að finna sendiherrabústaðnum stað þar sem almennir borgarar verði hvorki fyrir ónæði né ógn af starfseminni.

Íbúaráð Vesturbæjar tekur í bókun undir með erindi íbúa í Gamla Vesturbæ um að mikilvægt sé að varðveita hverfisanda, götumynd og öryggi íbúa þegar skipulagsbreytingar eða byggingarleyfisumsóknir eru teknar fyrir af borgaryfirvöldum.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson