Guðrún Valgerður Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 17. mars 1939. Hún lést 9. desember 2023 á Hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði.

Hún var dóttir hjónanna Sigurðar Gunnlaugssonar, f. 8. maí 1912, d. 6. júlí 1988, og Ráðhildar Jónsdóttur, f. 18. október 1916, d. 16. maí 2007. Guðrún á einn bróður, Kristin, f. 9. apríl 1944.

Guðrún var í sambandi með Hrafni Hansen, f. 26. nóvember 1941, d. 16. mars 1972. Þau eignuðust einn son, Bjarna, f. 23. apríl 1964.

Síðar giftist Guðrún Auðuni H. Jónssyni, f. 24. desember 1936, d. 9. september 2007. Með honum átti hún tvær dætur, Hjálmfríði Þorleif, f. 6. september 1970, og Ráðhildi, f. 20. febrúar 1972.

Hjálmfríður var í sambandi við Hörð Inga Sveinsson, f. 28. júlí 1960, og eignuðust þau soninn Sigurð Egil, f. 21. febrúar 1991. Einnig eignaðist hún soninn Aron Pál, f. 22. ágúst 2002, með Kristjáni Heiðari Pálssyni, f. 24. júní 1966. Núverandi eiginmaður Hjálmfríðar er Sigurbjörn Sigfússon, f. 22 janúar 1968.

Ráðhildur var í sambandi við Kára Þóri Kárason, f. 8. október 1971, d. 24. nóvember 2002, og eignuðust þau synina Alexander Mána, f. 27. desember 1990, og Sigurstein Snæ, f. 18. febrúar 1996. Núverandi sambýlismaður Ráðhildar er Gunnar Jónsson f. 25.11. 1963.

Alexander Máni Kárason er giftur Írisi Þóru Sverrisdóttur, f. 7. apríl 2000.

Sigurður Egill Harðarson er í sambúð með Elínu Guðrúnu Þorleifsdóttur, f. 13. október 1994, og eiga þau dótturina Línu Karlottu, f. 18. september 2020.

Útför var í kyrrþey.

Elsku mamma, það er með sorg og söknuði sem ég kveð þig. Þær eru svo margar góðu stundirnar sem við áttum saman, t.d. þegar við horfðum á alla vestrana í sjónvarpinu á þeim árum þegar ekkert sjónvarp var á fimmtudögum og þegar þú fórst með bænir með mér á kvöldin. Það er svo margs að minnast sem ekki verður fært í orð hér.

Við fæðingu þína kom í ljós fötlun, blinda á öðru auga og það blæddi inn á heila. Í kjölfar þess þurftir þú að leggjast inn á sjúkrahús á barnsaldri og vera þar samfleytt í tvö ár. Mikið var lagt á þig elsku mamma. En þrátt fyrir allt mótlætið og alla erfiðleikana sem svo oft einkenndu líf þitt, þá áttir þú alltaf til gleði, húmor, ást og kærleika handa okkur systkinunum.

Alltaf var hægt að leita til þín og þú varst alltaf til staðar. Á erfiðum tímum í lífi mínu þurfti ég oft á hjálp þinni að halda og ég gat treyst því að hjá þér átti ég alltaf athvarf.

Nú þegar storma lífsins hefur lægt og regla er komin á ringulreiðina, þá er þakklæti mitt til þín ótakmarkað.

Þú gafst mér kjark og þor til að halda áfram og takast á við lífsins ólgusjó og mæta því sem koma skal.

Minning þín verður ævinlega ljós í hjarta mínu og lífi.

Bjarni Hrafnsson.

Elsku mamma mín, loksins fékkstu hvíldina sem þú varst búin að þrá í nokkur ár vegna veikinda þinna. Langaði svo að vera með þér þessi jól og reyndar síðastliðin jól eftir að ég flutti. Var búin að ráðstafa flugi núna í byrjun desember, náði þó að kveðja þig, elsku mamma mín.

Þegar ég ákvað að flytja til Gran Canaria vegna mannsins míns sem var svo slæmur í kuldanum vegna verkja skildirðu það vel. Kom tvisvar á ári til að njóta með þér, elsku mamma. Var oft erfitt að vera svona langt frá þér. Þú ert búin að vera svo jákvæð og dugleg þrátt fyrir mikið mótlæti í þínu lífi.

Þú varst mér svo góð móðir, elsku mamma. Það hefur verið vel tekið á móti þér í sumarlandinu.

Hugga mig við það, elsku mamma, að þér líður betur núna.

Sem ungu barni þú ruggaðir mér í svefninn með söng af vörum þér.

Er erfitt ég átti þú studdir mig og kenndir mér að virða sjálfan sig og vera góð og heiðarleg.

Ólst mig upp með von í hjarta mér til handa um framtíð bjarta.

Með þessum orðum vil ég þakka þér fyrir alla þá ást og umhyggju sem þú gafst mér.

Ég elska þig, mamma, og mun alltaf gera.

Hjálmfríður Þ.
Guðrúnardóttir.

Elsku fallega móðir mín.

Það er erfitt að skilja tilgang lífsins og það gleymist í erli líðandi stundar þegar við erum í faðmi okkar nánustu hvað táradöggin getur fallið fljótt. Þessu finn ég fyrir í dag þegar ég kveð þig, elsku mamma. Allt í einu stend ég hnípin og hljóð. Nú þegar þú ert farin leitar hugurinn óneitanlega til baka. Þín verður minnst fyrir höfðingsskap, hugrekki, gjafmildi, dugnað og hlýju og það sem þú stóðst alltaf ákveðið með okkur, með þeim sem minna máttu sín og mállausum dýrunum. Verkefnin sem þér voru falin strax í vöggugjöf voru ekki auðveld. Þú fæddist fyrir tímann, svo smá eða þrjár og hálf mörk. Spítalavistin frá þriggja til fimm ára var þér ekki auðveld þar sem þú fékkst hvern sjúkdóminn ofan í annan. Þú stóðst það af þér eins og allt annað sem þú þurftir að takast á við í gegnum lífið.

Ég veit ekki um meiri nagla en þig, það var alveg sama hversu margir steinar voru lagðir í götu þína alltaf tókst þér að yfirstíga þá og standa bein í baki. Það er aðdáunarvert til þess að hugsa hvernig þú tókst á við lífið með jákvæðni, gleði og bros á vör. Þú varst minn klettur, það var svo gott að leita til þín, alveg sama hvað kom upp á alltaf gastu leiðbeint mér. Þú áttir endalausa ást, þolinmæði, skilning, styrk, umhyggju og hjálpsemi.

Við tvær áttum stundum föstudagskvöldin, keyptum okkur gott að borða að ógleymdum súkkulaðiskeljunum og horfðum á Derrick. Eitt kvöldið þegar við vorum að elda kótelettur og kjötið var alveg að verða til fékkstu bilað hláturskast, þú gast ekki hætt að hlæja. Ég fór að hlæja með þér óviss um hvað væri svona fyndið þegar þú sagðir „veistu hverju við gleymdum?“. Nei, ég vissi það ekki. Þú spurðir mig „hvað borðar maður yfirleitt með mat?“ og ég taldi ýmislegt upp en þú hlóst bara ennþá meira og ég með þér, ég hélt að þú myndir kafna þú hlóst svo mikið. Loksins tókst þér að segja „nú, kartöflur“. Þessi minning sýnir svo í skýru ljósi hvað það þurfti lítið til að gleðja þig.

Það er svo mikið sárt til þess að hugsa að ég fái ekki að sjá þig aftur. Minning þín mun alltaf vera næst hjarta mínu. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir þig, ég gat ekki verið heppnari með móður. Ég á svo óteljandi fallegar og góðar minningar um þig/okkur að bralla eitthvað skemmtilegt með alls konar fíflagangi. Það var nú einn af þínum mörgu eiginleikum, húmorinn þinn. Það sem það var gaman að gantast í þér, þú hlóst svo innilega og skaust til baka alls konar gleðisprengjum. Þegar heyrnin var farin að stríða þér og þú heyrðir eitthvað vitlaust gerðir þú mest allra stólpagrín að sjálfri þér.

Með trega og tárum kveð ég þig þar sem þú ert farin í sumarlandið og ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér. Ég veit að þú varst búin að bíða eftir hvíldinni í allnokkurn tíma og ég hugga mig við að vita að þér líður vel, gullið mitt. Núna ertu fallegasti engillinn á himninum með stærsta og breiðasta faðminn. Ég elska þig og sakna þín svo óendanlega mikið, elsku mamma. Takk fyrir að vera þú og takk fyrir allt. Þú ein veist hvað ég á við.

Ég vil dvelja í skugga vængja þinna

ég vil þiggja þann frið er færir þú.

Nóttin kemur en ég mun ekki hræðast

er ég dvel í skugga vængja þinna.

Í skugga, í skugga,

í skugga vængja þinna.

Undir vængjum hans má ég hælis leita

trúfesti hans er skjöldur minn.

Örvar fljúga en ég mun ekki
hræðast

er ég dvel í skugga vængja þinna.

Þín dóttir Ráða,

Ráðhildur.