Smekkvísi Schola Cantorum á Íslensku tónlistarverðlaununum 2017 þegar kórinn var valinn Flytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar.
Smekkvísi Schola Cantorum á Íslensku tónlistarverðlaununum 2017 þegar kórinn var valinn Flytjandi ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Maríuvesper ★★★★½ Tónlist: Claudio Monteverdi (Maríuvesper – Vespro della beata vergine). Einsöngvarar: Herdís Anna Jónasdóttir (sópran), Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir (sópran), Benedikt Kristjánsson (tenór), Martin Vanberg (tenór), Þorkell Helgi Sigfússon (tenór), Philip Barkhudarov (bassi), Örn Ýmir Arason (bassi). Kórar: Schola Cantorum, Cantores Islandiae, Skólakór Kársness. Alþjóðlega barokksveitin í Reykjavík, Scandinavian Cornetts and Sackbuts. Konsertmeistari: Joanna Huszcza. Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason. Tónleikar í Eldborg Hörpu sunnudaginn 3. desember 2023.

TÓNLIST

Magnús Lyngdal

Magnússon

Það kom í hlut Ítalans Claudios Monteverdis (1567-1643) að brúa bilið milli endurreisnar og barokks í tónlistarsögunni. Hann samdi þannig ýmist madrígala, sönglög, óperur og viðamikla kirkjutónlist og er langkunnasta tónskáldið sem var uppi á þessum tímamótum tónlistarsögunnar.

Monteverdi var fæddur á Norður-Ítalíu, nánar tiltekið í Cremona, en komst árið 1591 í þjónustu hertogans af Mantova, fyrst þá sem strengjaleikari við hirðina. Þar þroskaðist hann einnig sem tónskáld og lagði meðal annars stund á að semja madrígala, það er að segja tónlistarform sem hafði mjög tíðkast á endurreisnartímabilinu en var á tíma Monteverdis á útleið. Þannig liggja eftir hann ókjör af madrígölum sem komu út í alls átta aðskildum bókum.

Monteverdi var enn í þjónustu hertogans af Mantova þegar hann samdi Maríuvesperinn en eitt af hlutverkum hans var að annast vikulegan tónlistarflutning, nánar tiltekið á hverjum föstudegi, og árið 1607 leit fyrsta (og frægasta) ópera tónskáldsins, Orfeus, dagsins ljós. Maríuvesperinn kom hins vegar út á prenti árið 1610 og þótti þá þegar frumlegt stórvirki. Hugsanlega samdi Monteverdi verkið með það að augnamiði að fá betri stöðu. Hvað svo sem kann að vera til í því, þá hreppti tónskáldið loks stöðu tónlistarstjóra við Markúsarkirkjuna í Feneyjum árið 1613. Við vitum ekki fyrir víst hvort Monteverdi stjórnaði sjálfur flutningi á verkinu meðan hann lifði en það er þó talið líklegt – að minnsta kosti hlutum þess.

Maríuvesperinn (Aftansöngur hinnar blessuðu Maríu meyjar) hafði Monteverdi tileinkað Páli páfa fimmta en vesper (eða aftansöngur) er tíðagjörð sem fram fer ýmist við sólarlag eða um miðaftan. Þar eru sungnir Davíðssálmar með andstefjum, oft lesið úr ritningunni, sunginn hymni og víxlsöngur og loks flutt Magnificat (lofsöngur Maríu). Verkið þótti afar umfangsmikið á sinni tíð – og þykir reyndar enn – og það er gríðarlega erfitt í flutningi. Fyrir það fyrsta kallar það á sjö einsöngvara, kór sem syngur í allt að tíu röddum og mjög sérhæfða hljómsveit.

Maríuvesperinn hefur aðeins tvisvar áður verið fluttur á Íslandi, síðast í Skálholti í heild sinni fyrir röskum áratug eða svo. Það stóð því mikið til í Hörpu fyrsta sunnudag í aðventu þegar verkið var fært upp með einsöngvurum, þremur kórum og 14 manna hljómsveit. Ég vil nefna það hér strax að betur hefði farið á því að flytja verkið í kirkju, enda samið til flutnings á slíkum stað. Ég geri þennan fyrirvara að vísu ekki af trúarlegri ástæðu, heldur er um að ræða mjög viðkvæma og sérhæfða tónlist sem Eldborgarsalur Hörpu gleypti að hluta til; þannig týndust ýmis smáatriði og blæbrigði í flutningum sem hefðu notið sín betur í kirkju með ríkulegum eftirhljómi.

Sjálfur flutningurinn var hins vegar hinn glæsilegasti en um var að ræða upprunaflutning, það er að segja með eftirlíkingu af hljóðfærum (til að mynda kornettó og endurreisnarbásúnur) sem tíðkuðust á tíma Monteverdis. Þannig lék hljómsveitin án víbratós eins og talið er að áður hafi verið gert en flutningurinn var mjög „hreinn“ og intónasjón var prýðileg. Það sama má segja um einsönginn; hann var ljómandi góður. Einna mest mæddi á tenórunum Benedikt Kristjánssyni og Martin Vanberg en þeir áttu stórleik þetta sunnudagskvöld í Hörpu, til að mynda Benedikt í „Nigra sum (Ég er dökk)“. Allir einsöngvarar sungu jafnframt í kórnum.

Kammerkórinn Schola Cantorum hefur fyrir löngu skipað sér í hóp fremstu kóra landsins (og þótt víðar væri leitað). Flutningur hans á Vesperinum var afar góður og hvergi slegið af. Ýmsar útfærslur voru notaðar á uppstillingu í Eldborgarsalnum og skipti þá máli hvað var verið að syngja (til að mynda víxlsöng). Flest andstefin söng svo Cantores Islandiae, lítill kór sem sérhæfir sig í gregorssöng. Hann stóð uppi á svölum, aftan til, og myndaði skemmtilegt mótvægi við hina kórana. Þá tók Skólakór Kársness þátt í flutningnum eftir hlé og var söngur hans góður. Utan um allt hélt svo Bjarni Frímann Bjarnason og fórst það vel úr hendi. Staða hljómsveitarstjóra, eins og við þekkjum hana í dag, var ekki til á tíma Monteverdis (hún er miklu yngri) en Bjarni Frímann stjórnaði einmitt því sem þurfti á að halda, en gaf líka nokkurt frelsi, til að mynda í mestu af einsöngnum.

Maríuvesperinn þótti stórvirki á sinni tíð en það var einnig þrekvirki að koma þessu 90 mínútna verki til skila í Hörpu. Erlendir hljóðfæraleikarar mynduðu stærstan hluta hljómsveitarinnar, enda um mjög sérhæfðan flutning að ræða. Ég nefni hér til að mynda til sögunnar kornettó og endurreisnarbásúnur (sackbut). Hvorugt tíðkast lengur í nútímaflutningi, en þeir sem sérhæfa sig í upprunaskólanum (Historically Informed Performances – eða HIP) notast einmitt við þessi hljóðfæri. Mér að vitandi leikur að jafnaði enginn á kornettó og/eða endurreisnarbásúnur hér á landi og því komu þessir hljóðfæraleikarar að utan.

Það sem einkenndi flutninginn var samheldni og smekkvísi. Ég hefði hins vegar, eins og áður segir, kosið að hlýða á flutninginn annars staðar en í Eldborg. Það breytir því hins vegar ekki að Maríuversperinn var ljómandi vel fluttur og er ástæða til þess að óska aðstandendum tónleikanna sérstaklega til hamingju með flutninginn. Miklu var kostað til og uppskeran var eftir því.