Gleðileikur Skáldsaga Friðgeirs Einarssonar er harmsaga, en bráðfyndin.
Gleðileikur Skáldsaga Friðgeirs Einarssonar er harmsaga, en bráðfyndin. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Serótónínendurupptökuhemlar ★★★½· Eftir Friðgeir Einarsson Benedikt, 2023. Innb., 176 bls.

Bækur

Árni

Matthíasson

Serótónínendurupptökuhemlar, skáldsaga Friðgeirs Einarssonar, hefst þar sem söguhetja okkar, Reynir, situr á biðstofu. Hann er að leita sér lækninga vegna almennrar kvíðaröskunar. Eins og hann lýsir því við lækninn er eins og það sé „eitur í höfðinu á honum“ sem gerir honum ókleift að finna til gleði. Þáttur í sjúkdómnum eru ranghugmyndir og þrálátar áhyggjur um hversdagslega hluti sem gera hann nánast ófæran um að taka sjálfsagðar ákvarðanir og hann glímir einnig við þunglyndi. Í samtalinu við heilsugæslulækninn kemur Reynir sjálfum sér á óvart með því að brynna músum: „Hann hafði ekki reiknað með að komast við en á sinn hátt var hann ánægður með það, með því að gráta leið honum eins og hann væri að sýna lækninum, og kannski sjálfum sér í leiðinni, að þetta væri engin vitleysa, engin ímyndun. Honum liði í raun og veru illa.“

Í heilsugæsluheimsókninni fær Reynir ávísun á lyf, sértæka serótónínendurupptökuhemla, sem vinna eiga á þynglyndi og kvíða, en hann er ekki viss um að hann vilji láta læknast: fyllist kvíða yfir því hvernig líf hans verði ef hann verði ekki þjáður af kvíða. Í sem skemmstu máli: Serótónínendurupptökuhemlar er skáldsaga um mann sem líður illa og svo líður honum alltaf verr og verr þangað til hann deyr. Kannski.

Að þessu sögðu þá er málið ekki svo einfalt, því þó vissulega sé sagan augljóslega harmsaga, þá tekst Friðgeiri að gera hana grátbroslega, svo þverstæðukennt sem það kann að hljóma, enda á maður ekki að hlæja að þeim sem líður illa. Öðru nær.

Reynir er hjólaáhugamaður sem hefur átt dapra æsku. Eins og við öll reyndar, en það er önnur saga. Hann er í sambúð með þekktri leikkonu, Gerði, og á með henni eina dóttur, Möllu. Á heimilinu er einnig Ísak, sonur Gerðar og fyrrverandi sambýlismenns hennar, Maríusar, sem er eiginlega allt það sem Reynir myndi helst vilja vera: myndarlegur, ákveðinn og röggsamur.

Samskiptin við Maríus eru eðlilega talsverð, þar sem Ísak fer reglulega til pabba síns, og veldur Reyni hugarangri því hann skilur ekki af hverju Gerður valdi hann í stað þess að vera áfram með Maríusi, skilur ekki að hún valdi hann einmitt vegna þess að hann er venjulegur.

Friðgeir Einarsson hefur unun af að kafa ofan í hið hversdagslega og draga fram að ekkert er eins furðulegt og daglegar athafnir, daglegar uppákomur. Þetta birtist til að mynda í samskiptum Reynis við viðskiptavini í hjólabúðinni sem hann rekur af veikum mætti, samskiptum hans við Binna hjólafélaga sinn og Möllu dóttur sína. Sérstaklega eru samskiptin við Möllu grátbrosleg, enda finnur hún hve faðir hennar er mikill daufingi og gengur á lagið. Dæmi:

„Ég er maður, þú ert hundur,“ sagði Malla.

„Allt í lagi,“ sagði Reynir.

„Ekki með opin augun,“ skipaði Malla. „Þú ert dauður hundur.“

Samskipti Reynis við foreldra sína, Klöru og Friðjón, eru á sama hátt sorglega fyndin og birta á sinn hátt það hvernig uppeldið hefur mótað Reyni að svo miklu leyti sem það mótar okkur yfirleitt. Segir sitt að þegar Reynir var barn átti hann eiginlega bara ímyndaða vini og varði heilu dögunum í hjólakeppnum við þá, ímyndaða og litríka vini sem höfðu ekki roð við hjólakappanum Reyni. Vissulega höfðu foreldrarnir áhyggjur af því að Reynir væri alltaf einn, en það hefði bara verið til vandræða ef alvöru félagar hefðu slegist í hópinn: „Það geta ekki verið margir guðir, ekki í mínum heimi.“

Þegar komið er að lokaspretti bókarinnar, hjólreiðakeppninni sem Binni skráði þá félaga í og Reynir hefur (ekki) verið að æfa fyrir alla bókina, er mælirinn fullur og Reynir kominn á þann stað að hann vill ekki lengur gera það sem aðrir vilja að hann geri, segir Binna að halda kjafti (að vísu ekki upphátt, en hugurinn skiptir mestu máli, ekki satt) og ákveður að segja skilið við hjólreiðar fyrir fullt og allt: „Aldrei aftur. Þetta var síðasti spretturinn.“

Fellur allt í ljúfa löð? spyr lesandinn sig: Verður gleðileikurinn guðdómlegur? Já, vissulega. En í upprunalegri merkingu, því miður.