Kristján Jónsson
Dóri DNA, eða Halldór Laxness Halldórsson erfðaefni, hlýtur að teljast senuþjófur vikunnar í sjónvarpi. Rapparinn, uppistandarinn, handritshöfundurinn, leikarinn og rithöfundurinn getur nú skreytt sig með enn fleiri fjöðrum eins og jarðvísindamaður og spámiðill.
Dóri var gestur í Spursmálum, nýjum netsjónvarpsþætti á mbl.is, síðasta föstudag og auðvitað spáði okkar maður því einfaldlega að gos myndi hefjast á Reykjanesi í þessari viku. Ekki verður annað sagt en að Dóri hafi fengið galopna spurningu þegar hann kastaði frá spádómnum þótt virkir í athugasemdum keppist kannski ekki við að saka þáttastjórnandann Stefán Einar um að vera með opnar spurningar.
Stefán spurði: „Hverjar verða stóru fréttirnar fram að jólum?“
„Ég veit það. Það verður eldgos í næstu viku,“ var svarið.
Svo einfalt var það en í framhaldinu skapaðist skemmtileg umræða um að „Dóra þykka“ yrði skipt inn fyrir „Þorvald þykka“ næst þegar ræða þyrfti jarðhræringar eins og Dóri orðaði það. Stefán lýsti því raunar yfir að Dóri yrði kallaður aftur í þáttinn ef þessi spádómur myndi ganga eftir. Boltinn er því hjá Stefáni Einari og Halli Má framleiðslustjóra.