Örn Ágúst Guðmundsson tannlæknir fæddist í Stykkishólmi 28. september 1938. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Grund 7. desember 2023 85 ára að aldri.

Hann var sonur Guðmundar Ágústssonar úr Vík við Stykkishólm og Fjólu Sigurðardóttur frá Fellsstönd í Dalasýslu. Hann var elstur þriggja systkina, þeirra Sesselju og Sigurðar Guðmundsbarna.

Örn gekk í Menntaskólann á Akureyri og var þar virkur í leiklistarfélagi nemenda. Hann flutti suður að loknu námi og kvæntist 4. júní 1960 Erlu Stefánsdóttur tónlistarkennara. Örn vann sem tannlæknir í Reykjavík frá 1966 og þar til hann lét af störfum 2013. Hann stundaði framhaldsnám í röntgenfræðum tannlækna í Bergen í Noregi á árunum 1973-1976 og kenndi við tannlæknadeild Háskóla Íslands með hléum frá 1971 til 1994.

Hann var virkur félagi í Frímúrarareglunni og Guðspekifélaginu, nú Lífspekifélagið. Erla og hann störfuðu innan Guðspekifélagsins og hann var deildarforseti félagsins 1980 – 1984 og forseti Sálarrannsóknarfélagsins 1985-1987. Þau mótuðu í sameiningu þá lífssýn sem byggði á skynjunum Erlu og fræðum Guðspekifélagsins. Hann var áhugamaður um söng, tónlist, leiklist, ljósmyndun, heimspeki og táknfræði.

Örn og Erla eignuðust þrjú börn; 1) Salome Ásta heimilislæknir, sambýlismaður Hermann Bjarnason, börn Salome eru 1a) Erla Steinunn, 1b) Laufey Ásta, maki Ari Freyr Oddsson, börn þeirra eru Ernir Freyr, Salome Auður, Hrannar Rafn og Katrína, 1c) Guðrún Fjóla, maki Kristín Ástríður Ásgeirsdóttir, 2) Sigþrúður Erla sálfræðingur, gift Tómasi Gíslasyni, börn þeirra eru 2a) Arna Dögg maki Jóhann Friðriksson, börn þeirra eru Tómas Haukur og Friðrika Erla, 2b) Anna Kara, maki Esra Þór Jakobsson, barn þeirra er Eyvör Úa, 2c) Þór, maki Elín Ástrós Þórarinsdóttir, börn þeirra eru Hlynur og Kári og 3) Stefán Örn tónlistarmaður og kennari, maki Sarah O‘Neill, börn þeirra eru 3a) Ymir Örn, 3b) Regin og 3c) Aron Freyr.

Örn og Erla skildu árið 1991. Örn giftist Ingiríði Hönnu Þorkelsdóttur árið 2001. Þau skildu árið 2006. Örn var í sambúð með Margréti Þormar arkitekt frá árinu 2009 til dauðadags.

Útför Arnar fer fram frá Neskirkju í dag, 22. desember 2023, klukkan 13.

Kynni okkar Arnar hófust fyrir um það bil 64 árum, hann var einn af þeim góðu vinum sem fylgdu kynnum mínum við tilvonandi manninn minn Stefán Örn.

Þeirra kynni hófust í Menntaskólanum á Akureyri, þau uxu og urðu að órofa tryggð og vináttu meðan báðir lifðu.

Óteljandi samverustundir áttum við á heimilum beggja, oft var komið saman á jólum á fyrstu búskaparárunum, afmælum og öðrum viðburðum því börnin okkar voru á sama aldri.

Þau Erla og Örn heimsóttu okkur til Kalundborgar og síðar heimsóttum við þau og börnin þeirra til Bergen þegar hann var þar í framhaldsnámi. Það var gaman að koma til þeirra þangað, við keyrðum með þeim upp til Voss þar sem við skoðuðum meðal annars mikla og merka stafkirkju.

Örn reyndist okkur vel sem tannlæknir, var einkar vandvirkur, auk þess sem hann spurði einskis meðan setið var í stólnum hjá honum með fullan munninn af hinum ýmsu tækjum.

Á hverju ári var það tilhlökkunarefni að fá Örn í skötuveisluna á Þorláksmessu.

Þegar farið var að halla undan fæti fyrir Stefáni kom Örn reglulega til vinar síns. Þeir ræddu gömlu góðu dagana, gátu líka bara þagað saman, það voru dýrmætar stundir sem ber að þakka.

Síðustu 14 árin átti Örn einstaklega góða samfylgd og trygga vináttu í sambýliskonu sinni Margréti Þormar, sem reyndist honum ómetanlegur stuðningur í vaxandi veikindum hans. Fyrir það var hann afar þakklátur.

Kær vinur og einstakt prúðmenni er hér kvaddur með þökk fyrir samfylgdina.

Innilegar samúðarkveðjur til Margrétar, Salome Ástu, Sigþrúðar Erlu og Stefáns Arnar, maka og afkomenda.

Gunnþórunn og fjölskylda.