Varsjá Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar fylktu liði á götum Varsjár fyrir utan höfuðstöðvar TVP til að mótmæla aðgerðum nýrrar stjórnar.
Varsjá Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar fylktu liði á götum Varsjár fyrir utan höfuðstöðvar TVP til að mótmæla aðgerðum nýrrar stjórnar. — AFP/Wojtek Radwanski
Ný ríkisstjórn Póllands gerði það að sínu fyrsta verki að hefja „hreinsunarstarf“ á ríkisfjölmiðlum og á miðvikudaginn sagði hún upp fjölda manns og yfirmanna. Stjórn nýja forsætisráðherrans, Donald Tusks, segir stjórnendur og lykilmenn…

Ný ríkisstjórn Póllands gerði það að sínu fyrsta verki að hefja „hreinsunarstarf“ á ríkisfjölmiðlum og á miðvikudaginn sagði hún upp fjölda manns og yfirmanna. Stjórn nýja forsætisráðherrans, Donald Tusks, segir stjórnendur og lykilmenn ríkisfjölmiðlanna vilhalla fyrri ríkisstjórn PiS-flokksins, sem stjórnaði Póllandi um átta ára skeið, og sagði í yfirlýsingu að tiltækið væri til að endurheimta „óhlutdrægni“ opinberra fjölmiðla. Stuttu eftir að yfirlýsingin birtist var útsending ríkisfréttastofunnar TVP rofin og einnig var vefsíða miðilsins tekin niður. Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar fylktu liði til að mótmæla fyrir utan TVP.

Stjórnarandstaðan sagði breytingarnar ólöglegar og líkir tiltækinu við fyrsta skrefið í átt að einræðisríki. Jaroslaw Kaczynski, formaður PiS, sagði við blaðamenn á þriðjudag að það væri ekkert lýðræði án fjölhyggju í fjölmiðlum sem veita stjórnvöldum aðhald. Forseti landsins, Andrzej Duda, hvatti Donald Tusk til að fara eftir lögum landsins á samfélagsmiðlinum X, en hann er mikill stuðningsmaður fyrri stjórnar. Tusk svaraði honum samstundis og sagði að aðgerðir dagsins væru til þess að „koma á eðlilegu réttarfari og almennu velsæmi í opinberu lífi“.