Afkastamikil Guðrún hefur skrifað eina bók á ári síðan 2014. Næsta bók er skáldævisaga.
Afkastamikil Guðrún hefur skrifað eina bók á ári síðan 2014. Næsta bók er skáldævisaga. — Morgunblaðið/Hari
Tíunda sakamálasaga Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur nefnist Dagstjarna. Í bókinni er Alma búin að venda kvæði sínu í kross eftir brösuglegan hlaðvarpsferil og ráða sig sem almannatengill fyrir nýstofnaðan stjórnmálaflokk, Dagstjörnuna

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Tíunda sakamálasaga Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur nefnist Dagstjarna. Í bókinni er Alma búin að venda kvæði sínu í kross eftir brösuglegan hlaðvarpsferil og ráða sig sem almannatengill fyrir nýstofnaðan stjórnmálaflokk, Dagstjörnuna.

Strax á fyrstu síðu er lesandanum varpað inn á vettvang glæpsins: Í kaffihléi á fundi hins nýja flokks fyrir austan fjall, finnst ljóshærð kona á grúfu í læk fyrir utan fundarstaðinn. Lífgunartilraunir bera engan árangur. Hver er konan og hver ber ábyrgð á dauða hennar? Fléttan flækist.

Guðrún hefur síðan 2014 skrifað eina Ölmu-bók á ári og heimildir Morgunblaðsins herma að Dagstjarnan sé sú síðasta.

„Já, það er rétt. Alla vega eins og staðan er núna. Alma er búin að prófa allt sem hægt er að gera í blaðamennsku og því tímabært að segja þetta gott. Hún hefur verið venjulegur blaðamaður, skrifað á vefmiðla, unnið við hlaðvarp o.s.frv. en í þessari bók er hún orðin almannatengill.“

Sem er síðasta sort, eða hvað?

„Ja, það var nú stundum sagt hér í gamla daga – að það væri ekki hlutlaus blaðamennska sem réði för heldur hagsmunir.“

Guðrún er þögul sem gröfin þegar hún er spurð hvort stjórnmálaflokkurinn Dagstjarnan eigi sér spegilmynd í íslenskri pólitík.

„Ég hef komið að stofnun þrennra stjórnmálasamtaka en ég gef ekkert upp hver fyrirmyndin sé.“

Ólíkt mörgum söguhetjum hefur Alma elst og þroskast eins og höfundurinn á þessum tíu árum.

„Í fyrstu bókinni er hún 49 ára gömul. Og hér er hún 10 árum eldri. Hún byrjar sem blaðamaður á Morgunblaðinu en staldrar ekki lengi við og svo flakkar hún á milli starfa. Það má segja að hún hafi verið óheppin á vinnumarkaði enda á þessum aldri. Eins og Alma segir á einum stað þá er hún með „eitraða kennitölu“. Hún hefur reynt að vera dugleg og plumað sig ágætlega en þetta hefur ekki verið auðvelt hjá henni. Hún hefur lent í skilnaði. Tók svo saman við manninn sinn aftur. Hann hélt framhjá henni og hún hélt framhjá honum og svo hefur barnauppeldið ekki verið auðvelt. En það hefur líka margt skemmtilegt gerst í hennar lífi eins og í lífi okkar allra.“

Er erfitt að segja skilið við Ölmu?

„Já, ég get ekki neitað því. Þetta hefur verið minn hliðarveruleiki undanfarin tíu ár og maður slítur sig ekki frá því auðveldlega. Ég sé svolítið eftir henni en nú er kominn tími til að snúa sér að öðru verkefni.“

Hvaða verkefni er það?

„Ég hef lengi verið að skrifa skáldævisögu og satt að segja er þessi skáldævisaga ástæðan fyrir því að ég byrjaði að skrifa um Ölmu. Ég var búin með 40.000 orð og aðframkomin. Þetta var svo erfitt og tók svo á að ég hugsaði með mér að það væri mun auðveldara að skrifa sakamálasögu. En nú ætla ég að gera aðra atlögu og sjá hvort mér takist ekki að klára.“

Að lokum spyr ég Guðrúnu hvernig viðtökurnar hafi verið á þessum tíu árum og hvort Alma hafi gert hana ríka.

„Þær hafa allavega staðið undir sér. Svo hefur Storytel gert mér ákaflega gott. Má eiginlega segja að það sé mitt annað forlag. Þeir hafa komið mjög vel fram við mig og mér þykir mjög vænt um Storytel. Ég las bækurnar mínar til að byrja með en svo hefur Sólveig Guðmundsdóttir leikkona tekið við lestrinum og gerir það afskaplega vel.“

Höf.: Höskuldur Ólafsson