Þórarinn Gíslason fæddist í Vestmannaeyjum 31. júlí 1962. Hann varð bráðkvaddur á Skjólgarði á Höfn í Hornafirði þann 12. desember 2023.
Faðir hans var Gísli Bergsveinn Ólafur Lárusson frá Miðhúsum í Hvolhreppi, f. 11. júní 1940, d. 2. febrúar 2014, móðir hans er Guðrún Þórarinsdóttir frá Vestmannaeyjum, f. 14. nóvember 1940. Systur hans eru Jóna Bryndís, f. 24.10. 1967, er hún gift Vilhjálmi Sveini Björnssyni og eiga þau fjögur börn og sjö barnabörn, og Sigrún, f. 31.7. 1969, er hún gift Bjarna Þór Hjaltasyni eiga þau þrjár dætur og eitt barnabarn.
Kona Þórarins er Karen Dagmar Guðmundsdóttir, f. 19.10. 1978. Börn þeirra eru Ragnheiður Tara, f. 17.9. 1997, Guðmundur Gísli, f. 1.10. 2012, Þórarinn Rúnar, f. 22.11. 2013, og Matthías Hrafn, f. 15.4. 2018.
Þórarinn var í sambúð með Bryndísi Ann Brynjarsdóttur, f. 3.8. 1963. Þau skildu en eiga tvo syni, þeir eru: 1) Brynjar Þór, f. 7.9. 1986, er hann giftur Ágústu Ýr Sigurðardóttur og eiga þau tvær dætur, Elísabetu Ann, f. 12.3. 2016, og Emilíu Karen, f. 10.10. 2019. 2) Gunnar Már, f. 12.6. 1992, sambýliskona hans er Carolina Millan.
Þórarinn var giftur Kristínu Valgeirsdóttur, f. 27.2. 1962, þau skildu.
Útför Þórarins fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 22. desember 2023, klukkan 15.
Í dag kveð ég besta vin minn og samferðamann síðustu 12 ár.
Við eignuðumst þrjá yndislega stráka saman og þú eignaðir þér dóttur mína strax og varðst pabbi hennar. Við vorum ávalt samstiga í öllu þeim viðkomandi, líka þegar ég var ólétt af Matta okkar, þá vorum við sammála að allir ættu rétt á að fæðast því ekkert er til sem heitir að vera heilbrigðari en annar og að eiga barn með downs-heilkenni er ekki það sama og að eiga óheilbrigt barn, en Matti okkar er falleg guðs gjöf og baráttujaxl.
Líf okkar var gott þegar Bakkus lét okkur í friði og nýttir þú ávallt edrútímann vel og eru ævintýraferðirnar og brallið úti í garði góðar og eftirminnilegar fyrir strákana, eins 11 mánaða Spánardvölin og bíltúrinn heim frá Spáni til Íslands með viðkomu í Disney World í París.
Sjómannadaginn var ávallt í uppáhaldi og fóruð þið feðgar þá í siglinguna og á öll söfn.
Covid-tíminn var æðislegur og þú tókst heimaskólann ansi alvarlega þó tilraunirnar úti á palli hefður verið miklar og ansi margar ferðir hafi verið farnar til að kaupa edik, matarsóda og matarliti. Svo var til fullt af Kínverjum og snjórinn á pallinum var í öllum regnbogans litum.
Í dag kveð ég manninn sem ég elskaði og sakna. Ég veit þú hefur öðlast frið og munt vaka og passa Matta okkar og koma honum í gegnum næstu aðgerðir svo ég fái að hafa hann hjá mér næstu áratugina. Þú munt passa og vernda stóru strákana okkar, þá Gumma og Tóta litla.
Hvíl í friði elsku Tóti, minning þín mun lifa að eilífu í strákunum.
Þín
Karen.
Elsku pabbi minn, mig verkjar í hjartað að þú sért farinn frá mér.
Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér, að hafa fengið að kalla þig pabba, vera einkadóttir þín. Þú sagðir að þegar þú kynntist mömmu þá hafir þú ekki bara fundið eina ást heldur tvær, langþráður draumur um að eiga dóttur rættist.
Þú varst svo kraftmikil maður, með smitandi gleði og fordómalaus við aðra. Það er enginn eins og þú, enginn jafn góður og stuðningsríkur. Stóðst með mér og varst alltaf með mér í liði, alltaf hreinskilinn við mig og hjálpaðir mér ef ég þurfti þig.
Ég verð ævinlega þakklát fyrir þig og allt sem þú hefur kennt mér.
Takk fyrir að móta mig í konuna sem ég er í dag og sýna mér hversu stoltur þú varst af mér, þú gafst mér von og gerðir mig bjartsýna þegar ég átti erfitt og leiðbeindir mér á mína réttu braut. Þú kenndir mér að dæma aldrei neinn og að vera alltaf góð við náungann, fagnaðir sigrum með mér og hvattir mig áfram þegar ég stóð mig vel og huggaðir mig í sorg.
Í sumar kláraði pabbi meðferð og var í endurhæfingu, hann treysti mér til að skrifa þrjá kosti um sig til að lesa fyrir hópinn sinn.
Þegar ég hugsa um þá kosti sem faðir minn hefur þá er það fyrsta sem mér dettur í hug er hve skilningssamur hann gat verið, getan til að setja sig i spor annarra án þess að hafa upplifað neitt því líku, þolinmæðin að hlusta og skilja tilfinningar eða aðstæður.
Jákvæðni og drifkraftur er annar kostur sem ég dáist að, fullur markmiða og eykur öðrum í kringum sig kraft til að framkvæma drauma sína og þrár. Alltaf tilbúinn að hjálpa og vera til staðar en það getur verið ókostur líka því maður getur ekki hjálpað öllum.
Ég mun aldrei gleyma þér, pabbi minn, og mun heiðra minningu þína þar til minn tími kemur og við verðum sameinuð á ný.
Ragnheiður Tara.
Þórarinn var harðduglegur maður, sama hvað hann tók sér fyrir hendur. Byrjaði ungur að vinna með pabba sínum í byggingarvinnu. Lærði rafvirkjun og vann lengi með Sturlu Snorrasyni og einnig rak hann eigið fyrirtæki, Rafgengi ehf. Hann var í 10 ár í Smith og Norland. Sölumaður að guðs náð. Vel liðinn af samstarfsmönnum og samferðafólki.
Bakkus fór að fylgja honum snemma og skemmdi mikið fyrir honum og hans fjölskyldum, því sama hvað hann barðist og reyndi og alltaf þegar vel gekk ruddist Bakkus inn og eyðilagði allt. Þórarinn reyndi stöðugt losna undan áhrifum áfengisins og gafst aldrei upp. Hann ætlaði að hafa betur.
Þórarinn var yndislegur pabbi þegar veikindin háðu honum ekki og nýtti tímann ávallt vel með yngstu strákunum sínum. Covid-tíminn var sá besti, því þá var engin freisting og breytti hann húsinu í skólastofur og var besta útgáfan af sér á lengsta edrútíma síðustu 12 ára. En eftir alvarleg veikindi Matta litla í sumar þá yfirtók Bakkus Þórarin og ekki varð aftur snúið.
Þórarinn fékk tímabundið pláss á Skjólgarði á Höfn í Hornafirði núna í október og var orðinn vongóður um betra líf. Við fjölskyldan viljum senda starfsfólki og heimilismönnum, sem hann kynntist þar, bestu þakkir fyrir frábæra umönnun og virðingu sem honum og okkur var sýnd þegar hann varð bráðkvaddur hinn 12. desember síðastliðinn.
Karen Dagmar
Guðmundsdóttir.