Ásdís Guðný Ragnarsdóttir fæddist 1. febrúar 1945 í Vestmannaeyjum. Hún lést á dvalarheimilinu Grund 13. desember 2023.
Foreldrar hennar voru Ragnar Stefánsson, f. 19.2. 1918, d. 16.6. 1985, og Sigríður Erna Ástþórsdóttir, f. 18.9. 1924, d. 11.11. 1979. Systkini Ásdísar eru Ástþór, f. 1946, d. 2019, Anna Eyvör, f. 1948, og Stefán, f. 1953, d. 2013.
Ásdís var gift Valdimari Jónssyni og átti með honum þrjú börn; Ragnar Þorra, f. 1966, Þórdísi Eyvöru, f. 1972, og Jón Rafn, f. 1973.
Ragnar Þorri á tvö börn með fyrrverandi eiginkonu, Elenu Zetterman, þau eru Viktor Már, f. 1994, og Yrsa Líf, f. 1997. Núverandi sambýliskona Ragnars er Anna María McCrann.
Þórdís Eyvör á fjögur börn með eiginmanni sínum, Orra Jónssyni, þau eru Eyja, f. 1995, Kári, f. 1997, Flóki, f. 2007, og Þorri, f. 2009.
Jón Rafn á tvö börn með eiginkonu sinn, Hildi Sigurðardóttur, þau eru Áróra, f. 2004, og Rökkvi, f. 2009.
Ásdís var félagsfræðingur með BA-próf frá Háskóla Íslands, mastersgráðu frá Western Michigan University og M. phil.-próf frá London School of Economics.
Hún starfaði víða sem félagsfræðingur, m.a. hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Science Museum at Imperial College og Gallup. Auk þess starfaði Ásdís m.a við kennslu í Iðnskólanum á Ísafirði, sem ritari á lögfræðistofu, verkefnastjóri hjá Skref fyrir skref, hjá ASÍ og Félagi bókagerðarmanna.
Minningarathöfn fer fram í Gamla bíói í dag, 22. desember 2023, klukkan 14.
Mér líður eins að skrifa núna og þegar ég stóð við rúm ömmu og kvaddi. Ég ætlaði að segja öll fallegu orðin, draga fram bestu minningarnar og ná að kjarna samband okkar, svona eins og þau gera í bíómyndunum. Í staðinn stóð ég og hökti eins og brotin plata: „ég elska þig“ aftur og aftur og aftur. Þarna lá kona sem ég hef elskað frá því áður en ég fékk hugtak yfir tilfinninguna eða lærði orðin; ást og amma.
Rétt eftir að amma greindist með alzheimer gróf hún upp greinar eftir sig og gaf mér – sagðist ekki vilja að við gleymdum að þetta væri hún. Eins og við fjölskyldan höfum ekki allt okkar líf reynt að halda í við þennan snöggklippta koll. Reynt að halda í við fréttafíkilinn og baráttukonuna sem mætti á svo mörg mótmæli að henni var á tímabili meinaður aðgangur til Bandaríkjanna. Það ættu fleiri að reyna að halda í við ömmu, núna sérstaklega. Amma dró okkur barnabörnin á öll mótmæli, hvort sem það var til að fleyta kertum, mynda friðarmerki eða öskra slagorð – okkur vantar fleiri hjartahlýja fanta í þennan heim.
Ég dreg fram pólitískan aktivisma ömmu ekki til að kjarna sjálfsmynd hennar í honum, heldur til að sýna þá eiginleika sem ég tengi mest við hana. Því til að vera aktivisti þarftu að sækja þekkingu, sýna bæði hugrekki og þrautseigju, og rækta hjarta þitt þar til það springur út til allra í kring.
Ég er ekki bara að syrgja ömmu sem ól mig upp, heldur líka vinkonu sem hlustaði á aumkunarverðar táningsraunir mínar, tillitssaman þverhaus sem ögraði heimssýn minni, var griðastaður minn og fyrirmynd. Amma ég elska þig, ég elska þig, ég elska þig …
Eyja Orradóttir.
Dísa mín var rúmlega þremur árum eldri en ég þannig að alla mína ævi hefur hún verið stór hluti af tilveru minni og æskuminningum. Við vorum fjögur systkinin en Stefán sá yngsti lést árið 2013 og Ástþór, eða Bói, lést 2019.
Við bjuggum í frekar lítilli íbúð í blokk svo við deildum herbergi sem var svo mjótt að við sváfum alltaf saman í svefnsófa. Þarna deildum við gleði og leyndarmálum þangað til Dísa flutti að heiman hálfgengin með frumburð sinn Ragnar Þorra sem óneitanlega þrengdi nokkuð að okkur. Þessi mikla nánd á stóran þátt í því hve tengdar við höfum alltaf verið og átt auðvelt með að skilja hvor aðra.
Ótrúlegt en satt en það fór aldrei styggðaryrði á milli okkar. Það var ekki af því að Dísu skorti skap eða skoðanir en hún var bara svo lagin í samskiptum og þeir sem þekktu hana vita að hún kom sínu til skila hávaðalaust. Við æfðumst líka talsvert í samningatækni því nánast allt sem við áttum var sameign. Við systur höfðum þá ófrávíkjanlegu skyldu að vaska upp eftir kvöldmatinn, ég vil taka fram að á þessum árum tíðkaðist ekki að drengir hefðu viðkomu í eldhúsinu nema til að borða.
Dísa byrjaði eðlilega fyrr að fara út á lífið á kvöldin og þurfti tíma til að „smúkkisera“ sig og þá samdi hún við mig um að taka uppvaskið ein. Launin voru hennar hlutur í þeim fáu hlutum sem okkur þóttu eftirsóknarverðir í herberginu okkar, þ.e. snyrtiborðinu, hárþurrkunni, plötuspilaranum eða ferðaútvarpinu. Hárþurrkan hafði tvöfalt gildi því þetta voru ár túperingar og býflugnabúsgreiðslu og við auðvitað með sítt hár. Ég verð þó að viðurkenna að stundum misnotaði ég aðstöðu mína og píndi hana til að taka mig með í skiptum fyrir ákveðinn fjölda uppþvotta og ég á góðar minningar úr aftursæti í bíl á rúntinum. Ég dáist enn að því hvað hún nennti að druslast með mig í eftirdragi.
Aðstæður höguðu því þannig að við vorum langdvölum í sundur vegna vinnu og náms. Dísa fór seint í nám en hélt ótrauð utan í framhaldsnám með hluta fjölskyldunnar og lét ekkert stoppa sig. Að vera einstæð móðir í nýju landi var ögrun sem hún skoraðist ekki undan og stóð sig vel eins og í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Hugrekki var aðeins einn hennar mörgu kosta, hún var einstakur mannvinur, fullkomlega fordómalaus, einlægur friðarsinni, hjálpfús með eindæmum, vel gefin og svo margt fleira gott en í einu orði sagt var hún yndisleg.
Aðrir munu væntanlega segja frá starfsævi hennar en þessar línur eru einungis ætlaðar til að minnast einstaks sambands okkar sem aldrei bar skugga á. Þegar ég lít til baka er áhugavert að skoða hvernig tengslin þróast. Fyrstu árin treysti ég á hennar forsjá og umhyggju, síðan tók við lengsti kafli ævi hennar þar sem við vorum á jafningjagrundvelli en svo urðu ákveðin kaflaskil og hlutverkin snerust við þegar leið á ævikvöldið.
Eitt breyttist þó aldrei og það var hin mikla væntumþykja og virðing sem einkenndi samband okkar og ég verð ævinlega þakklát fyrir.
Hvíldu í friði, elsku Dísa mín, og takk fyrir allt.
Anna Eyvör Ragnarsdóttir (Úgga).