Útrás Íslenska jólabókaflóðið teygir sig orðið víða um heim. Þessi mynd var tekin í Zenith-bókabúðinni í Duluth í Minnesota í Bandaríkjunum.
Útrás Íslenska jólabókaflóðið teygir sig orðið víða um heim. Þessi mynd var tekin í Zenith-bókabúðinni í Duluth í Minnesota í Bandaríkjunum.
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Bókaormar um allan heim hafa á síðustu árum sýnt íslenska jólabókaflóðinu sífellt meiri áhuga. Sú hefð að Íslendingar gefi hver öðrum innpakkaða bók í jólagjöf og eyði svo jólahátíðinni í lestur við kósí aðstæður og með súkkulaði eða kakó við hönd virðist höfða til margra. Á samfélagsmiðlum má sjá þúsundir færslna þar sem fólk fagnar þessu fyrirbæri. Í gær var fjallað um það á mbl.is að Júnía Lín Jónsdóttir, systir hinnar kunnu Laufeyjar Línar, hefði kynnt fylgjendum sínum á TikTok þetta fyrirbæri. Hin heimsfræga leikkona Sarah Jessica Parker endurbirti á dögunum færslu um jólabókaflóðið á Instragram en þar er hún með um 10 milljónir fylgjenda.

„Ég sit í stjórn alþjóðasamtaka útgefenda og er oft spurður um þetta á þeim vettvangi. Það kemur hins vegar á óvart hversu víða þetta hefur skotið upp kollinum meðal almennings. Þetta ferðast í einhverjum kanölum á samfélagsmiðlum og maður sér að fólk úti um allan heim er að dreifa þessu,“ segir Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda.

Erfitt er að ætla hvenær þessi snjóbolti fór af stað. Árið 2012 var fjallað um jólabókaflóðið íslenska á vef NPR og ekki má ólíklegt telja að það sé stór varða á leiðinni, ef ekki upphafspunkturinn. Síðan þá hefur alla vega fjölmiðlaumfjöllun smám saman aukist ár frá ári og útbreiðslan þar með. Einföld yfirreið um lendur netsins sýnir að jólabókaflóðið hefur náð til fólks víða í Bandaríkjunum, Kanada, Mexíkó, Bretlandi og fleiri Evrópulöndum.

Greint var frá því í Morgunblaðinu í fyrra að ungur Hafnfirðingur sem búsettur er í Arizona var fenginn til að halda fyrirlestur fyrir nemendur í miðskóla í Tucson um jólabókaflóðið. Og þróunin hefur verið þannig víða að reynt er að hvetja til aukins lesturs með því að vekja áhuga fólks á þessum forvitnilegu siðum okkar. „Já, þessi rómantíska hugmynd af okkur kúrandi með kakó í timburkofum í landi elds og ísa höfðar til margra. Svo vilja margir hvetja til aukinnar samveru fjölskyldna yfir hátíðarnar og að fólk sameinist þá í að lesa, ekki að hanga í símanum,“ segir Heiðar Ingi.

Dæmi eru um að bókaverslanir bjóði til sölu sérstaklega samansetta pakka fyrir fólk til að njóta jólabókaflóðsins. Einn pakki sem auglýstur er til sölu á instagram inniheldur til dæmis þrjár bækur, notalega sokka, huggulegt jólakerti og súkkulaði, nema hvað. Víða er boðið upp á fría innpökkun og súkkulaði með hverri keyptri bók. Bókaútgefendur og bloggarar hafa líka nýtt jólabókaflóðið í markaðsskyni.

Heiðar Ingi hefur oft verið fenginn í viðtöl í erlendum fjölmiðlum um þetta fyrirbæri. Í næstu viku hefur hann til að mynda verið boðaður í viðtal í beinni útsendingu á fréttastöðinni CNN. „Það verður bara gaman. Ég þurfti að senda þeim hljóðbút því þau vildu undirbúa sig fyrir framburðinn á orðinu jólabókaflóð.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon