Sveinn Agnarsson
Sveinn Agnarsson
Í ársskýrslu SKE, sem kom út í lok október, kom fram í ávarpi Sveins Agnarssonar að reglulega hefðu komið fram „sjónarmið sem miða að því að veikja starf Samkeppniseftirlitsins og grafa undan stofnuninni“ eins og það var orðað í ávarpinu …

Í ársskýrslu SKE, sem kom út í lok október, kom fram í ávarpi Sveins Agnarssonar að reglulega hefðu komið fram „sjónarmið sem miða að því að veikja starf Samkeppniseftirlitsins og grafa undan stofnuninni“ eins og það var orðað í ávarpinu og stjórnvöld hvött til þess að láta þær raddir sem vind um eyrun þjóta.

Morgunblaðið bar þessi ummæli undir Svein og bað hann um að nefna dæmi um sjónarmið sem komið hafa fram.

Í svari sínu segir Sveinn að SKE fagni málefnalegri umræðu um þessi málefni. Þá sé eðlilegt að rætt sé um störf SKE og því veitt aðhald, en því markmiði verði best náð með því að gera góða grein fyrir bæði sjónarmiðum SKE sem og fyrirtækja og samtaka þeirra. „Um leið hefur eftirlitið bent á að í opinberri umræðu þurfi að gera hagsmunum almennings af virkri samkeppni og samkeppniseftirliti hærra undir höfði, andspænis sjónarmiðum fyrirtækja sem sæta eftirliti. Með þetta í huga, og í þágu upplýstrar umræðu, hefur Samkeppniseftirlitið alloft á liðnum árum þurft að leiðrétta umfjöllun í fjölmiðlum og birta pistla og fréttir á heimasíðu sinni,“ segir Sveinn.

Morgunblaðið ítrekaði beiðni sína um að nefnd væru dæmi um sjónarmið sem komið hefðu fram sem væru til þess fallin að veikja eða grafa undan SKE. Sveinn vildi ekki nefna slík dæmi og vísaði í fyrra svar.