Ólöf Jóna Haraldsdóttir (Lóa), Vallarbraut 11, Akranesi, fæddist á Akranesi 15. febrúar 1946. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Höfða 7. desember 2023.
Foreldrar Lóu voru Haraldur Gísli Bjarnason trésmíðameistari, f. 8. janúar 1905, d. 1998 og Sigríður Þorgerður Guðjónsdóttir, húsfreyja og verkakona, f. 10. október 1910, d. 1995.
Systkini Lóu voru Guðjón, f. 24. febrúar 1936, d. 26. desember 2019, og Bjarnfríður, f. 16. mars 1940, d. 27. nóvember 2018.
Árið 1967 giftist Lóa Ingólfi Steindórssyni, f. 9. ágúst 1942. Þau skildu. Með honum átti hún soninn Harald, f. 1. ágúst 1970. Eiginkona Haraldar er Jónína Halla Víglundsdóttir, f. 15. janúar 1969, og eru börn þeirra: 1) Unnur Ýr, f. 1994, sambýlismaður hennar er Teitur Pétursson, f. 1993, og eru dætur þeirra Emma Dís og Ísold. 2) Tryggvi Hrafn, f. 1996, sambýliskona hans er Birta Ketilsdóttir, f. 1999, og er dóttir þeirra Tinna Hrafney. 3) Hákon Arnar, f. 2003, sambýliskona hans er Védís Agla Reynisdóttir, f. 2003. 4) Haukur Andri, f. 2005.
Sambýlismaður Lóu er Benedikt Jónsson, f. 24. júní 1946. Börn hans eru Guðjón Bragi, f. 5. mars 1966, Rafn, f. 8. nóvember 1970, og Erla Ósk, f. 22. apríl 1978.
Útför Lóu fer fram í Akraneskirkju í dag, 22. desember 2023, klukkan 11.
Mamma er dáin. Það er erfitt að skrifa þessi orð. En svona er lífið, maður kemur og fer þegar tíminn er kominn. Mamma var góð kona, heiðarleg, traust og samviskusöm. Hún ól mig upp, einbirnið, í þessum anda, að hafa þessi gildi í fyrirrúmi og ég hef reynt að halda þeim á lofti. Sem krakki var ég nú alveg orkumikill og óþekkur og reyndi þá á þolinmæði mömmu, en hún var nú sjaldnast að æsa sig, talaði mann til á rólegu nótunum og sagði manni svo að fara út að leika eða í fótbolta.
Mamma þurfti að hafa fyrir hlutunum en ég gerði mér samt ekki grein fyrir því fyrr en á fullorðinsárum hversu mikla vinnu og alúð hún sýndi til að sjá um mig, bara mig. Mamma var prívat persóna, vildi ekki láta á sér bera og var ekki mikið fyrir myndatökur. En hún var traustur vinur vina sinna, hugsaði vel um fjölskylduna sína og átti einstaklega gott samband við Fríðu systur sína.
Þegar ég var 18 ára byrjuðu mamma og Benni að stinga saman nefjum. Það var gæfa þeirra beggja að hittast og hefur Benni verið órjúfanlegur hluti fjölskyldunnar síðan þá. Þau hafa verið flott kærustupar alla tíð. Á seinni árum naut hún þess að vera með barnabörnunum og tók oft á móti þeim úr skólanum og lék við þau þar til ég eða Jóna komum heim. Mamma var frábær hannyrðakona og í mörg ár heklaði, saumaði og föndraði hún jólaskraut sem hún setti í jólakortin til vina og vandamanna, skraut sem hangir enn í dag á mörgum jólatrjám um allt land. Það er við hæfi að mamma fái að kveðja núna í jólamánuðinum, hún var mikið jólabarn, skreytti mikið, bakaði smákökur og lagði mikið upp úr jólahefðum, til dæmis að fara í kirkju á aðfangadag, sem færði okkur frið og ró. Nú er komin ró yfir þig, elsku mamma. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og fjölskyldunni.
Þinn Haddi.
Haraldur Ingólfsson.
Við viljum þakka Lóu „systur“ fyrir dásamlega samfylgd í gegnum árin. Lóa var systir hennar mömmu (Fríðu) og var alltaf stór hluti af fjölskyldunni að Ásfelli 3. Ófáar voru ferðirnar í sumarbústað LÍ við Álftavatn og búðstaðinn við Hreðavatn. Þaðan eigum við góðar minningar.
Lóu var margt til lista lagt. Hún bakaði bestu púðursykurterturnar og gerði fallegustu heimatilbúnu jólagjafirnar. Hún kenndi okkur að dansa „macarena“ og klippti alla í fjölskyldunni. Hún þáði kannski nokkra dropa af kartöfluviskíi eftir að tekið var upp, en afþakkaði kurteislega þegar pabbi bauðst til að lána henni hestamannablöð.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Kærleikskveðjur til Benna, Hadda og Jónu og fjölskyldu.
Sigríður, Sæunn Ingibjörg og Haraldur Sigurðarbörn og fjölskyldur.
Nú er komið skarð í vinahópinn okkar. Elsku Lóa okkar er farin frá okkur. Erfið veikindi leiddu til þess að hún hvarf okkur hægt og hljótt eins og hennar háttur var, hæg og ljúf.
Við vinirnir sitjum hnípin eftir en erum þakklát fyrir allar góðu stundirnar gegnum árin, allar fjallaferðirnar, sumarbústaðaferðirnar, og allar ljúfu stundirnar.
Takk elsku Lóa okkar! Hvíl í friði. Við sendum innilegar samúðarkveðjur til Benna okkar og fjölskyldu, einnig til Haraldar og fjölskyldu.
Þú, sem eldinn átt í hjarta,
óhikandi og djarfur gengur
út í myrkrið ægisvarta
eins og hetja og góður drengur.
Alltaf leggur bjarmann bjarta
af brautryðjandans helgu glóð.
Orð þín loga, allt þitt blóð;
á undan ferðu og treður slóð.
Þeir þurfa ekki um kulda að kvarta,
sem kunna öll sín sólarljóð.
(Davíð Stefánsson)
Aðalheiður (Allý) og
Ragnar, Lilja og Hjörtur,Sigríður Gróa (Sigga Gróa) og Helgi, Sigrún og Þórður.