Bækur
Steinþór
Guðbjartsson
Glæpagengi hafa hreiðrað um sig á Íslandi og banvæn efni eru á markaðnum. Jón Atli Jónasson tekur málið fyrir í glæpasögu sinni, Eitri, og fer um víðan völl, en baráttan gegn dreifingu og sölu eiturlyfja virðist vonlaus, sama hvað lagt er í sölurnar.
Í fyrra kom út glæpasagan Brotin og Eitur er sjálfstætt framhald, þar sem Rado og Dóra eru áfram í aðalhlutverkum. Rado tilheyrir nú fíkniefnadeild lögreglunnar og er yfir nær sjálfstæðu teymi, en Dóra er sködduð á heila eftir slys og vinnur mest á nóttunni. Andlát Jóels, sambýlismanns Elliða, yfirmanns hjá lögreglunni, er útgangspunkturinn.
Dauði Reykjavíkur birtist í ýmsum myndum og helsta vandamálið er eiturlyf, þar með talið áfengi. Þau eira engum, en sumir, sem koma að rannsókn mála, komast upp með neysluna. Spillingin leynist víða í þessari sögu, en bent er á lausn, að gefa ekki upp vonina.
Öðrum þræði er frásögnin byggð á stöðu eiturlyfjamála hérlendis, tengdum vandamálum og lausnum. Meðal annars er fjallað um framleiðslu, smyglleiðir, dreifingu, verkjalyf, misnotkun, nauðgun, barnauppeldi, forræðismál, hefnd og AA-samtökin. Persónur ræða um hættuna. Elliði segir að stöðva verði ópíóíðafaraldurinn með öllum tiltækum ráðum og Dóra gagnrýnir þátt heilbrigðiskerfisins. Skilaboðin leyna sér ekki og góð vísa er ekki of oft kveðin.
Allt gott og blessað en galli er á gjöf Njarðar. Vel má vera að fíklar sletti meira en aðrir en orðanotkun persóna, enskusletturnar, fara þeim illa og í sumum tilfellum þyrftu orðskýringar að fylgja. Annað sem hefði mátt laga í yfirlestri snýr að nákvæmni. Þar má nefna að í öðrum kafla segir að myndast hafi halarófa af bílum beggja vegna slysstaðar í Þrengslunum og ástandið sé kaótískt. Á næstu síðu er sagt að engin vitni hafi verið að slysinu, því fólk sé ekki vaknað og engin umferð svona snemma! Lopinn er líka teygður um of og til dæmis bætir kaflinn um Zeljko í Tyrklandi engu við.
Þrátt fyrir ýmsa vankanta er þarft að vekja athygli á eitrinu og skaðanum sem það veldur, því fíkniefnaneysla er sem rússnesk rúlletta og dauðans alvara.