Sr. Dagur Fannar Magnússon
Sr. Dagur Fannar Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hátíðlegt verður í fjárhúsinu á bænum Efra-Apavatni við Laugarvatn á aðfangadagskvöld þar sem sr. Dagur Fannar Magnússon, héraðsprestur á Suðurlandi, efnir til miðnæturguðsþjónustu. Stundin hefst kl

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hátíðlegt verður í fjárhúsinu á bænum Efra-Apavatni við Laugarvatn á aðfangadagskvöld þar sem sr. Dagur Fannar Magnússon, héraðsprestur á Suðurlandi, efnir til miðnæturguðsþjónustu. Stundin hefst kl. 23.30. Fyrirmyndin að þessu er augljóslega sótt í jólaguðspjallið þar sem segir frá ferðalagi þeirra Jóseps og Maríu, þegar hún á Betlehemsvöllum ól Jesúbarnið, sjálfan frelsara heimsins.

„Já, þetta er allt til gamans gert en líka í því skyni að komast eitthvað nær þeim aðstæðum sem voru í fjárhúsinu forðum fyrir rúmum tvö þúsund árum,“ segir sr. Dagur Fannar. „Ég fékk þessa hugmynd fyrir nokkrum vikum og Apavatnsbændur, þau Sigríður Jónsdóttir og Magnús Kjartan Eyjólfsson, þekktur sem trúbador og söngvari í Stuðlabandinu, voru strax til í að vera með. Ljá fjárhúsið fyrir þessa stund sem stendur eitthvað inn í jólanóttina.“

Framtak þetta segir presturinn hafa fengið góðar undirtektir hjá fólki í nærumhverfi sínu. „Ég væri hæstánægður ef ég fengi svo sem 10-20 manns til þessarar stundar, sem er viðleitni mín í þá átt að færa kirkjuna og starf hennar út á meðal fólksins. Veita þjónustu, ef svo mætti segja. Messur í skíðabrekkum, fjósum, á útihátíðum og fleiri stöðum hafa verið haldnar, en aldrei áður í fjárhúsi á jólanótt svo ég viti til,“ segir Dagur Fannar.

„Mér finnst þessi messa vera skemmtilegt framtak en ætla þó sjálfur að halda mér að mestu til hlés. Tek þó kannski undir í sálminum góða, Heims um ból,“ segir Magnús Kjartan Eyjólfsson. Messuhald og dansleikjaspil segir hann ef til vill ekki svo ólík viðfangsefni þegar allt komi til alls. Hvort tveggja gangi út á að skapa stemningu og sterk hughrif meðal fólks svo gleði fylli hjörtu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson