Í fjárhúsinu Ólafur R. Dýrmundsson hefur átt kindur í 66 ár.
Í fjárhúsinu Ólafur R. Dýrmundsson hefur átt kindur í 66 ár. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Ólafur R. Dýrmundsson, búvísindamaður, fjárbóndi í Reykjavík, fjallkóngur fyrir afrétt Seltjarnarnesshrepps hins forna og markavörður fyrir Landnám Ingólfs, sendi frá sér bókina Sauðfjárbúskapur í Reykjavík. Fjáreigendafélag Reykjavíkur fyrir skömmu og hefur henni verið vel tekið. „Hún er uppseld hjá útgefanda, Hinu íslenska bókmenntafélagi,“ segir hann.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Ólafur R. Dýrmundsson, búvísindamaður, fjárbóndi í Reykjavík, fjallkóngur fyrir afrétt Seltjarnarnesshrepps hins forna og markavörður fyrir Landnám Ingólfs, sendi frá sér bókina Sauðfjárbúskapur í Reykjavík. Fjáreigendafélag Reykjavíkur fyrir skömmu og hefur henni verið vel tekið. „Hún er uppseld hjá útgefanda, Hinu íslenska bókmenntafélagi,“ segir hann.

Bókin er merkilegt og viðamikið fræðirit, þar sem stuðst er við ótal heimildir. Nokkrar orða- og hugtakaskýringar fylgja og höfundur kryddar efnið með örsögum frá eigin brjósti. Þar má nefna sögu af þorralömbum á Grettisgötu og umfjöllun um kindafólk af lífi og sál í borginni. „Allar sögurnar eru sannar,“ leggur hann áherslu á.

Ólafur hefur umgengist kindur í borgarlandinu frá barnsaldri, meðal annars verið fjáreigandi frá 1957 og tekið þátt í starfi Fjáreigendafélags Reykjavíkur. Hann er manna fróðastur um söguna og greinir vel frá veröld sem var. „Ég hef kynnst fjáreigendum í Reykjavík og nágrenni á öllum þessum árum og þekki flesta bændur á suðvesturhorninu.“ Nú sé hann eini fjáreigandinn í Reykjavík utan Fjárborgar, þar sem séu nokkrar hjarðir. Í fyrra hafi verið 180 vetrarfóðraðar kindur í 12 hjörðum í Reykjavík og um 50 í Kópavogi, allar á Vatnsendabýlinu, en Seltjarnarnes hafi verið fjárlaust síðan 1966. „Ég hef verið í öllu mögulegu fyrir fjáreigendur hérna, enginn þekkir þetta betur og enginn gæti skrifað svona bók nema ég, þó ég segi sjálfur frá.“

Stríð og sátt

Áhugi Ólafs á búskap kviknaði þegar hann var í sveit á Hnausum í Austur-Húnavatnssýslu. „Ég var kallaður kindakarl þegar ég var 13 ára,“ rifjar hann upp. Þá hafi hann og vinur hans 15 ára keypt tvö lömb og voru með þau í skúr sem þeir höfðu byggt og fengið að hafa í landi Hálogalands, skammt frá þar sem Sólheimablokkirnar eru. Voru reknir þaðan eftir tvö ár og fóru þá með kofann niður á Gelgjutanga. Tveimur árum síðar hætti vinurinn og þá flutti Ólafur sig í Fjárborgir, sem voru þar sem Tengi er nú í Kópavogi. „Þar byggði ég fjárhús og hlöðu og er einn fárra fjáreigenda á svæðinu sem grípa alltaf í að heyja á hverju sumri.“ Hann hafi mest verið með 40 vetrarfóðraðar kindur en undanfarin 30 ár hafi þær verið tíu til 12. Áhugamálið hafi verið skemmtilegt alla tíð en stundum erfitt. „Konan mín hefur hjálpað mér mikið.“

Í bókinni er meðal annars fjallað um Breiðholtsgirðinguna og Breiðholtsréttina, Fjáreigendafélagið og Hvassahraunseignina, fjárhúsahverfin og sauðfjárstríðið í Reykjavík, útrýmingu riðu, beitilönd, réttir, kynbótastarf og gildi sauðfjárhalds í þéttbýli. „Ekki hefur áður verið skrifað um útrýmingu riðu og Hvassahraunseignina með þessum hætti,“ staðhæfir Ólafur. „Dugnaður fólksins er samt merkilegastur, að halda við þessum búskap, oft við mjög mikið mótlæti.“ Fjáreigendur hafi mikið verið alþýðufólk, bíllausir verkamenn, sem hafi farið í strætó, hjólandi eða gangandi til að sinna fénu. Á tímabili hafi verið stefnan að útrýma sauðfé í Reykjavík, sérstaklega á árunum 1962 til 1970, þegar sauðfjárstríðið hafi geisað. „Við börðumst gegn því af fullum krafti og með öllum ráðum. Við vorum mjög herskáir og að lokum var gerður friðarsamningur. Við eignuðumst óvini og ég var illa séður en sættir tókust og ég er sáttur við alla.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson