Einstaklingsbundin neysla á hvern íbúa á Íslandi er sú þriðja mesta í Evrópu, 19% yfir meðaltali Evrópusambandslandanna 27. Ísland er þannig næst á eftir Noregi og svo Lúxemborg sem skipar toppsætið

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Einstaklingsbundin neysla á hvern íbúa á Íslandi er sú þriðja mesta í Evrópu, 19% yfir meðaltali Evrópusambandslandanna 27. Ísland er þannig næst á eftir Noregi og svo Lúxemborg sem skipar toppsætið.

Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofan birtir á sinni heimasíðu og er endurvarp á tölum sem hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, reiknar og birtir.

„Einstaklingsbundin neysla er öll neysla heimilanna á vöru og þjónustu, óháð því hvort þau greiða fyrir hana á almennum markaði eða þiggja af ríki eða sveitarfélagi,“ segir Snorri Gunnarsson, sérfræðingur hjá Hagstofunni.

Skekkir ekki samanburðinn

„Þannig skekkir ólíkt fyrirkomulag t.d. heilbrigðisþjónustu og menntamála ekki samanburðinn. Oft er litið til einstaklingsbundinnar neyslu sem mælikvarða þegar efnahagsleg velferð er borin saman á milli landa,“ segir Snorri. Samanburðurinn byggist á magntölum á hvern íbúa. Að sögn Snorra merkir það að leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi í löndunum með því að reikna allar stærðir með svokölluðu kaupmáttarjafnvægi (e. purchasing power parity) til reiknaðs gjaldmiðils sem hefur sama kaupmátt í öllum samanburðarlöndunum.

„Þannig hefur hvorki gengi gjaldmiðla né mismunandi verðlag milli landa, sem hafa sama gjaldmiðil, áhrif,“ segir Snorri.

Þegar magntölur landsframleiðslu á íbúa eru bornar saman má sjá að á Íslandi er hún 26% yfir meðaltali Evrópusambandslandanna. Þar er Ísland í sjöunda sæti. Lúxemborg er þar líka í efsta sætinu og svo koma Írland, Noregur, Sviss, Danmörk, Holland og Ísland. Með öðrum orðum er Ísland með eina mestu verðmætasköpun á mann í Evrópu og þar með raunar í heiminum. Þessi tölfræði setur áhuga erlendra ríkisborgara á að flytja til Íslands í visst samhengi.

Fjallað var um aðflutninginn í Morgunblaðinu 3. nóvember síðastliðinn.

„Rétt tæplega 8.000 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttust til landsins á fyrstu níu mánuðum ársins en fluttu þá frá því. Hins vegar fluttu um 230 fleiri íslenskir ríkisborgarar þá frá landinu en fluttu til þess. Þetta er meðal þess sem lesa má úr ársfjórðungslegum tölum Hagstofunnar yfir búferlaflutninga. Fyrstu níu mánuðina í fyrra fluttu hingað 8.270 fleiri erlendir ríkisborgarar en fluttu þá frá landinu, eða 310 fleiri en sama tímabil í ár,“ sagði þar orðrétt.

Þá kom fram í fréttinni að Pólverjar og Úkraínumenn væru fjölmennir meðal aðfluttra erlendra ríkisborgara.

Eins og sjá má á grafinu er landsframleiðsla á mann á Íslandi á áðurnefndan mælikvarða 26% yfir meðaltalinu í ESB. Hún er hins vegar 21% undir meðaltalinu í Póllandi en upplýsingar um Úkraínu, sem er ekki í ESB, eru ekki birtar í þessu samhengi.

Hitt liggur fyrir að landsframleiðsla á mann er mun hærri í Póllandi en í Úkraínu.

Á meðan Ísland mælist jafn hátt á slíka mælikvarða er viðbúið að margir muni leita tækifæra hér.

Höf.: Baldur Arnarson