Hjördís Halldóra Benónýsdóttir fæddist í Reykjavík 29. september 1934. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu, Hraunvangi í Hafnarfirði, 29. nóvember 2023.

Foreldar hennar voru hjónin Benóný Benónýsson, kaupmaður á Ísafirði og síðar í Reykjavík, f. 29. maí 1870, d. 23. ágúst 1943, og Halldóra Jakobsdóttir kaupkona, f. 30. ágúst 1902, d. 13. janúar 1985. Benóný var tvíkvæntur. Alsystir Hjördísar var Ólöf Helga, f. 13. apríl 1928, d. 21. maí 2013. Samfeðra systkini Hjördísar af fyrra hjónabandi Benónýs voru Guðný, f. 1893, d. 1896, Sigríður, f. 1894, d. 1952, Fanný, f. 1895, d. 1896, Guðný Fanný, f. 1896, d. 1975, Hjördís, f. 1899, d. 1899, Halldór, f. 1900, d. 1902, og Haraldur, f. 1904, d. 1904.

Hjördís giftist 20. maí 1961 Herði Lorange sjómanni, f. 8. febrúar 1936. Foreldrar Harðar voru Sigríður Steingrímsdóttir og Kai Emil Lorange. Fyrir átti Hjördís soninn Halldór Benóný skipherra, f. 14.2. 1956, með William F. Nellett, d. 2002. Maki Halldórs Benónýs er Hafdís Hrönn Garðarsdóttir, f. 6.8. 1961. Börn þeirra eru Halldóra, f. 5.2. 1986, Sandra, f. 12.12. 1987, Dagný, f. 17.11. 1989, og Garðar, f. 13.8. 1992. Börn þeirra Hjördísar og Harðar eru: 1) Sigríður sjúkraliði, f. 15.7. 1961, sambýlismaður Hlöðver Gunnarsson, 25.8. 1956. Börn Sigríðar eru Hjördís Halldóra, f. 28.8. 1981, og Guðmundur Þórir, f. 14.4. 1988. 2) Haraldur bæjarstarfsmaður, f. 9.8. 1962, hann giftist Guðnýju Úllu Ingólfsdóttur, þau skildu. Börn þeirra eru Guðný Helga, f. 13.7. 1988, Kolbrún Edda, f. 25.4. 1990, og Haraldur Jóhann, f. 14.5. 1993. 3) Jón Baldur sérfræðingur, f. 26.4. 1964, maki Steinunn Georgsdóttir, f. 18.1. 1956. Dóttir hennar er Ásta, f. 12.5. 1980. Börn Jóns Baldurs og Steinunnar eru Hjördís Lilja, f. 7.8. 1989, og Jón, f. 6.5. 1991.

Hjördís Halldóra vann mestalla starfsævi hjá Pósti og síma í Landssímahúsinu við Austurvöll. Hún var virk í kvenfélagi kaþólsku kirkjunnar.

Að ósk Hjördísar Halldóru hefur útför hennar farið fram í kyrrþey.

Elskuleg móðir okkar andaðist 29. nóvember sl. eftir erfið veikindi, sem hún tókst á við með þrautseigju og æðruleysi. Kveðjustundin er okkur ákaflega erfið en við yljum okkur við hlýjar minningar. Það er einkennileg tilfinning að geta ekki lengur heimsótt hana í Hafnarfjörð, en þar hafa foreldrar okkar búið sl. 30 ár. Símtölin verða ekki fleiri þar sem hún spyr um hvort eitthvað sé að frétta og síðan er tekið upp létt spjall um lífið og tilveruna, barnabörnin og barnabarnabörnin. Móðir okkar var einstök kona, sterkur persónuleiki og glæsileg kona, og var staðföst og ákveðin þegar því var að skipta. Hún tók verslunarskólapróf frá Verslunarskóla Íslands, og það nám nýttist henni vel á lífsbrautinni. Hún vann mestalla starfsævi sem fulltrúi hjá Pósti og síma í Landssímahúsinu við Austurvöll og var vel liðin af samstarfsfólki sínu, samviskusöm og lausnamiðuð.

Móðir okkar hafði fallega rithönd og var mjög tölvufær. Hún var virk í samskiptum á Fésbókinni, fylgdist mjög vel með fjölskyldu sinni og bar hag hennar fyrir brjósti.

Benóný faðir móður okkar hélt ávallt miklum tengslum við frændfólk sitt undir Eyjafjöllum en Benóní langafi okkar bjó í þeirri sveit. Við eigum ættir að rekja þangað, sem við systkinin nutum þegar við vorum send í sveit hjá ættingjum okkar á Núpi, Skarðshlíð og Eystri-Skógum.

Þegar móðir okkar fæddist var heimskreppan nýskollin á og faðir hennar rak verslun í Reykjavík. Faðir hennar féll frá þegar hún var aðeins átta ára gömul árið 1943 á tímum heimsstyrjaldarinnar. Allt mótaði þetta líf móður okkar eins og gefur að skilja. Móðir okkar fór í sveit að Syðri-Hömrum og Áshól í Rangárvallasýslu hjá Ellu „frænku“, yndislegri konu, og átti hún góðar minningar úr sveitinni.

Foreldrar okkar voru miklir félagar og samtaka í því sem þau tóku sér fyrir hendur og mun faðir okkar sárt sakna lífsfélaga síns.

Móðir okkar var mikið fyrir hannyrðir og var hún dugleg við að prjóna eitthvað á barnabörnin eða að sauma út. Við systkinin eigum öll á heimilum okkar fallegt handverk móður okkar sem ber fagurt vitni um fallegt handbragð hennar. Móðir okkar fannst gott að njóta sólar og ófáar voru ferðir að Krummakletti í Borgarfirði til tengdamóður hennar. Þá naut hún þess að fara á Spánarstrendur en síðast fór hún í pílagrímsferð til Lourdes í Frakklandi. Móðir okkar tók upp kaþólska trú snemma, en hún var í Landakotsskóla. Hún var trúrækin og fór flesta sunnudaga til messu í Landakotskirkju og síðar í St. Jósefskirkju í Hafnarfirði. Samband hennar við Karmelsysturnar í Hafnarfirði var náið og sótti hún styrk og stoð til þeirra. Hún gerðist stuðningsmóðir systur Agnesar þegar hún kom hingað til lands frá Póllandi. Við munum leggja okkur fram við að rækta þessa kærleiksríku vináttu við systur Agnesi í minningu móður okkar.

Móðir okkar dvaldi á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði sl. tvö ár vegna erfiðra veikinda og þökkum við starfsfólki gott viðmót og þjónustu.

Meira á www.mbl.is/andlat

Hvíl í friði.

Halldór Benóný, Sigríður Bernadetta, Haraldur og Jón Baldur.

Nú er hjartans amma mín og besta vinkona til 42 ára fallin frá.

Mikið svakalega er sárt að vera búin að missa ömmu. Amma var ein af mínum allra mikilvægustu manneskjum í lífinu. Kletturinn minn. Amman sem stóð með mér hvenær sem ég þurfti á henni að halda og byrjaði það þegar ég fæddist því hún var viðstödd fæðinguna. Amma var með mér á öllum stærstu stundum lífs míns. Ég treysti henni fyrir öllu, sagði henni öll mín leyndarmál sem ég treysti engum öðrum fyrir eins og þegar meðgöngurnar mínar þrjár hófust. Við deildum miklum mataráhuga en oft hringdi ég í hana til að segja henni hvaða mat ég var með eða hverjum ég var að bjóða í mat og hún hafði ofsalega gaman af því. Amma var líka afskaplega forvitin og spurði mjög oft hvað væri að frétta og ég varpaði oft þeirri spurningu til baka þegar ég hringdi í hana. Mér er svo minnisstætt þegar ég gat farið að bjóða ömmu í mat og var byrjuð að vinna, hún vildi alltaf borga í matnum. Svona var hún bara og lýsir henni svo vel.

Þegar ég hugsa um öll þessi ár sem við áttum saman hugsa ég til æskunnar en þá gisti ég oft hjá henni og afa, afi fór í aukaherbergið, ískalt var alltaf í herberginu en henni fannst það best, klepparinn, hlátursköstin sem urðu oft til þess að ég pissaði á mig, sumarbústaðaferðirnar, pönnukökurnar með sítrónudropunum, besti hafragrauturinn sem ég fékk sem barn, karamellukakan hennar, heimsins besti svikni héri, kaffihúsaferðirnar á Súfistann í Hafnarfirði. Ekki má gleyma Spánarferðinni sem var farin árið 1989 og gátum við rifjað hana endalaust upp saman og hlegið að. Engin loftkæling var á hótelinu og þegar við vorum að ganga í bankann; það var svo heitt að við vorum að líða út af. Amma var afskaplega mikil jólakona og setti alltaf upp fallegt jólaskraut, aðventuljós, seríur og jólagardínur. Á jóladag var alltaf opið hús í smákökur og heitt kakó með rjóma.

Amma var mín stoð og stytta í öllu. Hún gerði nánast hvað sem er fyrir mig ef ég hafði beðið hana. Hún stóð með mér alltaf. Þegar ég hugsa til baka breyttist hlutskipti okkar svo þegar hún varð eldri og þurfti á mínum ráðleggingum, fagþekkingu og stuðningi að halda þá gat ég hjálpað henni. Mér finnst ég hafa gefið henni eitthvað til baka af því sem hún gerði fyrir mig.

Amma gat alveg verið á Fésbókinni, sent sms, millifært í heimabanka og fylgst með því allra helsta sem var að gerast í tækninni en það fór að minnka á þessu ári þegar veikindin fóru að taka meiri toll. Undirmeðvitundin sagði mér í hvað stefndi og að þetta væri komið fínt, hún var orðin þreytt.

Ég og börnin mín heimsóttum hana oft um helgar og áttum góðar stundir saman. Amma og afi horfðu alltaf saman á þáttinn Leiðarljós og þá mátti enginn hringja! en þau áttu náið og fallegt samband og munum við halda vel utan um afa og styðja hann.

Mig langar að þakka móður minni fyrir ómetanlega umönnun og stuðning við ömmu seinustu árin.

Hvíldu í friði, elsku besta amma mín, elska þig og mun sakna þín mikið.

Takk fyrir okkar fallega samband.

Þín litla dís,

Hjördís Halldóra.

Guðdómlegur geisli blíður

greiðir skuggamyrkan geim,

á undravængjum andinn líður

inn í bjartan friðarheim.

(Hugrún)

Með þessu ljóði finnst mér svo eðlilegt að skrifa fáein kveðjuorð til kærrar vinkonu sem látin er í hárri elli. Líkaminn orðinn lúinn en sálin alltaf söm við sig. Hún Hjördís geislaði af gæsku. Aldrei lagði hún slæmt orð til nokkurs manns, heldur reyndi að sjá það besta í hverjum og einum. Þegar hún bundin við hjólastól var spurð hvort hún væri ekki þreytt á þessu var svarið ætíð það sama. „Nei, maður á að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur.“ Þessi setning finnst mér lýsa henni svo vel. Hún var nefnilega sanntrúuð og þakklát fyrir svo margt. Það er mikil gæfa á lífsleiðinni að geta litið á björtu hliðarnar.

Mér og minni fjölskyldu var hún alltaf náin og ráðagóð. Við áttum saman góðar stundir, höfðum gaman af að spá og spekúlera um lífið og tilveruna. Hún hafði lifað tímana tvenna 89 ára gömul konan, gat miðlað af sínum viskubrunni og lífsreynslu til þeirra sem yngri voru en aldrei dæmdi hún aðra fyrir þeirra gjörðir, sem er ómetanlegur eiginleiki. Með þessum orðum kveð ég Hjördísi, sannfærð um að hennar bíður góð vist hinum megin. Aðstandendum öllum vottum við Gunnar og dæturnar okkar dýpstu samúð.

Minningin um góða konu lifir í hjörtum allra sem henni kynntust.

Sigurjóna

Björgvinsdóttir.

hinsta kveðja

Nú er dagurinn dimmur,

Drottinn það skilur,

því dauðinn er grimmur

og djúpur hans hylur.

En þú gafst henni loforð

um líkn og frið.

Svo hún lagði aftur augun

og heyrði englanna klið.

Þó við gætum ei þig misst

þá er minning þín björt

og nú sérðu þinn Krist.

Sigríður Bernadetta Lorange.

Elsku besta langamma.

Takk fyrir allt prjónadótið sem þú gafst okkur. Þú varst alltaf að prjóna og gefa öllum. Það var gaman að heimsækja þig um helgar og fá pönnukökur með sykri.

Þú passaðir líka svo vel upp á alla afmælisdaga og sendir okkur skilaboð á afmælisdögunum okkar.

Við munum sakna þín mikið en við ætlum að passa langafa fyrir þig.

Lísa og Selma Ingólfsdætur.

Ég þakka þér fyrir allt og allt,

þú stækkaðir hjarta mitt þúsundfalt.

Þín minning lifir í huga og heimi,

elsku amma mín ég aldrei þér gleymi.

Ég kveð þig með miklum söknuði, hvíl í friði.

Þinn litli karl,

Guðmundur Þórir.

Nú þegar ég kveð ástkæra ömmu mína í hinsta sinn leita á mig margar góðar minningar um ömmu og vinkonu. Margar góðar samverustundir koma upp í hugann sem gott er að ylja sér við. Hvíl í friði.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

Hjördís Lilja Lorange.