Krúttmolarnir Bjartur, Írena og Þorri eru þríburar.
Krúttmolarnir Bjartur, Írena og Þorri eru þríburar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég dáist að hugrekki þeirra að hleypa okkur inn í líf sitt. Það er ekkert leikrit í gangi hjá þeim.

Þríburar fæðast að meðaltali einu sinni á ári á Íslandi og því alls ekki algengt. En hvernig er að vera þríburi? Dagskrágerðarkonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ákvað að komast að því en áður hefur hún framleitt afar vinsæla þætti um tvíbura ásamt Eiríki Inga Böðvarssyni. Ragnhildur skoðaði þríbura frá öllum hliðum og útkoman er ný heimildarmynd sem sýnd verður á RÚV á nýárskvöld og heitir einfaldlega Þríburar.

Farið á dýptina

Hjónin Hanna Björk Hilmarsdóttir og Arnar Long Jóhannsson eru í sviðsljósinu í myndinni, en þau eiga þríburana Þorra, Bjart og Írenu sem fæddust 1. apríl 2021.

„Leiðarstefið í Þríburum er saga Hönnu og Arnars. Þau áttu von á þríburum þegar við hittum þau fyrst en við fylgdum þeim eftir í þrjú ár og fáum því nokkuð góða innsýn í líf þeirra í nýju hlutverki,“ segir Ragnhildur en sagan byrjar því áður en þríburarnir fæðast.

„Við höfum verið í rosalega góðu sambandi í þessi þrjú ár og þau eru frábær; hinir fullkomnu viðmælendur. Þau hafa líka verið dugleg að láta okkur vita af ýmsum tímamótum og þá stukkum við til og mynduðum, en einnig var myndað við alls konar fjölbreyttar aðstæður. Ég dáist að hugrekki þeirra að hleypa okkur inn í líf sitt. Það er ekkert leikrit í gangi hjá þeim,“ segir hún.

„Þau héldu einnig vídeódagbók sjálf og við erum að klára að fara yfir mörg hundruð klukkustundir af efni frá þeim,“ segir Ragnhildur og segir þessi myndskeið sýna vel alls kyns augnablik; bæði erfið og gleðileg.

„Við hefðum getað gert heila seríu en það hentaði vel að hafa þetta í einni mynd. Ég næ að fara meira á dýptina í þeirra persónulegu sögu sem litar mjög hvernig foreldrar þau eru.“

Ólík sambönd þríbura

Fleiri þríburar koma við sögu í myndinni, en Ragnhildur upplýsir blaðamann um að til séu þrenns konar útgáfur af þríburum; eineggja, tvíeggja og eitt systkini og þríeggja.

„Það fæddust einmitt einir eineggja þríburar á þessu ári,“ segir Ragnhildur og segir það vera afar sjaldgæft.

„Við skoðum þessi ólíku sambönd þríbura en til dæmis er sérstakt að vera þríburi þar sem hinir tveir eru eineggja,“ segir hún og segist hafa viljað hafa fleiri vinkla á lífi þríbura og valdi því að hafa fleiri viðmælendur en Hönnu og Arnar.

„Það var líka mikilvægt að fá líka að heyra af upplifun þríbura sem hafa verið í þríburasambandi til margra ára og eins að tala við foreldra uppkominna þríbura.“

Ragnhildur segir að afar erfitt hafi verið að klippa þáttinn, enda var hún og framleiðandi hennar, Eiríkur Ingi, með óhemjumagn af efni.

„Eftirvinnslan hefur verið mesta áskorunin og er tímafrek. Svo er auðvitað galdur að raða sögunni þannig upp að áhorfandinn límist við skjáinn.“

Verður næst mynd um fjórbura?

„Það er mjög góð spurning,” segir Ragnhildur og brosir.

„Það er alla vega ekki næsta verkefni, því ég er þessa dagana að klára þætti um eldri borgara sem heita Á gamans aldri.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir