Fyrsti formlegi fundur nýs bandalags stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA) í kjaraviðræðum fyrir nýja kjarasamninga verður 28. desember. Fyrsti óformlegi fundur bandalagsins og SA var haldinn í gær í Karphúsinu

Fyrsti formlegi fundur nýs bandalags stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA) í kjaraviðræðum fyrir nýja kjarasamninga verður 28. desember. Fyrsti óformlegi fundur bandalagsins og SA var haldinn í gær í Karphúsinu.

Þau stéttarfélög sem tilheyra nýju bandalagi eru Efling, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Samiðn – samband iðnfélaga, Starfsgreinasamband Íslands og VR. Samanlagt fara þessi félög með samningsumboð fyrir rúmlega 115 þúsund manns eða um 93% launafólks innan Alþýðusambands Íslands.

Krafa bandalagsins liggur ekki að fullu fyrir en þó er ljóst að það mun krefjast krónutöluhækkana á grundvelli lífskjarasamningsins. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að fyrsti fundur hafi gengið vel og að stefnt sé á nýja samninga í anda þjóðarsáttarinnar, þar sem ríki, sveitarfélög, stéttarfélög og atvinnulífið komi saman að gerð samninga.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að fundurinn í gær hafi gengið vel.

„Þegar staðan er eins og hún er, að verðbólgan er hátt í 8% og stýrivextir eru 9,25%, þá finnst okkur blasa við að það þarf breiða sátt, það þarf nýja þjóðarsátt til þess að ná utan um þetta verkefni og að allir séu sammála eða samstiga í að leysa úr því,“ segir Sigríður. hng@mbl.is