Hátíð Ingvi Kristinn Skjaldarson umkringdur gjöfum sem útdeilt var í gær. Mikill veislukostur var á borðum og hátíðleikinn og gleði lágu í loftinu.
Hátíð Ingvi Kristinn Skjaldarson umkringdur gjöfum sem útdeilt var í gær. Mikill veislukostur var á borðum og hátíðleikinn og gleði lágu í loftinu. — Ljósmynd/Eyþór Árnason
Um 400 manns mættu í kastala Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut í Reykjavík í gær þar sem því fólki sem gjarnan sækir skjól og stuðning…

Um 400 manns mættu í kastala Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut í Reykjavík í gær þar sem því fólki sem gjarnan sækir skjól og stuðning til samtakanna var boðið í jólamat. Á boðstólum var hangikjöt með uppstúf og öðru. „Þetta var hátíðleg stund,“ segir Ingvi Kristinn Skjaldarson flokksforingi.

Hjálpræðisherinn myndar stórum hópi fólks bakland með félags- og velferðarstarfi. „Hingað kemur flóran öll. Hingað mæta öryrkjar, fólk í fíknivanda, umsækjendur um alþjóðlega vernd og fleiri,“ segir Ingvi.

Gestir í gær voru leystir út með gjöfum. Þau fullorðnu fengu sælkerapakka þar sem í leyndist reyktur lax, paté, brauð, epli, mandarínur, grísk jógúrt og fleira gott. Í barnapakkanum voru leikföng og sælgæti og til jafnvægis við það síðastnefnda tannkrem og -bursti.

Kaffistofa Samhjálpar við Borgartún í Reykjavík verður opin um hátíðirnar, eins og alla aðra daga ársins. „Ég býst við ekki færri en 200 manns í mat til okkar um jólin,“ segir Rósý Sigþórsdóttir forstöðukona. Kaffistofan verður opin frá kl. 10-14 og á aðfangadag verður þar á borðum hamborgarhryggur. Á jóladag verður svo boðið upp á hangikjöt.

„Fólk sem er eitt, á ekki í hús að venda eða hefur ekki efni á því að halda jól kemur hingað til okkar í Samhjálp og allir eru velkomnir,“ segir Rósý. sbs@mbl.is