Þeir Grindvíkingar sem leituðu til lögmannsstofu Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara vegna óánægju með að hafa verið bannað að nýta hús sín í bænum vegna hættu á eldsumbrotum eru hættir við málsóknina

Þeir Grindvíkingar sem leituðu til lögmannsstofu Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara vegna óánægju með að hafa verið bannað að nýta hús sín í bænum vegna hættu á eldsumbrotum eru hættir við málsóknina.

Þetta staðfestir Jón Steinar í samtali við Morgunblaðið.

Að sögn Jóns Steinars var ætlunin að reisa málið á þeim grunni að ríkisvaldið hefði ekki heimild til þess að skerða frelsi manna nema þeir ógnuðu öðrum, enda mælti stjórnarskráin svo fyrir um. Í tilviki Grindvíkinga virtist sem stjórnvöld styddu aðeins bann sitt við þörf á að vernda eigendur húsa í Grindavík fyrir sjálfum sér. Ef talið væri að húseigendur í Grindavík stofnuðu lífi sínu í hættu með heimför hefðu stjórnvöld ekki heimild til að banna þeim það. Engin almenn regla bannaði mönnum að stofna lífi sínu í hættu og það gerðu menn iðulega án afskipta stjórnvalda. Aðalatriðið væri að ekki væri hægt að fara í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar með settum lögum, en á það myndi ekki reyna að sinni, í þessu máli a.m.k.