Ísrael Bílstjóri skoðar neyðarvistir á Kerem Shalom-landamærastöðinni Ísraels megin. Passað er að ekkert sé í vistunum sem geti nýst Hamas.
Ísrael Bílstjóri skoðar neyðarvistir á Kerem Shalom-landamærastöðinni Ísraels megin. Passað er að ekkert sé í vistunum sem geti nýst Hamas. — AFP/Alberto Pizzoli
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt nýja ályktun um að „tryggja tafarlaust öruggan og óhindraðan aðgang mannúðaraðstoðar og skapa skilyrði fyrir varanlegan endi á ófriði“ á Gasasvæðinu með þrettán atkvæðum, en fastafulltrúar Bandaríkjanna og Rússlands sátu hjá

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt nýja ályktun um að „tryggja tafarlaust öruggan og óhindraðan aðgang mannúðaraðstoðar og skapa skilyrði fyrir varanlegan endi á ófriði“ á Gasasvæðinu með þrettán atkvæðum, en fastafulltrúar Bandaríkjanna og Rússlands sátu hjá.

Búið er að sitja yfir orðalaginu á ályktuninni alla vikuna og þrátt fyrir miklar umleitanir um að stöðva stríðið af mannúðarástæðum var ljóst að Bandaríkjamenn myndu styðja Ísrael og ekki fara fram á skilyrðislaust vopnahlé.

Stríðsaðilum ber mikið á milli og hafa fulltrúar Hamas-hryðjuverkahópsins tilkynnt að engum gísl verði sleppt nema komi til vopnahlés og Ísraelsher snúi til baka. Það segir Benjamín Netanjahú forsætisráðherra ekki munu gerast, því Ísraelsmenn muni ekki hætta að berjast fyrr en Hamas-hópurinn er þurrkaður út og muni aldrei aftur fara með stjórn á svæðinu.

Lést í gíslingu

Þessi niðurstaða dregur úr vonum ættingja gíslanna sem hafa mótmælt reglulega í Ísrael og krafið stjórn-völd um að setja frelsun þeirra í forgang.

Í gær lést bandaríski gíslinn Gad Haggai, 73 ára, í haldi Hamas, en eiginkona hans, Judith Weinstein Haggai, er elsta konan í gíslingu, 70 ára. Ísraelsher staðfesti þessar fréttir frá Hamas.

Ef ekkert breytist á Gasasvæðinu mun hungursneyð blasa við hálfri þjóðinni á næstu sex vikum segir í skýrslu sem hungureftirlitsstofnun Sameinuðu þjóðanna birti á fimmtudaginn. Þar er talið að líklegast sé að allir íbúar svæðisins, um 2,2 milljónir manna, muni búa við hungursneyð eða alvarlega kreppu fyrir 7. febrúar næstkomandi.

Þá segir í skýrslunni að helmingur þjóðarinnar yrði þá kominn á alvarlegt neyðarstig hamfaraástands með bráðri vannæringu og mikilli dánartíðni. Þá er staða heilbrigðismála grafalvarleg og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir aðeins sjö sjúkrahús starfhæf á öllu Gasasvæðinu.