Þessi mynd fylgdi jólakveðju frá ónefndu fyrirtæki í Morgunblaðinu 1943.
Þessi mynd fylgdi jólakveðju frá ónefndu fyrirtæki í Morgunblaðinu 1943. — Ljósmynd/Mead Johnson & Co
Víkverji í Morgunblaðinu var á heimspekibuxunum á aðfangadag 1943. Tilefnið var að sjálfsögðu hátíð ljóss og friðar. „Blessuð jólin eru komin einu sinni enn,“ sagði hann. „Gleðihátíð er haldin um víða veröld

Víkverji í Morgunblaðinu var á heimspekibuxunum á aðfangadag 1943. Tilefnið var að sjálfsögðu hátíð ljóss og friðar.

„Blessuð jólin eru komin einu sinni enn,“ sagði hann. „Gleðihátíð er haldin um víða veröld. Í hreysi og höll reyna menn að gera sjer dagamun. Ekkert orð á slíkan töfrakraft sem orðið jól. Ekkert er jafn göfgandi. Ótal sögur eru skráðar um það, hvernig jólin hafa snúið illu í gott. Hin sterku öfl haturs og illmensku lúta í lægra haldi fyrir friðarboðskapnum.“

Þarna var auðvitað hart barist í heiminum, rétt eins og nú. Víkverji kom inn á það. „Forystumenn þjóðanna, sem í ófriði eiga hafa hvað eftir annað boðað, að nýja árið, sem bráðum heldur innreið sína verði ennþá ægilegra heldur en þau ófriðarár, sem liðin eru. Tugir þúsunda ungra og hraustra manna lifa nú sín síðustu jól í þessum heimi.“

Víkverji minnti á að jólin væru fyrst og fremst hátíð barnanna og vitnaði í gamalt stef: „Það á að gefa börnum brauð að bíta á jólum.“ Nú þætti brauðið eitt hins vegar lítil hátíðabrigði, jafnvel þó sætabrauð væri. „Tímarnir hafa breyst og börnin með, mætti segja. En það er ekki aðalatriðið með hverju glatt er, heldur að glaðningurinn nái þeim höfuðtilgangi sínum, að gleðja.“