Fangelsisgarður Skjólsælt rými mun myndast milli Hegningarhússins og veitingahúss. Sendinefnd skoðar sig um.
Fangelsisgarður Skjólsælt rými mun myndast milli Hegningarhússins og veitingahúss. Sendinefnd skoðar sig um. — Morgunblaðið/Heiddi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Spurst hefur verið fyrir um það hjá Reykjavíkurborg hvort leyfi fáist til að reisa lága nýbyggingu í garði Hegningarhússins við Skólavörðustíg, sem ætluð er fyrir veitingastarfsemi. Fyrirspurninni hefur verið vísað til meðferðar hjá verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Spurst hefur verið fyrir um það hjá Reykjavíkurborg hvort leyfi fáist til að reisa lága nýbyggingu í garði Hegningarhússins við Skólavörðustíg, sem ætluð er fyrir veitingastarfsemi. Fyrirspurninni hefur verið vísað til meðferðar hjá verkefnastjóra skipulagsfulltrúa.

Á síðasta fundi skipulagsfulltrúa var lögð fram umsókn Áslaugar Traustadóttur landslagsarkitekts hjá Landmótun sf. dagsett 13. nóvember 2023, um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 9 við Skólavörðustíg. Í breytingunni sem lögð er til felst auk reits fyrir lága nýbyggingu hækkun á nýtingarhlutfalli lóðarinnar.

Steinhús reist 1872

Hegningarhúsið er hlaðið steinhús reist árið 1872 og er því friðað. Það er 927 fermetrar að stærð. Húsið var nýtt fyrir fangelsi allt til 1. júní 2016, eða í um 144 ár. Þar var Landsyfirréttur til húsa ásamt bæjarþingi og Hæstarétti frá 1920 til 1949. Saga hússins er því mjög merkileg og húsið með þeim merkustu á landinu, segir á heimasíðu Minjaverndar sem annast hefur endurbætur á húsinu hin síðari ár. Þeim lauk seint á árinu 2021.

Ríkissjóður er eigandi Hegningarhússins og hefur Framkvæmdasýslan-ríkiseignir umsjón með húsinu fyrir hans hönd. Í gildi er deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Laugavegi, Vegamótastíg, Skólavörðustíg og Bergstaðastræti. Í greinargerð með því skipulagi kemur fram að ekki hafi verið tekin ákvörðun um framtíðarnotkun þessa virðulega húss. Finna þurfi húsinu og umhverfi þess nýtt hlutverk í samræmi við staðsetningu við aðalverslunarsvæði miðborgar Reykjavíkur. Horft sé til verslunar- og menningarstarfsemi af einhverju tagi í tengslum við ört vaxandi ferðamannaverslun við Skólavörðustíg.

Norðan við sjálft Hegningarhúsið er garður, þar sem fangar gátu notið útiveru hluta úr degi. Eru veggir hans að mestu hlaðnir úr grágrýti. Til að auka nýtingu lóðarinnar er lagt til að reisa veitingahús nyrst í garðinum, alveg við hlið Ölstofu Kormáks og Skjaldar.

„Lóðina skal meðhöndla sem opið grænt svæði, vera opið almenningi, .a.m.k. á almennum opnunartíma verslana og vera ætluð öllum, með áherslur á fjölskyldur og börn,“ segir í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni. Veitingahúsið verði opið til klukkan 23 eða skemur. Aðkomuleiðir að garðinum verði við báða enda Hegningarhússins og þær verði jafnframt flóttaleiðir.

Engar fornleifar fundust

Byggingarreitur hins nýja veitingahúss er áætlaður fimm metra breiður eftir endilöngum norðurhluta lóðarinnar. Grunnflötur verði 160 fermetrar með möguleika á allt að 50 metra kjallara í vesturenda. Byggingin skal hafa sama þakhalla og Hegningarhúsið og lagt sambærilegum þakhellum.

Fram kemur í umsókninni að fornleifa var leitað í fangelsisgarðinum en ekkert fannst.