Whitfield Crane í þessum líka fínu sokkum á Copenhell-hátíðinni á síðasta ári.
Whitfield Crane í þessum líka fínu sokkum á Copenhell-hátíðinni á síðasta ári. — AFP/Torben Christensen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eitt af því sem ég hef lagt áherslu á gegnum tíðina, vegna þess að vinir mínir sem ég álít vel gefna bentu mér á það, eru sokkar. Það eru ótrúleg forréttindi að hafa aðgang að sokkum. Sé maður allur hinn ógeðslegasti en fari í gott par af hreinum sokkum líður manni strax miklu betur

Eitt af því sem ég hef lagt áherslu á gegnum tíðina, vegna þess að vinir mínir sem ég álít vel gefna bentu mér á það, eru sokkar. Það eru ótrúleg forréttindi að hafa aðgang að sokkum. Sé maður allur hinn ógeðslegasti en fari í gott par af hreinum sokkum líður manni strax miklu betur. Maður hugsar með sér: Þetta breytir öllu. Ég er nánast hreinn. Ég er að meina þetta. Sokkar eru geggjaðir. Ég elska hreina sokka. Hver gerir það ekki? Pælið bara í því …“

Við erum stödd í miðju hlaðvarpi, Life in the Stocks (þó ekki Socks), vestur í Ameríku. Maðurinn sem hefur orðið gegnir því tilkomumikla nafni Whitfield Crane og er söngvari rokkbandsins Ugly Kid Joe eða Jói litli ljóti. Og hvert er eiginlega samhengið? Jú, Ugly Kid Joe hefur auðvitað túrað grimmt gegnum tíðina og allir sem eitthvað vita um rokk og ról geta sagt sér að það er ekki endilega hreinlegasti lífsstíll í heimi. Ég meina, gigg, rúta, skot, gigg, rúta, skot og kannski smá lúr, ef maður er heppinn. Mögulega margir dagar milli almennilegs steypibaðs. Og auðvitað breyta hreinir sokkar öllu við þær aðstæður. Það segir sig sjálft.

Nú er Ugly Kid Joe ekki band sem fyllir íþróttaleikvanga eitt og sér en sumarið 1995 voru þeir félagar svo heppnir að fá að slást í för með mun stærri og vinsælli böndum, Bon Jovi og Van Halen, á leikvangatúr um Evrópu. Stundum slógust Slash og The Pretenders í hópinn. Ugly Kid Joe hafði þá nýlega sent frá sér breiðskífu með því skemmtilega nafni Menace to Sobriety.

Enda þótt menn væru ríkir og frægir og giggin stór var túrinn eftir sem áður vel sveittur. Eins og gengur. Rokkarar pakka vitaskuld ekki sínu eigin drasli fyrir svona ferðalög og okkar maður Whitfield Crane áttaði sig snemma á því hvaða manni hann þyrfti að koma sér vel við til að eiga möguleika á hreinum fötum og þá sérstaklega hreinum sokkum – búningameistara Bon Jovis, Spanky að nafni. Eða það minnti hann alla vega í hlaðvarpinu að meistarinn hefði heitið. Hvort haldið þið að Spanky sé karl eða kona?

„Næði maður að vingast við hana [bingó!], gat maður fengið hrein föt. Það var mitt helsta markmið. Við smullum saman og hún var alveg geggjuð. Besta mál, ég fæ hrein föt enda er það draumurinn á túr. Svo það sé aftur sagt, þá er draumur manns á túr, hreinir sokkar og hrein föt. Þá er maður fær í flestan sjó.“

Já, já, Whitfield minn, ég held að við séum búin að ná þeim boðskap.

Enga sokka að finna

Þegar menn eru farnir að spila í meistaradeildinni, eins og Jóarnir okkar þarna, þá tekur gildi mikið þarfaþing – óskalistinn. Til eru óteljandi undarlegar sögur af óskum listamanna um það sem þeir þurfa og verða að fá fyrir og/eða eftir tónleika. Bað ekki eitt bandið um helling af M&M, nema hvað fjarlægja átti allar rauðu pillurnar? Vandfundin er betri leið til að fá útrás fyrir sína sérvisku og eftir atvikum stæla.

Alltént. Á þessum Bon Jovi-túr var, að sögn Cranes, hægt að biðja um allt mögulegt, Skittles, bjór, brauð, veganmat, svo dæmi sé tekið. Og svo auðvitað hreina sokka.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort Crane gleymdi að setja sokka á listann. En hvað var a’tarna? Þegar hann mætti til búningsherbergja fyrir fyrsta giggið var enga sokka að finna. Bara núll, nix.

Okkar maður fylltist að vonum skelfingu og hljóðaði upp yfir sig: „Helvítis, fokking, fokk [og það 13 árum fyrir hrun]. Engir sokkar! Er það til of mikils mælst? Við erum ekki að biðja um neitt út úr kú. Við viljum bara sokka.“

Til að setja málið í enn betra samhengi þá erum við ekki að tala um neitt sveitagigg, heldur Rock Am Ring-hátíðina frægu í Þýskalandi. Átti Crane að fara á svið þar í skítugum sokkum?

Hættu þessu sokkabulli!

Þegar hér er komið sögu var Crane farinn að gerast félögum sínum hvimleiður. „Hættu þessu sokkabulli, maður!“ gall í þeim, öllum í kór. „Það var svo sem talsvert til í því,“ rifjar hann upp sjálfur. „Ég var bara, sokkar, sokkar, sokkar. Þetta var eiginlega galið.“

En þegar neyðin er stærst þá er Eddie Van Halen næst. Eins og sönnum höfðingja sæmir mætti hann til að heilsa upp á upphitunarbandið fyrir gigg og skynjaði strax að Crane var með böggum hildar. „Eddie settist við hliðina á mér með gítarinn og spurði hvað væri á seyði. Enginn vill heyra mig segja „sokkar“ einu sinni enn en sannast sagna þá er ég að fara á taugum. Helvítið hann Bon Jovi. „Hvað gerðist? Hvað gerði hann?“ spurði Eddie. Hann lætur mig ekki hafa sokka. „Hvað ertu að segja?“ hváði Eddie. „Lætur hann þig ekki hafa sokka?“ Nei, lagsi, og ég sem skrifaði þetta samviskusamlega á óskalistann.“

Van Halen varð að vonum um og ó og mælti á kjarnyrtri ensku: „Fokk!“ Að því búnu stökk hann upp á borð, reif sig fyrst úr úr skónum, síðan sokkunum og færði þá Crane. „Eins og í leiðslu þá fór ég sjálfur úr skónum og klæddi mig í sokkana hans Eddies Van Halens. Að því búnu fór ég á svið og hélt rokktónleika.“

Ekki kom fram í svo mörgum orðum í hlaðvarpinu hvort sokkarnir hans Van Halens hefðu verið hreinir en af samhenginu að ráða verða að teljast yfirgnæfandi líkur á því að svo hafi verið.

Þegar ég settist niður til að skrifa grein í þetta rými var ég staðráðinn í að hafa hana jólalega. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það var hásumar þegar þessi dásamlegu sokkaskipti áttu sér stað að tjaldabaki á rokkhátíð í Þýskalandi en ég skora eigi að síður á ykkur að finna aðra sögu sem stendur anda jólanna nær.

Til höfuðs Pretty Boy Floyd

Ugly Kid Joe var stofnuð í Isla Vista, Kaliforníu, árið 1989, að sögn til höfuðs glysbandinu Pretty Boy Floyd sem við skulum alls ekki rugla saman við okkar mann, Prettyboitjokkó. Bandið leikur hart rokk eða poppskotið þungarokk, eftir því hvernig á það er litið, og naut bærilegra vinsælda í níunni en þá komu þrjár af einungis fimm breiðskífum sveitarinnar út. Þeir Jóar hafa greinilega gaman af orðaleikjum en téðar plötur heita Americas Least Wanted, Menace to Sobriety og Motel California. Ugly Kid Joe lagði upp laupana 1997 en kom aftur saman 2010. Síðan hafa komið tvær plötur, Uglier Than They Used ta Be, 2015, og Rad Wings of Destiny í fyrra. Á næsta ári mun Ugly Kid Joe hita upp fyrir goðsagnirnar í Scorpions á tónleikaröð í Las Vegas