Greppitrýni Brian segir útlit jólakattarins yfirleitt vera einhvers konar sjálfsmynd af sér. Í nýju bókinni bætist óvænt annar köttur í hópinn.
Greppitrýni Brian segir útlit jólakattarins yfirleitt vera einhvers konar sjálfsmynd af sér. Í nýju bókinni bætist óvænt annar köttur í hópinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Útlit jólakattarins er yfirleitt einhvers konar sjálfsmynd af mér. Á okkur er sami svipurinn,“ segir Brian Pilkington um helst til ófrýnilegan jólaköttinn sem hann hefur skapað í tveimur bókum

Viðtal

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Útlit jólakattarins er yfirleitt einhvers konar sjálfsmynd af mér. Á okkur er sami svipurinn,“ segir Brian Pilkington um helst til ófrýnilegan jólaköttinn sem hann hefur skapað í tveimur bókum. Sú fyrri, Jólakötturinn tekinn í gegn, kom út fyrir tveimur árum og þessi jól sendir hann frá sér bók í sams konar formi, Gleðilega mjátíð, en þar segir frá óvæntri fjölgun ferfætlinga hjá Grýlufjölskyldunni í hellinum.

„Mér finnst virkilega gaman að skrifa um og teikna þessar íslensku þjóðsagnapersónur. Ég skemmti mér svo vel við að gera fyrri bókina um jólaköttinn að mig dauðlangaði til að gera bók númer tvö. Auk þess horfir konan mín oft á kettlinga á internetinu og mér sýnist það vera mjög vinsælt, svo ég fór að velta fyrir mér hvernig ég gæti komið kettlingum inn í sögu af jólakettinum. Útkoman var Gleðilega mjátíð,“ segir Brian en bækur hans um jólaköttinn, Grýlu og hennar fjölskyldu, hafa verið afar vinsælar, enda heillast börn af því sem er framandi og svolítið hræðilegt.

„Þessar íslensku þjóðsagnaverur heilla mig líka, en þegar ég kom fyrst til Íslands fyrir 47 árum, þá tók það mig nokkur ár að gera mér grein fyrir að jólasögur ykkar Íslendinga væru gjörólíkar því sem ég áður þekkti. Mér fannst þær stórkostlegar þegar ég loksins uppgötvaði þær. Mér fannst svolítið skrýtið að enginn væri að gera neitt með þær, svo mér fannst ég verða að búa eitthvað til. Fyrstu bókina mín, Allt um jólin, sem kom út fyrir tuttugu árum, gerði ég til að kynna fyrir ferðamönnum þessa gömlu íslensku jólahefð, allt sem Grýla og fjölskyldan hennar gera um jólin,“ segir Brian og tekur fram að nýja bókin Gleðilega mjátíð sé einnig fáanleg á ensku.

Vonandi endist mér aldur

„Ég nýt þess mjög að gera þessar bækur og mig langar til að gera bók um hvern og einn jólasvein. Reyndar hef ég gert eina um Stúf og eina um Grýlu, en ég veit ekki hvort mér endist aldur til að gera bók um alla hina sveinana,“ segir Brian og hlær.

„Ég vona að Guð sjái til þess að mér takist það og í framtíðinni væri svo hægt að skella þeim öllum saman í eina harðspjalda bók. Innanvert á sveigjanlegu bókarkápunum um jólaköttinn hef ég reyndar teiknað myndir af öllum jólasveinunum og upplýsingum um þá og hvenær þeir koma til byggða. Þetta er alveg nauðsynlegt fyrir þá sem ekki þekkja þessar sögur, til dæmis ferðamenn,“ segir Brian og rifjar upp að upphaflega hugmyndin að því að hafa fyrstu bókina með sveigjanlegri kápu hafi komið út frá því að hann gerði litlar bækur með vinalegri útgáfu af myndum af jólasveinunum, fyrir yngri börn. „Þær voru hugsaðar til að rúlla upp og setja í skóinn.“

Stórkostlega sterk áhrif

Þegar Brian er spurður að því hvort honum sé farið að þykja vænt um Grýlu og hennar fjölskyldu eftir að hafa unnið með þau í bókum sínum svo lengi sem raun ber vitni, segir hann að því sé öfugt farið.

„Þeim þykir sannarlega vænt um mig, því þau sjá um eftirlaunin mín. Okkur kemur öllum vel saman.“

En hvað getum við lært af Grýlu og hennar hyski? „Að allar fjölskyldur eru á einhvern hátt ófullkomnar, allir geta speglað sig í einhverjum þessara einstaklinga og hegðun þeirra,“ segir Brian og rifjar upp að nokkrum árum eftir að hann kom fyrst til Íslands var honum boðið á jólahátíð hjá leikskólakrökkum.

„Þegar Hurðaskellir kom með miklum látum skellandi hurðum, þá fóru öll börnin að gráta. Mér fannst þetta stórkostlegt. Þegar yngsti sonur minn var í leikskóla var ég beðinn um að koma og teikna myndir á vegg af jólasveinunum og þegar ég teiknaði Grýlu þurftu tvö börn að fara úr herberginu. Þau gátu ekki verið þar inni, af ótta við flagðið. Mér finnst þessi sterku áhrif stórkostleg sem þessar ævafornu persónur í gamla ævintýrinu ykkar hafa. Þegar Grýla kemur um jólin á Þjóðminjasafnið þá er hún alveg mögnuð, útlit hennar er svakalegt og leikkonan meiri háttar. Börnin skelfast og fela sig á bak við foreldra, en þessi háski og hryllingur er nauðsynlegur í öllum ævintýrum. Þar þarf að vera einhver vond persóna sem ber að varast. Að læra snýst meðal annars um að óttast.“