[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Sigurður Rúnar Ragnarsson

Birtan sem heilög á himni skín,

helgan boðskap oss öllum færir.

Boðskapur þessi berst nú til þín,

blessar allt mannkynið, elur og nærir.

Með englum barst fréttin himnum í frá,

fæddur er Jesús í Betlehem.

Hjarðmenn þar fengu hann fyrst að sjá

er fundu að spádómar rættust þeim hjá.

Enn verða jólin hin helgasta stund,

hugsun til náungans sífellt leitar.

Enn er ei seint að eiga þann fund,

ef týndur biður ákaft og heitar.

Þú veist að ef finnur þú frelsara þinn

fyllist þitt hjarta nýjum vonum.

Þótt grýtt sé leiðin hann leiðir þig inn

í ljósið sitt bjarta, já velkominn!

Hann kemur til okkar einlægt og aftur,

í ást og kærleika ljóss og friðar.

Í von og trú oss veitist kraftur,

og veraldar lífinu áfram miðar.

Og ef að þú kemst í krappan dans,

kraftur hans alla endurnærir.

Hann lætur sig varða vitund manns,

við eigum öll stað í faðminum hans.

„Ég boða fögnuð, fái ég eyrum að ná,

fylla heiminn með boðskap mínum.

Að kvöldið sé heilagt oss öllum hjá,

hamingju færi þér og öllum þínum!“

Þess er minnst þá hátíð hæsta ber;

hver er þá alstærsta gjöfin Guðs?

Hún er sá sem finnur frið með þér,

Frelsarinn – í vitund þinni er.

Höfundurinn er fv. sóknarprestur og emeritus.

Höf.: Sigurður Rúnar Ragnarsson