„Í leikhúsinu sjáum við inn í heim þeirra sem maður er kannski mjög ósammála en nær samt að skilja stöðu þeirra sem hafa brotið á samfélagssáttmálanum,“ segir Þorleifur Örn.
„Í leikhúsinu sjáum við inn í heim þeirra sem maður er kannski mjög ósammála en nær samt að skilja stöðu þeirra sem hafa brotið á samfélagssáttmálanum,“ segir Þorleifur Örn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grundvallarforsenda lýðræðisins er að við getum verið heiftarlega ósammála en samt verið hluti af sömu heild. Ef við týnum þessu þá mun vanta súrefnið inn í lýðræðisumræðuna.

Þorleifur Örn Arnarsson leikstýrir jólasýningu Þjóðleikhússins, Eddu, en þar nálgast hann hugmyndaheim goðafræðinnar í Eddukvæðunum ásamt samstarfsfólki sínu. Hann hefur áður sett Eddukvæðin upp í Borgarleikhúsinu í Hannover, en sú sýning vakti mikla athygli og Þorleifur hlaut fyrir hana hin eftirsóttu þýsku leiklistarverðlaun Fástinn sem leikstjóri ársins.

Í Þjóðleikhúsinu er Þorleifur sannarlega ekki að endursýna þýsku sýninguna heldur mætir ferskur til leiks með nýjum höfundum. Hann er spurður af hverju hann hafi ekki viljað setja þýsku sýninguna upp í Þjóðleikhúsinu.

„Ég áttaði mig á því að þar var ég að gera Eddu fyrir útlendinga. Ég þurfti að nálgast efniviðinn út frá því að Þjóðverjar vissu lítið sem ekkert um efnið. Svo fannst mér að ég þyrfti að nálgast þessa goðafræði á heimavelli og þá kom ekki til greina að gera sömu sýningu. Það er ekki hægt að gera Eddu fyrir útlendinga fyrir Íslendinga.“

Þorleifur Örn er höfundur verksins ásamt Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Jóni Magnúsi Arnarssyni. „Jón Magnús er fyrrverandi Íslandsmeistari í ljóðaslammi, Harpa Rún er ljóðskáld og svo er ég leikhúsmaðurinn, þannig að þetta var góð blanda. Við sömdum textann frá grunni. Þarna er sitthvað úr Völuspá og eitthvað úr Snorra-Eddu en annars er textinn frá okkur. Þetta kostaði mikla vinnu og það þurfti mörg áhlaup. Svo lásum við textann fyrir leikhópinn sem kom með fullt af góðum punktum og þá var farið í endurskrif. Nú held ég að við séum komin með ansi traust handrit.“

Mikilvægar spurningar

Í kynningu á sýningunni segir að samband okkar við náttúruna sé þar í brennidepli. Spurður um þetta segir Þorleifur: „Í Völuspá er lýst tilurð heimsins og hvernig tveir ættbálkar, Vanir og Æsir, renna saman í einn, fyrst gegnum stríðsátök og svo gegnum frið. Í kjölfarið upphefst gullaldartímabil sem líður undir lok. Lýsingar í Völuspá á heimsendi, þar sem eldur ríður yfir, sólin verður svört og vötnin og höfin rísa, eru óhuggulega nálægt okkar veruleika í dag.

Þessar sögur opinbera ákveðinn hroka og blindu sem tekur yfir þegar siðmenningin er hvorki í raunverulegu samtali við aðrar siðmenningar né í krítísku samtali við sjálfa sig. Að mörgu leyti má sjá þetta fyrir sér sem einhvers konar filmu sem við getum lagt yfir okkar eigin tíma og horft á hann utan frá.

Í sögunum er verið að reyna að skilja heiminn og siðmenninguna, hvaðan við komum og hvert við erum að fara. Að stórum hluta fjallar sýningin um tengsl manns og náttúru en er auðvitað miklu stærri en það. Tengsl eða tengslaleysi okkar við náttúruna er hluti af miklu stærri heild.

Þetta verður mjög sjónræn sýning og þar er mikið af tónlist. Sögurnar eru fyndnar og skemmtilegar og snúa upp á svo margt í mannseðlinu. Þetta er dans á milli farsa og tragedíu. Ég er að reyna að skapa aðgengilega og marglaga sýningu þar sem horft er bæði í rætur okkar og örlög.“

Þorleifur segist nær aldrei vinna með fastan tíma í sviðsetningum sínum. „Leikhús eru smíðuð til að skilgreina tóm, sem hægt er að fylla með nýrri myndlíkingu, nýrri sögu á hverju kvöldi. Í salnum sitja nútímaáhorfendur. Ég þarf ekki að troða upp á þá sögulegum búningum eða ákveðnum tíma. Mér finnst miklu betra að leyfa lendum hugans að flæða frjálsum og leyfa síðan hverjum og einum að draga sínar ályktanir.“

Má finna gagnrýni á samtímann í þessari sýningu?

„Já, það má finna hana. En mér finnst fátt leiðinlegra en leikhús sem predikar yfir mér. Leikhús þar sem hópur listamanna hefur tekið sig saman og ákveðið að þeir skilji heiminn og ætli nú að tilkynna það á stóra sviði Þjóðleikhússins. Mér finnst mun áhugaverðara að spyrja réttra spurninga en að koma með rétt svör.“

Mikilvæg samvinna

Eins og alkunna er þá er Þorleifur af mikilli leikhúsætt. Móðir hans, Þórhildur Þorleifsdóttir, er leikstjóri, faðir hans, Arnar Jónsson, er leikari og systir hans Sólveig eftirsótt leikkona. Arnar leikur sjálfan Óðin í Eddu.

Spurður hvort stundum hafi skapast togstreita þegar hann var að leikstýra föður sínum segir Þorleifur: „Annað verkið sem ég setti upp eftir útskrift hér heima var einleikur með pabba sem Þorvaldur Þorsteinsson skrifaði fyrir hann. Þá bar á smá togstreitu. Ég held að í dag finnist okkur samstarfið óskaplega skemmtilegt. Þegar æfingin er búin þá er hún búin og þá erum við bara faðir og sonur. Það er hlegið að því á æfingum að ég kalla pabba alltaf Arnar, en það passar bara ekki að ég segi: Heyrðu pabbi geturðu nokkuð …“

Þú hefur sérstakan stíl og sterka sýn sem leikhúsmaður. Hversu mikilvæga telurðu samvinnu í leikhúsi vera?

„Stór hluti af sýn minni er að hleypa öðrum inn í ferlið. Minn stærsti ótti er að lokast inni í eigin hugmyndaheimi. Vera búinn að ákveða að ég hafi skilið heiminn og vera ekki lengur opinn fyrir nýjum hugmyndum. Ég hef alltaf tekið hugmyndina um samsköpunarferlið mjög alvarlega.

Fyrri hluta æfingatímabilsins koma leikarar með sínar eigin hugmyndir og jafnvel eigin senur. Allt byrjar í miklum suðupotti hugmynda og möguleika sem við síðan sorterum úr. Ég tek mismunandi hugmyndir og mismunandi sýn og blanda þeim saman.

Mér leiðist töluvert að sjá fyrstu hugmyndir mínar á sviði. Mér finnst skipta mestu máli að skapa andrúmsloft þar sem fólk hefur frelsi og gleði til að taka þátt í ferlinu og þar þarf að ríkja óttaleysi. Fólki má mistakast og það má prufa sig áfram og upp úr því spretta yfirleitt fallegustu hugmyndirnar.“

Þorleifur er þaulvanur samvinnu en langar hann ekki til að skrifa leikrit upp á eigin spýtur? Hann segist ekki hafa áhuga á því: „Allra fyrsta verkið sem ég sýndi á Íslandi, American Diplomacy, var alveg frumsamið. Það var ekki gott verk. Síðan skrifaði ég með Andra Snæ verkin Eilíf hamingja og Eilíf óhamingja sem sýnd voru í Borgarleikhúsinu. Þá komst ég að því að það hentar mér miklu betur að skrifa með öðrum frekar en að skrifa einn. Best er að viðkomandi sé á öðru hæfileikasviði en ég því þannig næst breidd í textann.“

Aðdáandi Wagners

Þorleifur mun setja upp óperuna Tristan og Ísold eftir Richard Wagner á næsta ári á Bayreuth-hátíðinni, en hann hefur á liðnum árum sett upp nokkrar óperur tónskáldsins við mikið lof.

„Þeim mun meira sem maður stúderar Wagner því magnaðri finnst manni hann vera. Fá verk horfa jafn djúpt inn í gleðina og sársaukann við ást og missi og Tristan og Ísold. Það endurspeglast bæði í textanum og tónlistinni. Ég myndi hiklaust segja að ég væri mikill aðdáandi Wagners.

Hann var breysk manneskja og það er magnað að sjá hvernig hann hleypir þeim breyskleika inn í verkin. Þau eru svo sterk vegna þess að þau sýna okkur inn í skuggahliðar þess hrokafulla, þess reiða, þess öfundsjúka.

Það er mikið ferðalag að takast á við Wagner. Hann er alltaf að skoða goðafræði sem ég hef verið heillaður af frá unglingsaldri. Hann rannsakar þessar sögur sem við segjum okkur til að skilja hver við erum.“

Þessi uppsetning þín á Tristan og Ísold verður varla hefðbundin, eða hvað?

„Þú sagðir áðan ég væri með ákveðinn stíl. Sjálfum líður mér ekki þannig. Ég er ekki að vinna inn í fyrirfram gefinn stíl en kannski opinberast í uppsetningum mínum einhvers konar stöðug undirliggjandi nálgun. Ég held að ég geti alveg fullyrt að sýningin verði ekki hefðbundin í hefðbundnum skilningi þess orðs.“

Óperusöngvarinn Ólafur Kjartan Sigurðarson syngur í uppsetningunni í Bayreuth. „Hann leikur Kurwenals sem er einhvers konar riddari Tristans, ver hann, ber skilaboð fyrir hann og reynir að tala um fyrir honum. Hann hefur leikið áður í Tristan í Bayreuth en þá lék hann karakter sem birtist í lok fyrsta þáttar til þess eins að deyja fyrir sverði Kurwenals. Nú er hann að takast á við stórt hlutverk í verkinu.

Við Ólafur Kjartan höfum ekki unnið saman áður. Ég fór í sumar til Bayreuth og sá hann syngja. Það fer varla upp sú sýning í Bayreuth sem hann er ekki í. Hann er gríðarlega vinsæll þar. Þetta verður mikið ævintýri og við erum báðir mjög spenntir fyrir samstarfinu.“

Annað verkefni erlendis er uppsetning á Pétri Gauti eftir Ibsen í Burg-leikhúsinu í Vín næsta vor. „Ég var hálfnaður með uppsetningu á verkinu þar þegar covid skall á og þurfti að hætta við. Hingað kom fyrir skömmu dramatúrg frá leikhúsinu og við vorum að krukka í handritið og finna nálgunina sem verður ekki alveg sú saman og hugsuð var fyrir covid.“

Séð inn í heim annarra

Það blasir við að leikhúsið sé ástríða Þorleifs og köllun. „Ég hef óbilandi trú á þessum miðli og ég held að hann skipti gríðarlegu máli. Það koma tímar í sögunni þegar lítið er um átök og uppbrot í þjóðfélaginu og lítið að segja og þá heldur leikhúsið sér á floti. En þegar verða mikil umbrot og þegar eitthvað brennur á þjóðarsálinni þá kemur fólkið saman í leikhúsinu.

Leikhús er einstakt að því leyti að það er listform sem verður lifandi við viðveruna. Það er ekki fyrr en áhorfendur koma að þetta samband verður til, eins konar ritúal, þar sem allir í salnum vita að allt sem er að gerast á sviðinu er búið til, en upplifunin er raunveruleg og áhorfandinn fær að sjá inn í heim annarra. Þegar vel tekst til snertir þetta andann og hugann og hláturtaugina og grátkirtlana. Leiklistin er mannlegust allra listforma vegna þess að hún krefst nærveru. Ólíkt skáldsögunni eða myndlistarverkinu þar sem verkið er til hvort sem þú ert þar eða ekki og hvort sem þú lest bókina eða ekki. Leikhús verður aðeins til í andartakinu.

Við það að sjá inn í heim annarra og verða vitni að upplifun þeirra fer maður að skoða sinn eigin heim. Manneskjunni er gefin sú magnaða gjöf að geta upplifað leikverk og geta samtímis borið það sem hún sér og skynjar saman við eigin reynslu. Þetta skapar tengingar milli þess innra og þess ytra og eflir samkennd með öðrum. Ég held að það veiti ekkert af því á tímum sem þessum. Kannski höfum við sjaldan átt jafn erfitt með að tala saman eins og akkúrat í dag í því menningarstríði sem er í gangi.“

Ef ég skil þig rétt þá finnst þér skorta rökræður í þjóðfélagsumræðunni?

„Forsenda þess að geta átt rökræður er að það sé ákveðin grundvallarvirðing fyrir viðmælandanum burtséð frá afstöðu hans. Við eigum mikið samtal á samfélagsmiðlum en því fylgir alltof oft að sá sem talað er til er ekki talinn jafn rétthár þeim sem setur fram fullyrðinguna. Og þá geta rökræður ekki átt sér stað. Þetta verða bara einhliða skoðanaskipti.

Ég hef áhyggjur af því að við séum að missa frá okkur hæfileikann til að geta átt gagnrýnar rökræður. Grundvallarforsenda lýðræðisins er að við getum verið heiftarlega ósammála en samt verið hluti af sömu heild. Ef við týnum þessu þá mun vanta súrefnið inn í lýðræðisumræðuna.

Í leikhúsinu sjáum við inn í heim þeirra sem maður er kannski mjög ósammála en nær samt að skilja stöðu þeirra sem hafa brotið á samfélagssáttmálanum. Þannig er svið leikhússins. Þar horfum við bæði inn í myrkrið og ljósið og hleypum kannski ljósi inn í myrkrið og öfugt.

Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt og það er kannski þaðan sem þessi mikli eldmóður minn kemur. Ef ég tryði ekki á þetta hlutverk leikhússins þá held ég að ég gæti ekki gert allt það sem ég hef verið að gera.“