Vafri Meðal breytinga er ný hliðarstika, Sessions Panel, þar sem notendur geta stjórnað safni af flipum.
Vafri Meðal breytinga er ný hliðarstika, Sessions Panel, þar sem notendur geta stjórnað safni af flipum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stór ný uppfærsla af Vivaldi-vafranum íslenska kom út á dögunum og kennir þar ýmissa grasa. Íslendingurinn Jón von Tetzchner er stærsti eigandi Vivaldi sem fór í loftið árið 2016. Meðal breytinga er ný hliðarstika, Sessions Panel, þar sem notendur geta stjórnað safni af flipum

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Stór ný uppfærsla af Vivaldi-vafranum íslenska kom út á dögunum og kennir þar ýmissa grasa. Íslendingurinn Jón von Tetzchner er stærsti eigandi Vivaldi sem fór í loftið árið 2016.

Meðal breytinga er ný hliðarstika, Sessions Panel, þar sem notendur geta stjórnað safni af flipum. Þar er hægt að skoða, enduropna og jafnvel breyta flipasafninu.

Þá er með nýju uppfærslunni hægt að samstilla (e. sync) alla vafursöguna á öllum tækjum, þ.e. notandinn getur nálgast heildarsöguna hvort sem er í síma, á borðtölvu eða í spjaldtölvu. Öll gögn eru að fullu dulrituð sem þýðir að starfsmenn Vivaldi geta ekki séð gögnin. Þá er hægt að leita að flipa sem finnst á öðrum tækjum og opna hann á þeirri tölvu sem er í notkun.

Enn fremur er hægt að merkja texta á síðu og bæta honum við minnispunkt (e. notes) á einfaldan hátt. Notes er innbyggð virkni í vafranum.

Fyrr á árinu var sagt frá því að Vivaldi væri nú aðgengilegur í fyrsta sinn á iPhone-snjallsímum auk þess sem vafrinn er kominn í bíla, á undan öðrum.

„Þessi uppfærsla er stór,“ segir Jón. „Við erum að bæta við fullt af nýrri virkni sem fólk er mjög ánægt með.“

Þægilegt að sjá flipa

Hann segir að fólki finnist t.d. þægilegt að geta séð flipa sem það var með opna í símanum í tölvunni þegar heim er komið, og öfugt. Hann segir að Sessions-virknin sé einkum fyrir þá sem nota vafra mikið.

„Vivaldi og allur gagnagrunnur okkar er vistaður á Íslandi, sama hvar í heiminum fólk er að nota búnaðinn, og allt er dulritað. Við getum ekki lesið gögnin. Þau eru dulrituð á þínu tæki og svo send yfir á okkar tölvur. Við sjáum aldrei lykilorð notenda. Þetta er viðbótaröryggi,“ segir Jón en Vivaldi hefur markað sér þá sérstöðu að vista ekki gögn notenda eins og aðrir vafrar gera.

Vivaldi er sjö ára gamall. Notendur eru 2,8 milljónir á mánuði og fer fjölgandi. Jón segir að á Íslandi sé stærsti einstaki notendahópurinn en vafrinn er með 1% markaðshlutdeild í landinu.

„Við höfum í raun þá sérstöðu að vera eini evrópski vafrinn. Það eru til aðrir í álfunni en þeir eru svo miklu minni og takmarkaðri.“

Tvö ár eru síðan Vivaldi varð aðgengilegur í Polestar-rafbílum en hann er einnig aðgengilegur nú þegar í Raunault og Volvo. „Við erum í Volvo í gegnum Google. Við erum fyrsti og eini vafrinn í Google Play Store á Android Automotive.“

Einnig hafa samningar verið gerðir við VW Group ( Audi, VW, Porche, Skoda, Lamborghini, o.s.frv.), Mercedes Benz og fleiri.

Vivaldi er eins og fyrr sagði eini vafrinn sem kominn er í bíla. „Tesla er reyndar með eigin vafra í sínum bifreiðum. Hann er ekkert sérstaklega góður,“ útskýrir Jón.

Fyrir áhugasama má t.d. sjá kynningarmyndir á netinu af nýjum Porche Macan með Vivaldi uppsettum. Sá bíll er ekki enn kominn á markaðinn.

Stærri skjár og betri hljómur

Spurður að því hvað það þýði fyrir eigendur ökutækja að hafa vafra í bifreiðum sínum segir Jón að það geti verið mjög nytsamlegt, til dæmis þegar beðið er í bílnum.

„Skjárinn er stærri en á símanum þínum og hljómgæðin eru frábær í bílnum. Þú getur sest niður og horft á kvikmyndir eða kappleiki eða tengt lyklaborð við skjáinn og unnið, nú eða tekið Zoom-fundi. Þetta er frábær kostur bæði í leik og starfi.“

Margt spennandi er á döfinni hjá Vivaldi, að sögn Jóns. Sumt tengist beint ákvörðunum stjórnvalda í Evrópu sem reyna að koma í veg fyrir einræðistilburði stórfyrirtækjanna Google, Apple, Facebook og Microsoft.

„Það er er komin reglugerð sem er smátt og smátt hrint í framkvæmd. Hún á að tryggja jafnt aðgengi allra að markaðnum. Það skiptir máli hvernig markaðsráðandi aðilar koma fram við notendur og samkeppnisaðila. Eitt dæmi er að Apple hefur verið skikkað til að breyta hleðslusnúrum síma sinna yfir í USB. Önnur breyting er að þú átt að geta eytt Edge-vafranum út úr Windows-stýrikerfinu sem ekki hefur verið hægt hingað til. Þér verður í staðið boðið úrval vafra. Við njótum góðs af þessum nýju reglum en þetta kemur til framkvæmda í mars nk.“

Spurður um tekjur Vivaldi segir Jón að þær komi í gegnum samstarfssamninga við leitarvélar. Þá fái Vivaldi greiðslur fyrir bókamerki í vafranum.

„Tekjurnar aukast smátt og smátt en við erum ekki enn komin í plús.“

Engir fjárfestar

Engir fjárfestar eru í Vivaldi. Fyrirtækið er fjármagnað af Jóni einum. „Við höfum trú á því sem við erum að gera og viljum ekki fá inn fjárfesta með skammtímahugsun,“ segir Jón spurður um þetta.

Gervigreind hefur verið mikið í umræðunni upp á síðkastið. Jón segir að Vivaldi þurfi ekki að byggja slíka virkni inn í vafrann. „Ef fólk hefur áhuga á gervigreind getur það nýtt Vivaldi til að skoða ChatGPT t.d. Við sjáum að sumir eru að byggja gervigreindina meira inn í vafrann, eins og Microsoft t.d. Persónulega finnst mér það ekkert rosalega góð hugmynd.“

Hann segir að lokum að gervigreindin sé athyglisverð tækni en mikilvægt sé að nýta hana á réttan hátt.

Vivaldi

  • Í loftið árið 2016.
  • Öll gögn hýst á Íslandi.
  • Aukið öryggi með dulritun.
  • Aðgengilegur nú þegar í Polestar-, Raunault- og Volvo-bifreiðum.
  • Framkvæmdastjórinn stærsti hluthafi en allir starfsmenn eiga hluti.
  • 2,8 milljónir mánaðarlegra notenda.
Höf.: Þóroddur Bjarnason