Til taks Lárus Loftsson og Aron Daði Reynisson, sonarsonur hans, hafa oft unnið saman, síðast í veislu fyrir Fóstbræður 10. desember.
Til taks Lárus Loftsson og Aron Daði Reynisson, sonarsonur hans, hafa oft unnið saman, síðast í veislu fyrir Fóstbræður 10. desember.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Matreiðslumeistarinn Lárus Loftsson hóf nám í faginu fyrir um 60 árum, útskrifaðist 1968 og hefur sinnt starfinu af alúð síðan

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Matreiðslumeistarinn Lárus Loftsson hóf nám í faginu fyrir um 60 árum, útskrifaðist 1968 og hefur sinnt starfinu af alúð síðan. Hann heldur fast í hefðirnar í matnum sem öðru og hefur alla tíð haft það að leiðarljósi að sælla sé að gefa en þiggja.

Frá því þau Valgerður Níelsdóttir giftu sig 1967 hefur Lárus séð um matreiðsluna á heimili þeirra um jól og áramót. „Á aðfangadag er ég alltaf með nautaturnbauta, eins og ég lærði að útbúa í Grillinu á Hótel Sögu. Ég set hann á hringlaga ristað brauð og læt smjörsteiktan tómat ofan á. Laga ekta bearnaise-sósu að hætti frumherjanna til að hafa með. Á jóladag er ég með hamborgarhrygg og síðan hangikjöt ásamt öðru annan í jólum, þegar við borðum heima.“

Í kirkjunni frá byrjun

Seljasókn í Reykjavík var stofnuð 1980. Lárus var einn af stofnendum safnaðarnefndar Seljakirkju og hefur verið viðloðandi kirkjuna síðan, verið bæði í nefndinni og kirkjukórnum.

Lárus segir að lengi vel hafi verið gat í dagskrá Seljakirkju á aðventunni. „Ég sagði við séra Valgeir Ástráðsson, fyrsta sóknarprest Seljakirkju, að keppikefli mitt væri að fylla kirkjuna á þessum tíma.“ Lárus byrjaði á Fóstbræðrum 1996, en áður höfðu þeir í aðdraganda jóla verið með hangikjötsveislu í félagsheimilinu sínu. Því hafi honum dottið í hug að slá tvær flugur í einu höggi; að fá Fóstbræður til að syngja einn sunnudag á aðventunni í Seljakirkju án endurgjalds en í staðinn myndi hann bjóða á eigin kostnað félögum og mökum í hangikjötsveislu í safnarðarsalnum að tónleikunum loknum. „Ég hef alltaf keypt kjötið hjá Kristni Jakobssyni í Kjöthúsinu, um 25 kíló fyrir hverja veislu, og fengið að vinna það hjá honum daginn fyrir viðburðinn. Kirkjan hefur alltaf verið full út úr dyrum á tónleikunum, þetta hefur verið hefð í yfir 20 ár og yfirleitt hafa um eða yfir 100 manns mætt í hangikjötið. Viðburðurinn hefur verið ómissandi og nauðsynlegur þáttur í starfi kórsins og kirkjunnar.“

Enn ein hefðin er á gamlárskvöld. Þá bjóða Lárus og Valgerður um 15 til 20 manns í mat eftir messu í Seljakirkju. „Þegar ég söng í kirkjukórnum byrjaði ég á því að bjóða upp á 15 smárétti eftir messu en gestirnir urðu að mæta í kirkjuna áður. Það hefur verið eina krafan síðan – enginn kemur í matinn án þess að mæta fyrst í messuna.“

Lárus var útnefndur heiðursfélagi Klúbbs matreiðslumeistara sl. vor, en hann hefur jafnframt fengið sambærilega viðurkenningu, Gordon Rouge-orðuna, frá Klúbbi matreiðslumanna á Norðurlöndum. Hann leggur áherslu á að hvar sem hann hafi starfað, jafnt í atvinnulífinu sem í félagsstörfum, hafi hann lagt áherslu á að gefa af sér án þess að hugsa um hvað hann fengi í staðinn. Hann nefnir að þeir Gunnar Kristjánsson framreiðslumaður hafi til dæmis séð um veitingaþjónustuna á heimaleikjum Vals í meistaraflokki karla í fótbolta í mörg ár án endurgjalds og með því hafi hann verið að þakka fyrir allt það sem félagið gerði fyrir hann í uppeldinu. „Mitt mottó hefur alltaf verið að sælla er að gefa en þiggja og ég sé ekki eftir neinu sem ég hef gert.“