Hinrik Pétursson Lárusson fæddist 3. júní 1932. Hann lést 16. nóvember 2023. Útför hans var í kyrrþey.

Nú hefur elsku Hinni frændi kvatt þessa veröld, síðastur í sínum systkinahópi. Á svona stundum rifjar maður upp minningar og er erfitt að minnast og skrifa um Hinna án þess að nefna Böggý, en þau voru einstaklega kærleiksríkt fólk. Eru það ótal margar og góðar minningar sem ég á um Hinna frænda og Böggý og af nægu er að taka. Ég held að öll systkinabörn Hinna eigi góðar minningar frá Álfhólsvegi enda stóð heimili þeirra Hinna og Böggýjar öllum opið. Í æsku voru engin jól nema hitta fjölskylduna af Álfhólsvegi. Þó nokkrar útilegur og ferðir á ættar- eða fjölskyldumót. Er mér minnisstæð ferðin norður á Strandir. Þá fannst frænda ekki mikið til koma um veiðihæfileika mína er hann var að draga netin. Minnti hann mig stundum á það hlæjandi og sagði. „Auður manstu, stígðu bara á hann!“

Hinni frændi var minn fyrsti vinnuveitandi og hann kenndi manni svo sannarlega að meta það að hafa vinnu og bera virðingu fyrir henni. Og að sinna starfinu vel og samviskusamlega. Þá dýrmætu reynslu þakka ég frænda fyrir og hef haft að leiðarljósi. Síðustu ár, sérstaklega eftir að mamma féll frá, þá fækkaði heimsóknunum og hittingum okkar. En mikið var gaman að hitta Hinna í Lækjasmáranum og þegar hann og Bubba komu til okkar í bústaðinn og ánægjulegt var að fá að fagna með honum 90 ára afmælinu hans. Það eru gæði stundanna og minninganna sem skipta máli og lifa.

Elsku Hinni, ég trúi því að nú líði þér vel og það hafi verið vel tekið á móti þér á þeim stað sem þú ert á núna. Ég hef á tilfinningunni að tveir góðir menn hafi hlegið og skálað fyrir endurfundunum í sumarlandinu með eðalviskíi, blönduðu annaðhvort í coca cola eða pepsi.

Elsku frændi, ég kveð þig með söknuði og virðingu og vil þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Afkomendum Hinna sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Missir ykkar er mikill en minningarnar ylja. Ég ætla að enda þessi fátæklegu orð um Hinna frænda á nokkrum línum sem mamma mín, systir Hinna, sendi Ingó í jólakorti fyrir mörgum árum og finnst þau orð eiga vel við núna.

Ég vildi ég gæti verið við hlið þér
örlitla stund

og fært þér fullt af blómum sem
fegurst eru á grund.

En af því að allar óskir ekki geta
ræst

þá verð ég bara að bíða þar til
við hittumst næst.

Lífið það er ferðalag en aðeins ein ferð

sem allir verða að fara, en borga
misjafnt verð.

Sumir borga meira – aðrir minna

En það er bara að brosa því bráðum kemur vorið

Þá batnar allt – þó fenni seint
í sporið.

Kveðjan er til þín og allra hinna.

Guð veri með þér elsku Hinni frændi og minningarnar um ánægjulegar stundir með þér og Böggý munu lifa.

Auður Einarsdóttir.