FH Davíð Snær Jóhannsson skoraði sjö mörk fyrir FH í Bestu deildinni í ár og hann varð þriðji efstur í M-gjöf Morgunblaðsins í deildinni.
FH Davíð Snær Jóhannsson skoraði sjö mörk fyrir FH í Bestu deildinni í ár og hann varð þriðji efstur í M-gjöf Morgunblaðsins í deildinni. — Ljósmynd/aafk.no
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta leggst mjög vel í mig. Þeir eru að fara niður um deild núna en mér finnst það vera mjög spennandi verkefni að koma þeim aftur á þann stað sem þeir eiga skilið að vera á,“ segir knattspyrnumaðurinn Davíð Snær Jóhannsson, sem samdi á dögunum við norska B-deildarfélagið Aalesund

Noregur

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Þetta leggst mjög vel í mig. Þeir eru að fara niður um deild núna en mér finnst það vera mjög spennandi verkefni að koma þeim aftur á þann stað sem þeir eiga skilið að vera á,“ segir knattspyrnumaðurinn Davíð Snær Jóhannsson, sem samdi á dögunum við norska B-deildarfélagið Aalesund.

Davíð Snær kemur frá FH, þar sem hann lék frábærlega í Bestu deildinni í ár. Spurður hvort fleiri lið hafi verið áhugasöm um að fá miðjumanninn í sínar raðir segir hann að valið hafi verið auðvelt:

„Ekki eins mikið og áður. Maður heyrir auðvitað alltaf af einhverjum áhuga en mér fannst ekki vera eins mikil alvara og hjá Aalesund.“

Rökrétt næsta skref

Davíð Snær er fæddur í Ósló og var fyrir nokkrum árum orðaður við skipti til Vålerenga þar í borg eftir að hafa æft með liðinu á reynslu.

Var það einfaldlega skrifað í skýin að þú myndir einn daginn semja við norskt lið?

„Það má eiginlega segja það. Pabbi spilaði náttúrlega í Noregi og ég er fæddur þar. Það má ekki beint segja að ég sé uppalinn þar, við áttum heima þarna í kannski eitt ár.

En mér finnst það mjög skemmtilegt. Þetta er skemmtilegt skref og í rauninni líka rökrétt. Þetta er rétt þróun upp á við á mínum ferli,“ segir hann.

Faðir Davíðs Snæs, Jóhann Birnir Guðmundsson, er fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður sem lék með Lyn í Ósló þegar sonurinn kom í heiminn þann 15. júní árið 2002.

Ekkert annað í boði

Eins og Davíð Snær bendir á féll Aalesund úr úrvalsdeildinni í ár en setur stefnuna þráðbeint upp aftur.

„Já, það er ekki spurning. Þetta er stórt félag og við sáum tvö virkilega stór lið falla úr norsku úrvalsdeildinni á tímabilinu, bæði Vålerenga og Aalesund.

Hjá Aalesund er ekki neitt annað í menginu en að komast beint aftur upp og ég býst við því að það sé eins hjá Vålerenga. Þetta verður erfið en skemmtileg deild á næsta ári.“

Miklu stærri vettvangur

Spurður nánar út í norsku B-deildina og styrkleika hennar í samanburði við Bestu deildina hérlendis segir Davíð:

„Þetta er náttúrlega atvinnudeild. Þetta er ekkert risaskref upp á við miðað við Ísland. Það stærsta í þessu er samt það að vettvangurinn er miklu stærri. Þú ert að spila á stærri leikvöngum og svo ertu að æfa eins og atvinnumaður.

Þrátt fyrir að það hljómi ekki eins og þetta sé eitthvert svaka skref þá er það líka töluvert skref að vera einn úti og standa á eigin fótum. Það má ekki gleyma því. En deildin á næsta ári er óvenju sterk.

Þarna verða lið eins og Aalesund og Vålerenga. Svo koma Stabæk, Start og Sogndal. Hér erum við komnir með fimm félög sem eiga heima í efstu deild. Ég held að þetta verði bara mjög spennandi.“

Svipar til Keflavíkur

Eftir fallið hafa einhverjir leikmenn Aalesund horfið á braut en Davíð Snær segir liðið búa yfir öflugum kjarna ungra leikmanna.

„Þetta er alltaf eins og gengur og gerist þegar lið fara niður, þá verða alltaf einhverjar breytingar á leikmannahópnum. Þetta er mjög ungt lið sem ég er að fara í og það eru margir spennandi leikmenn þarna.

Þeir segja við mig að þrátt fyrir að það hafi gengið illa í fyrra þá sé ekki mikil áhersla á að breyta allt of miklu. Þetta er lið í stöðugri þróun og í rauninni ekkert ósvipað dæmi og ég lenti sjálfur í með Keflavík árið 2018, þegar við féllum.

Þá var góður kjarni af ungum leikmönnum, ég og Rúnar Þór [Sigurgeirsson], sem er að standa sig frábærlega í Hollandi, Ísak Óli [Ólafsson], Sindri [Kristinn Ólafsson] og fleiri góðir strákar.

Það er klár kjarni þarna fyrir og ég er í rauninni fyrsti leikmaðurinn sem þeir fá inn. Svo býst ég við að þeir fái einhverja fleiri,“ útskýrir hann.

Þroskinn og andlegi þátturinn

Í ár blómstraði Davíð Snær hjá FH eftir að hafa ekki verið jafn áberandi árið á undan. Skoraði hann sjö mörk og lagði upp önnur sjö í Bestu deildinni þegar Hafnarfjarðarliðið hafnaði í fimmta sæti.

Hvað orsakaði þennan mun á spilamennsku þinni milli ára?

„Ég held að það sé bara þroskinn. Ég undirbjó mig betur fyrir síðasta tímabil heldur en ég gerði í fyrra. Ég var með nokkrar áherslubreytingar þegar kom að því sem ég var að gera í ræktinni og ég lagaði mataræðið örlítið.

En ég held að stærsta breytingin hafi verið andlegi þátturinn, að trúa á það sem maður getur. Mér finnst það vera það stærsta sem hefur breyst hjá mér og er í rauninni mikilvægasti þátturinn í fótboltanum.

Þegar maður þroskast sem leikmaður og persóna er miklu auðveldara að spila samkvæmt getu,“ segir Davíð Snær að lokum í samtali við Morgunblaðið.