Kristinn Hannesson fæddist 29. janúar 1957. Hann lést 13. júní 2023. Útför fór fram 22. júní 2023.

Elsku, yndislegi pabbi minn.

Senn fer að líða að jólum og það er skrítið að hugsa til þess að þú verðir ekki með okkur að stússast í skötunni, lesa upp jólakortin, skreyta tréð og útbúa jólaþorpið með barnabörnunum.

Ég reyni pínu að lifa í afneitun að þú sért farinn því tilhugsunin að geta ekki heyrt í þér dag og nótt er nánast óbærileg. Ég mun aldrei ná að koma almennilega í orð öllu því sem þú varst mér en mín helsta stoð og stytta er þar ofarlega á lista. Sama hvað var, þú varst til staðar. Skutlast norður og borða hádegismat með mér og fara svo aftur suður var nú ekki tiltökumál fyrir þig og það um hávetur, að aðstoða okkur í framkvæmdum þó þú hefðir varla heilsu til, passa barnabörnin og hundana og styðja við bakið á manni alveg sama hvaða vitleysu maður tók upp á.

Við þurftum ekkert alltaf að tala til að segja það sem var okkur efst í huga, við skildum hvort annað svo vel og samvera í þögninni sagði stundum meira en þúsund orð.

Við systkinin duttum í lukkupottinn að eiga ykkur mömmu sem foreldra og hvað þá barnabörnin og dýrin sem héldu alltaf mikið upp á þig. Þvílíkar fyrirmyndir sem þið eruð og ég er svo stolt af því að vera dóttir þín. Þú varst hlýr og góður, vinnusamur dugnaðarforkur, lausnamiðaður, með mikla réttlætiskennd, skemmtilegur og traustur. Faðmurinn þinn svo hlýr og fullur af umhyggju og alveg sama hversu mikið var að gera hjá þér, þú hafðir alltaf tíma fyrir okkur. Ég er svo þakklát fyrir allar okkar stundir saman, sama hvort það var heima í Reynihvammi, á Siglufirði eða á ferð og flugi. Og ég er svo glöð að við Örvar náðum að gifta okkur áður en að þú kvaddir. Brúðkaup skipulagt á einni viku, einum mánuði upp á dag áður en að þú kvaddir, með hjálp fjölskyldunnar. Það kom ekkert annað til greina í okkar huga en að þú myndir fylgja mér inn „kirkju“-gólfið og njóta athafnarinnar og kvöldsins með okkur.

Ég lærði svo margt af þér og mun hafa þína sýn á lífið að leiðarljósi svo lengi sem ég lifi og vona að ég nái að smita hana yfir í börnin mín. Ég sé það nú þegar að þú hefur náð að kenna stráknum mínum, nafna þínum, margt. Sama hversu stór eða smá verkefnin eru þá er hann mættur til að aðstoða eða redda málunum. Það sýndi sig í brúðkaupinu þar sem hann sá um veislustjórn, reddaði þjónum, tónlist, skreytingum og bara nefndu það, allt upp á sitt einsdæmi. Eins þegar hann stóð á haus langt fram á kvöld að hjálpa okkur að taka baðherbergið í Reynihvammi í gegn svo þú gætir komið heim. Hann ætlar svo sannarlega að feta í fótspor afa síns, eins hans stærsta aðdáanda, í dugnaði, kímni og trausti enda leit Kiddi alltaf mikið upp til afa síns og leitaði oft til þín og mömmu.

Þú varst virkilega elskaður af okkur öllum og það myndaðist stórt skarð þegar þú kvaddir, en við höldum utan um hvert annað, stöndum þétt saman og yljum okkur á fallegum og góðum minningum.

Takk pabbi, fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og okkur og fyrir að vera manneskjan sem þú varst.

Elska þig að eilífu.

Þín dóttla,

Guðný.