Tónar Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spilaði í Hörpu um síðustu helgi, fyrir og eftir jólatónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Tónar Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spilaði í Hörpu um síðustu helgi, fyrir og eftir jólatónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er mikil framkvæmdagleði í Reykjanesbæ þessi misserin. Sumar framkvæmdir teljast eðlilegt viðhald eða viðbót en aðrar eru stórar og umtalsverð bæting á þjónustu eða framkvæmt er af knýjandi þörf

Úr bæjarlífinu

Svanhildur Eiríksdóttir

Reykjanesbæ

Það er mikil framkvæmdagleði í Reykjanesbæ þessi misserin. Sumar framkvæmdir teljast eðlilegt viðhald eða viðbót en aðrar eru stórar og umtalsverð bæting á þjónustu eða framkvæmt er af knýjandi þörf. Of langt mál yrði að telja allt upp og verður því stiklað á stóru hér.

Unnið er af krafti við stækkun hjúkrunarheimilis Hrafnistu við Nesvelli en í vikunni var plata fyrstu hæðar steypt. Með viðbyggingunni verður starfsemi Hrafnistu í Reykjanesbæ komin undir sama hatt því hjúkrunarheimilið Hlévangur verður aflagt þegar viðbyggingin verður tekin í notkun. Áætlað er að það verði undir árslok 2025 og telja hjúkrunarrýmin þá 110.

Framkvæmdir við íþróttahús í Dalshverfi II eru langt komnar og verður húsið tekið í notkun á komandi ári. Auk þess að vera mikil styrking fyrir körfuknattleiksdeild UMFN, þar sem Ljónagryfjan er löngu sprungin, mun húsið verða til mikilla hagsbóta fyrir almenna íþróttaiðkun í bæjarfélaginu og að sjálfsögðu skólaíþróttir en íþróttahúsið er beintengt Stapaskóla. Þar verður jafnframt innilaug og heitir pottar sem íbúum býðst að nota.

Áformað er að taka tvo nýja leikskóla í notkun næsta haust í nýjustu hverfum Reykjanesbæjar, Dalshverfi III og Hlíðarhverfi. Bæði hverfin hafa vaxið hratt sem og íbúafjöldi Reykjanesbæjar, sem kallar á innviðauppbyggingu af ýmsu tagi.

Það eru sannarlega áhugaverðar framkvæmdir í kjallara Hótels Keflavíkur. Þar verður opnuð heilsulind með vorinu sem bæði mun innihalda líkamsræktarstöð og slökunarrými eins og heita og kalda potta og innfrarauða saunu. Rúsínan í pylsuendann, a.m.k. fyrir suma, er snjóhús sem þar verður. Kæling líkamans verður sannarlega tekin upp á annað stig í þeirri heilsulind.

Af myglumálum er það helst að frétta að unnið er að því að koma Myllubakkaskóla og Holtaskóla í starfhæft ástand, en stór hluti skólastarfsins hefur verið í lausum einingum undanfarin misseri eða dreift um byggingar í bæjarfélaginu. Þá fannst mygla í lögreglustöðinni við Hringbraut og hefur öll starfsemi verið flutt í starfsstöð embættisins við Brekkustíg. Þar er þröng á þingi og hefur lögreglan óskað eftir að fá að reisa bráðabirgðahúsnæði á lóðinni við Hringbraut.

Breytingar verða á bæjarstjórn Reykjanesbæjar um áramót. Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar og formaður bæjarráðs, hefur ákveðið að hætta í bæjarpólitíkinni. Friðjón hefur sagt frá því opinberlega hversu mikil hatursorðræða einkenni orðið tjáningu fólks á samfélagsmiðlum m.a. í garð þeirra sem starfa í pólitík. Þykir honum sú þróun miður.

Mikið hefur mætt á almannavarnardeild ríkislögreglustjóra á Suðurnesjum að undanförnu. Stjórnstöð deildarinnar er starfrækt í nýrri slökkvistöð Brunavarna Suðurnesja við Flugvelli í Reykjanesbæ og þaðan er sjónvarpað og útvarpað reglulega vegna náttúruhamfara við Grindavík.

Annir eru ekki síður í nágrenni deildarinnar þar sem uppbygging við Flugvelli hefur verið býsna hröð að undanförnu. Slökkvistöðin stóð um tíma ein í hverfinu en nú er það að byggjast hratt upp, aðallega undir flugsækna starfsemi.

Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hringir inn jólin hjá mörgum bæjarbúum. Kórinn hefur spilað á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands mörg undanfarin ár og var engin undantekning þar á í ár. Sem gamall bjölluspilari í bjöllukór sem starfræktur var í mínum heimabæ á 9. áratugnum finnst mér fátt jafn hátíðlegt og heyra í þessum magnaða kór sem Karen Sturlaugsson stjórnar. Magnaðastur verður þó að teljast bjölluspilarinn Magnús Már Newman sem slær allt út á tónleikum kórsins, spilandi á flestar og stærstu bjöllurnar og gerir það af mikilli list.

Aðventugarðurinn hefur verið líflegur þá daga sem hann hefur verið opinn í desember. Boðið er upp á ýmsa viðburði og skemmtanir, m.a. er skautasvell þar starfrækt. Leikfélag Keflavíkur tók garðinn inn í sína uppfærslu á sígildu jólaævintýri Charles Dickens nýverið og kallaði Jólaævintýri í Aðventugarði. Síðasti opnunardagur Aðventugarðsins er í kvöld og mun hann sannarlega iða af lífi, líkt og miðbærinn allur á Þorláksmessukvöldi. Þar er aldrei að vita hvern maður hittir, kannski jólasvein.

Að þessu sögðu óska ég lesendum gleðilegrar hátíðar.