Stórleikarar Julia Roberts og Ethan Hawke í sviðsljósinu.
Stórleikarar Julia Roberts og Ethan Hawke í sviðsljósinu. — AFP
Ljósvakinn nældi sér því miður í covid líkt og svo margir landar hans núna í jólamánuðinum og var því ansi fátt hægt að gera annað en kúra undir hlýrri sæng fyrir framan sjónvarpið og hámhorfa á Netflix og aðrar streymisveitur

Anna Rún Frímannsdóttir

Ljósvakinn nældi sér því miður í covid líkt og svo margir landar hans núna í jólamánuðinum og var því ansi fátt hægt að gera annað en kúra undir hlýrri sæng fyrir framan sjónvarpið og hámhorfa á Netflix og aðrar streymisveitur.

Óhætt er að segja að fjölbreytt úrval misgóðra jólamynda sé í boði þessa dagana en flestar virðast þær þó vera eftir svipaðri uppskrift. Yfirleitt er um að ræða fallega, unga og einhleypa konu sem kynnist fallegum, ungum og einhleypum manni í kringum jólahátíðina og áður en jólin sjálf ganga í garð eru þau búin að umbylta framtíðarplönum sínum, allt fyrir nýju ástina og jafnvel áður en fyrsti kossinn hefur átt sér stað. En sama hversu léleg myndin er þá dregst maður ósjálfrátt inn í jólaandann og tímir ekki að slökkva á sjónvarpinu, lætur sig bara svolítið hafa það.

En þegar nóg var komið af keimlíkum jólamyndum ákvað Ljósvakinn að kíkja á myndina Leave the world behind á Netflix sem skartar úrvalsleikurum á borð við Juliu Roberts og Ethan Hawke í aðalhlutverkum. Má með sanni segja að myndin hafi verið áhugaverð og spennandi en hins vegar endar hún á afar furðulegan hátt. Þó alveg þess virði því hún tekur jú á atburðum sem óhætt er að segja að gætu í rauninni gerst.