Örn Ágúst Guðmundsson fæddist 28. september 1938. Hann lést 7. desember 2023. Útför fór fram 22. desember 2023.

Nú þegar enn er rofið skarð í raðir okkar tannlækna viljum við með nokkrum orðum minnast okkar ágæta kollega Arnar Ágústs Guðmundssonar tannlæknis, en hann lést á Elliheimilinu Grund 7. desember sl. 85 ára að aldri eftir erfið veikindi.

Hann lauk námi í Menntaskólanum á Akureyri 1958 og Tannlæknadeild Háskóla Íslands 1966. Í útskriftarárgangi hans voru átta tannlæknar. Auk Arnar Ágústs þeir Björn Þorvaldsson, Hrafn G. Johnsen, Kristín Ragnarsdóttir, Ólafur Höskuldsson, Ólafur G. Karlsson og Þórarinn Sigþórsson. Úr þessum hópi er helmingur fallinn frá, aðrir hættir störfum nema Þórarinn sem mun sennilega aldrei hætta. Í upphafi var tannlæknadeildin til húsa í norðurenda efstu hæðar aðalbyggingar Háskóla Íslands, en flutti árið 1959 í kjallara Landspítalans. Var námið þá lengt í sex ár, sérhæfing jókst og klínískum kennurum fjölgað. Tannlæknadeild flutti í núverandi húsnæði í Læknagarði 1983, sem var þá einhver nútímalegasta og best búna tannlæknadeild sem þekktist. Nú er deildin á hrakhólum en húsnæðismál hennar munu væntanlega stórbatna á næstu árum, en henni er fundinn nýr staður í nýbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Framhaldsnám í munnsjúkdómum og röntgenfræði stundaði Örn Ágúst við Björgvinjarháskóla í Noregi 1973-1976. Byggingarnefnd fyrir nýbyggingu tannlæknadeildar hér skoðaði skólann og sagði hann okkur frá námi sínu og hvað hann undi hag sínum vel. Hann var sjálfstætt starfandi tannlæknir í Reykjavík frá 1966 til 2013 er hann lauk störfum 74 ára að aldri. Hann rak tannlæknastofu fyrst í Túngötu 7 með Björgvini Jónssyni og síðar á Laugavegi 18. Hann var stundakennari við Tannlæknadeild Háskóla Íslands 1971-72, við Björgvinjarháskóla 1973-1975, lektor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands 1978-1981 og stundakennari 1994, auk þess að vera prófdómari við deildina um árabil.

Örn Ágúst var virkur félagi í Tannlæknafélagi Íslands og gegndi þar trúnaðarstörfum. Fyrir þau er þakkað. Hann var áhugamaður um andleg málefni, aðhylltist guðspeki og sálarrannsóknir. Hann var á tímabili formaður og í stjórn Sálarrannsóknafélags Íslands, forseti Íslandsdeildar Guðspekifélagsins, ritstjóri Mundilfara, félagsblaðs Guðspekifélagsins, og formaður Guðspekistúkunnar Mörk. Hann gekk í Frímúrararegluna 1974 í frímúrarastúkuna Gimli og Helgafell þar sem hann gegndi trúnaðarstörfum.

Á þessum tímamótum kveðjum við þennan ágæta kollega með þökk og hlýju og vottum ættingjum og vinum virðingu okkar. Blessuð sé minning hans.

Kveðja frá Tannlæknafélagi Íslands,

Svend Richter.

Enn einn úr hópi fimmtíu og tveggja stúdenta frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1958 er fallinn frá, Örn Ágúst Guðmundsson. Örn var inspector scholae og lék með okkur í Evrópufrumsýningu á leikritinu „Gestur til miðdegisverðar“, „The Man Who Came To Dinner“, eftir bandarísku skáldin Georg Kaufmann og Moss Hart frá árinu 1941, leikrit sem fjórir nemendur skólans þýddu úr ensku og Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sýndi veturinn 1957 til 1958 og Leikfélag Reykjavíkur fékk í hendur og sýndi í Iðnó í janúar 1969.

Eftirminnileg er ferð okkar með Erni í Mývatnssveit í júní 1968 þegar við fórum um Dimmuborgir með fyrri konu hans, Erlu Stefánsdóttur, þar sem margt bar á góma og við sáum margt furðulegt og stórbrotið, þótt enn fleira væri sjónum okkar hulið, en kona hans sagði okkur frá af innsæi sínu.

Örn Guðmundsson var glaðlyndur maður, hógvær og hjartahlýr. Munum við minnast hans og samverustunda okkar með honum og sendum samúðaróskir börnum og barnabörnum og eiginkonu hans, Margréti Þormar, sem studdi hann síðustu árin í þungum veikindum hans.

Margrét Eggertsdóttir, Tryggvi Gíslason.

Sá er eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn látni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson)

Far vel, vinur minn. Hvíl í friði í landi ljóssins þar sem sólin skín.

Ástvinum þínum bið ég blessunar Guðs.

Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir.