„Ég hef verið mjög heppinn,“ segir Sigurður Guðjónsson sem hefur ætíð nóg að gera.
„Ég hef verið mjög heppinn,“ segir Sigurður Guðjónsson sem hefur ætíð nóg að gera. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í þessu verki er skalinn stór og mjög mikilvægur. Það er farið frá örlandslagi yfir í eitthvað alltof stórt. Það hefur áhrif á skynjun og upplifun.

Sigurður Guðjónsson myndlistarmaður sýnir vídeóinnsetningu á sýningunni Hulið landslag í Listasafninu á Akureyri.

„Þetta er verk sem ég vann á árunum 2019-2021 eftir að mér var boðið að sýna í stjörnuveri í Chicago en þá var verkið sýnt með lifandi flutningi á tónverki eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Það má því segja að verkið eigi sér tvær útfærslur því það hefur annarsvegar verið flutt í tónlistarsamhengi með hljóðfæraleikurum og lifandi tónlist Önnu og svo sem innsetning með hljóðheimi eftir mig í myndlistarsöfnum. Stjörnuverið sem verkið var unnið inn í er staður til að skoða stjörnur og himinhvolfið en þegar ég byrjaði að vinna að verkinu fannst mér flókið að fara inn í það samhengi og ákvað að fara í öfuga átt, eins djúpt inn í efnisheiminn og ég mögulega kæmist og gera hann sýnilegan. Ég valdi lítið kolabrot, sem er um það bil sentimetri að stærð, og setti inn í hátæknilega rafeindasmásjá og þar gat ég grafið tíu þúsund sinnum inn í efnisheiminn.

Þetta er 30 mínútna verk þar sem er ferðast í gegnum ólík sjónarhorn í þessum efnisheimi og úr verður óþekkt landslag. Titillinn vísar í það: Hulið landslag.“

Verkið var sýnt í Berg Contemporary árið 2021 og er núna komið í Listasafnið á Akureyri. „Stjörnuverið í Chicago er kúla og þar sást myndin, sem skapaðist, frá öllum sjónarhornum en hér á Akureyri í þessu fallega safni er verkinu varpað á vegg og verður nánast hluti af sjálfum salnum. Það kemur afskaplega vel út í stærsta sal safnsins, Ketilhúsinu, og þar er hægt að sameinast þessum heimi.“

Skynjun og upplifun

Sigurður segir að við opnun sýningarinnar hafi gestir upplifað verkið á ólíkan hátt. „Sumir fóru niður á hafsbotn og ferðuðust þar. Aðrir fóru út í hraunbreiðu eða alla leið til Mars. Í þessu verki er skalinn stór og mjög mikilvægur. Það er farið frá örlandslagi yfir í eitthvað alltof stórt. Það hefur áhrif á skynjun og upplifun.

Í verkum mínum vinn ég með ljós, hreyfingu og ólíka fókuspunkta í skynjun. Fókusinn í þessu verki umbreytist hægt og rólega sem gerir að verkum að áhorfandanum finnst hann vera að ferðast inn á áður óþekkt svæði, sem gæti samt verið kunnuglegt fyrir suma.

Ég hef gaman af að leika mér með mörk og spennu þar á milli. Hið vélræna versus það lífræna og núning milli hljóðs, myndar og rýmis og hvernig þetta talar allt saman.“

Alltaf nóg að gera

Sigurður vinnur nú að stórri einkasýningu, innsetningu með nokkrum verkum, sem verður í Listasafni Árnesinga á næsta ári. Þetta sama ár, 2024, verður hann með einkasýningu í Ásmundarsal. Hann á verk á samsýningu sem nú stendur yfir í Berg Contemporary. Sýningar erlendis eru síðan í undirbúningi.

„Ég hef alltaf nóg að gera. Það hefur verið þannig alla tíð. Ég hef verið mjög heppinn og það hefur verið gaman fyrir mig að starfa líka með öðrum listamönnum eins og í þessu tilfelli með Önnu Þorvaldsdóttur tónskáldi. Verkið ferðast með henni í heimi tónlistarinnar þar sem hún er á miklu flugi. Það hefur verið sett upp meðal annars í Kennedy Center í Washington, Lucerne Festival í Sviss og á Listahátíð í Reykjavík 2022, en svo er verkið sýnt í myndlistarsamhengi líka, eins og núna á Akureyri. Við það stækkar ferðalag verksins. Að sama skapi starfa ég oft einn, allt að því í þögn og það er mikilvægt. Ég er svo heppinn að vera með fastan samastað, vinnustofu sem er framlenging af heimilinu. Þar er einhvers konar tilraunarstofa þar sem ég fæ þá einbeitingu sem ég þarf til að skila af mér nýjum verkum,“ segir Sigurður.