Hátíðarborð Ásdísar Stundum er minna meira, einfalt en virkilega fagurt.
Hátíðarborð Ásdísar Stundum er minna meira, einfalt en virkilega fagurt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir hátíðarkvöldverðinn á aðfangadagskvöld legg ég alltaf á borð leirtau sem foreldrar mínir áttu og þau keyptu fyrir sextíu árum, árið 1963. Þá voru þau að byggja húsið sitt í Kópavogi, æskuheimili mitt, og voru búin að eignast þrjú af okkur börnunum sínum fjórum

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Fyrir hátíðarkvöldverðinn á aðfangadagskvöld legg ég alltaf á borð leirtau sem foreldrar mínir áttu og þau keyptu fyrir sextíu árum, árið 1963. Þá voru þau að byggja húsið sitt í Kópavogi, æskuheimili mitt, og voru búin að eignast þrjú af okkur börnunum sínum fjórum. Af þessum diskum var aðeins borðað á jólum og stundum á öðrum stórhátíðum. Þetta var sparistellið,“ segir Ásdís Sigurðardóttir sálfræðingur sem er mikið jólabarn og gerði sér lítið fyrir og lagði á jólaborð, með sögum.

„Þessir diskar minna mig á mín bernskujól og með þeim held ég líka lifandi minningu mömmu og pabba sem bæði eru dáin. Ég dreg líka alltaf fram lítinn jólakrans með bjöllu frá fyrstu jólum foreldra minna, 1956.“

Ofan á hverjum matardiski er Ásdís með minni diska frá danska merkinu Royal Copenhagen, fyrir forrétt.

„Einn jóladiskur hefur komið út á hverju ári frá því 1908 og þeir eru merktir með ártali. Núna á ég aðeins tvo, einn með mínu fæðingarári og kisumynd, hinn með fæðingarári mannsins míns með mynd af krökkum á svelli. Ég ætla mér að reyna að finna svona diska með fæðingarárum barnanna minna þriggja. Ég leita á antíkmörkuðum.“

Ásdís segir að eftirréttinn á jólunum borði þau alltaf með gömlum silfurjólaskeiðum.

„Ein svona jólaskeið hefur komið út á hverju ári í sjötíu ár og pabbi gaf mömmu alltaf eina skeið með í pakkanum til hennar, af því hún var að safna þeim. Guðlaugur A. Magnússon gullsmiður hannaði þær í gamla daga og nú gera afkomendur hans það. Á skeiðinni sem ég borðaði alltaf með sem krakki er mynd af Dimmalimm.“

Ég verð eins og barn að nýju

Í borðskrautið segist Ásdís nota oasis sem hún raðar á glerbakka.

„Þetta eru þurrir kubbar sem ég set í vatn og þeir drekka það í sig. Síðan sting ég lifandi greinum í kubbana og ég er með tvenns konar greni í þessari skreytingu og líka eucalyptus. Lifandi greinar haldast lengur ferskar þegar þær geta sogað í sig vatn, þá verða þær ekki þurrar og skreytingin helst falleg öll jólin. Að lokum þræði ég litla ljósaseríu á milli greinanna.“

Ásdís segist setja upp jólaseríur úti hjá sér strax í nóvember, til að draga úr dimmunni.

„Síðan fer ég að dunda mér við að tína smám saman til jólaskrautið mitt, en ég hef alltaf verið mikið jólabarn, kannski af því ég er fædd fjórum dögum fyrir jól. Mér finnst þetta vera minn árstími og mér finnst desember vera fallegasti mánuðurinn, þá er himinninn alltaf svo fagur og ég verð svolítið eins og barn að nýju í jólaundirbúningnum. Ég hlakka alltaf til að taka upp kassann minn með jólaskrautinu og rifja upp hvaðan hver og einn hlutur kemur. Margt af því tengist börnunum mínum og sumt hafa þau fengið í sokkinn þegar þau voru lítil, sem kemur til af því að þá áttum við heima í Bandaríkjunum og þar keyptum við stóra jólasokka. Sokkarnir hafa verið hefð hjá okkur allar götur síðan. Núna koma jólaenglar til mín og mannsins míns og setja stundum eitthvað í sokkana okkar á aðventunni. Ég skreyti yfirleitt líka rúmið okkar með jólaseríum,“ segir Ásdís og bætir við að jólaskrautið hennar sé samansafn af því sem hún hefur viðað að sér í gegnum árin.

„Ég keypti lengi vel eitthvað eitt sérstakt jólaskraut til að bæta í á hverju ári, en ég er hætt því, enda á ég alveg nóg. Núna kaupi ég einvörðungu greni til að búa til jólaskraut.“

Túlípanar á Þorláksmessu

Ásdís byrjaði að safna hnetubrjótum sem jólaskrauti fyrir þrjátíu árum.

„Nanna systir mín gaf mér þann fyrsta þegar börnin mín voru pínulítil, en þá bjó hún í Bandaríkjunum. Þeir eru orðnir rúmlega tuttugu og eru af öllum stærðum og gerðum, en ég er hætt að safna þeim. Stundum set ég þá alla upp saman í hóp en núna ákvað ég að dreifa þeim um allt húsið. Ég hef fengið gefins hnetubrjót frá Birnu systur minni í Danmörku og maðurinn minn gaf mér einn sem er allt öðruvísi en allir hinir,“ segir Ásdís sem alltaf hefur verið hrifin af jólakúlum sem hægt er að hrista og þá þyrlast upp snjór eða glimmer.

„Mamma mín gaf mér eina slíka kúlu árið áður en hún dó, sem mér þykir sérstaklega vænt um.“

Ásdís segist sjálf búa til jólaísinn og það hefur hún gert frá því börnin hennar voru lítil.

„Þau vildu alltaf ís með Toblerone en núna eru þau orðin fullorðin og ég set kaffi í ísinn í stað sælgætis. Ég byrjaði líka að baka lakkrístoppa þegar börnin voru lítil og þau gera enn kröfu um slíkt heimagert góðgæti á jólum. Ég baka líka kókosmjölstertu fyrir öll jól, eins og mamma gerði, og býð upp á hana á jóladag. Ég ólst ekki upp við að gera jólaís en nú hefur Íris dóttir mín tekið þá hefð áfram frá mér inn í sínar jólahefðir. Hún gerir líka lakkrístoppana og þannig flyst þetta á milli kynslóða. Samveran, að búa eitthvað til saman, er dýrmætust. Ég og dóttir mín gerum líka alltaf saman aðventukransana okkar núorðið í byrjun aðventu. Ég tek jólahefðir með mér úr minni bernsku en bý líka til nýjar,“ segir Ásdís og tiltekur nokkrar fastar jólahefðir í viðbót, til dæmis notar hún einvörðungu hvít kerti á jólunum.

„Ég kaupi mér alltaf túlípana á Þorláksmessu. Á aðfangadag eða jóladag skreyti ég grein og fer með í kirkjugarðinn til að setja á leiði foreldra minna, systur og tengdapabba. Ég set líka lifandi ljós á leiðin.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir