„Af öllu því sem viskan tengir við hamingju fólks er vináttan langsamlega mikilvægust,“ sagði gríski heimspekingurinn Epíkúros.
„Af öllu því sem viskan tengir við hamingju fólks er vináttan langsamlega mikilvægust,“ sagði gríski heimspekingurinn Epíkúros. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tíminn með vinum og vandamönnum á þannig ekki að vera tímabundin undantekning, heldur kjarni lífsins allan ársins hring.

Smitberinn

Halldór Armand

halldor.armand@

gmail.com

Þessir dimmustu dagar ársins eru tíminn sem augun opnast stundarkorn og við vöknum loksins; ekki upp af venjulegum draumi um nótt heldur upp af hinum andlega svefni sem kallast daglegt líf í nútímasamfélagi. Jólin snúast um það sem ætti að vera tilgangur lífsins almennt og yfirleitt; að vera með fólkinu sem okkur þykir vænst um. Það ætti að vera æðsta markmið hvers einasta dags sem við drögum andann, að rækta vinskapinn og væntumþykjuna við fólkið sem skiptir okkur mestu máli og fyllir tilveruna gleði, hlýju, hlátri og innblæstri. En í staðinn er þetta einhvers konar undantekningarástand sem samfélagið samþykkir að sé leyfilegt í nokkra daga á ári. Það sé skynsamlegt að taka út hressilegan skammt af náungakærleik og návist okkar nánustu kringum fæðingu Krists, helst sem mest í einu bara, en síðan taka okkur aftur stöðu á hamstrahjólinu. Í heimi þar sem flest fólk – meira að segja hér í hinni meintu norrænu velferðarparadís – þarf að streða alla ævi til þess að eiga fyrir grunnatriðum tilveru sinnar kemur það kannski ekki svo á óvart að tími með fólkinu sem við elskum þyki lúxus og eitthvað spari.

Þannig er hinn eini sanni draumur, hinn eini sanni svefn, daglegt líf okkar og hugmyndafræðin sem rammar hana inn. Lífsgæðakapphlaupið, sem hér á Íslandi er óneitanlega afar fyrirferðarmikið samfélagsafl, er besta dæmið um þetta. Það vita allir innst inni að umfram þær langanir sem heimspekingurinn Epíkúros kallaði „náttúrulegar og nauðsynlegar“ er hvers kyns sókn eftir efnislegum munaði hjóm eitt sem fyllir ekki tómið innra með neinum nema í örskotsstund. Hún er draumur. Hinn raunverulegi raunveruleiki, ef svo má að orði komast, birtist miklu frekar í því sem við köllum venjulega draum – þegar staðreyndir tilverunnar birtast okkur ljóslifandi bak við lokuð augu í svefni án þess að við fáum rönd við reist, stundum óbærilega nöturlegar og stundum skemmtilega einfaldar. Það sem færir þér raunverulega gleði, það sem veitir þér fullnægju, merkingu, ánægju og gleði, það sem ætti raunverulega ekki aðeins að vera tilgangur lífs þíns í heild sinni, heldur tilgangur hvers einasta dags sömuleiðis, er næstum því ábyggilega fjölskylda þín. Og ef það er ekki blóðfjölskylda þín, þá er það fjölskyldan sem þú valdir þér – vinir þínir. Meira að segja forhertustu einstaklingshyggjusinnar sjá þetta: Við erum ekkert annað en fólkið kringum okkur.

Hvað er hið góða líf?

Ævisagnaritarinn Díógenes Laertus segir í umfjöllun sinni um heimspekinginn Epíkúros (341-270. f. Kr.) að hann hafi yfirleitt endað bréf sín á því að skrifa „Lifðu vel“ eða „Gerðu vel“ í stað þess að skrifa „Kær kveðja“. En hvað er að lifa vel og hvernig förum við að því? Þessi spurning einkenndi allt andlegt líf í hinum klassíska heimi – það var ekkert endanlegt svar til. Eftir Krist lá svarið hins vegar fyrir og málið taldist afgreitt. Í okkar nútíma hér á hinum guðlausu Norðurlöndum er afar erfitt að geta sér til um það hvað þykir eiginlega vera gott og eftirsóknarvert líf. Það er erfitt að koma auga á það hvers konar gildum við lifum eftir og ennþá meira krefjandi að ímynda sér hver uppspretta þessara gilda ætti að vera. Á Íslandi er oft eins og traustasti lykillinn að hinu góða lífi þyki fyrst og fremst vera pólitísk tengsl.

Svar Epíkúrosar við spurningunni var margþætt. Hið góða líf fólst í einfaldri og sársaukalausri tilveru og snerist mikið til um að frelsa sig undan „ónáttúrulegum og ónauðsynlegum“ löngunum. Að eltast við völd var það heimskulegasta af öllu í hans augum. Hann skildi manna best að ekkert færir fólki meiri hamingju en að vera kringum fólkið sem það elskar. 27. spakmæli hans er svohljóðandi: „Af öllu því sem viskan tengir við hamingju fólks er vináttan langsamlega mikilvægust.“ Tíminn með vinum og vandamönnum á þannig ekki að vera tímabundin undantekning, heldur kjarni lífsins allan ársins hring. Lifðu vel.