Gosinu á Reykjanesskaga lauk nánast jafnskjótt og það hófst með hvelli og náði ekki einu sinni að verða alvörujólagos. Hér hefði jafnvel verið nær að birta mynd af maltöli og appelsíni, það fer ekki jafnfljótt allt gosið úr því jólagosi.
Gosinu á Reykjanesskaga lauk nánast jafnskjótt og það hófst með hvelli og náði ekki einu sinni að verða alvörujólagos. Hér hefði jafnvel verið nær að birta mynd af maltöli og appelsíni, það fer ekki jafnfljótt allt gosið úr því jólagosi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Greint var frá því að hauskúpubrotin sem fundust á háalofti í Ráðherrabústaðnum hafi verið af danskri konu, en sú var niðurstaða vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar. Guðlaugur Þór Þórðarson orkumálaráðherra sagði orkuöflun í forgangi og boðaði…

15.12-22.12.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Greint var frá því að hauskúpubrotin sem fundust á háalofti í Ráðherrabústaðnum hafi verið af danskri konu, en sú var niðurstaða vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar.

Guðlaugur Þór Þórðarson orkumálaráðherra sagði orkuöflun í forgangi og boðaði myndun nýs meirihluta á Alþingi til þess að það gengi eftir. Aðgerðir þyldu enga bið.

Hægjast virtist á landrisi við Svartsengi.

Félagsdómur úrskurðaði að verkfallsboðun flugumferðarstjóra væri lögleg.

Borið hefur á því að heyrnarlaust fólk leiti sérstaklega eftir hæli á Íslandi, en spurst hefur út að þjónusta við heyrnarlausa sé góð hér. Táknmálssvið Hlíðaskóla er orðið yfirfullt og Félag heyrnarlausra hefur ráðið starfsmann til þess að sinna þessum hópi, sem er nú um þriðjungur daufra hér á landi.

Áburðarverð til bænda hefur lækkað mikið á ný, í takt við verðlækkun á heimsmarkaði. Verð á áburði hækkaði upp út öllu valdi þegar Úkraínustríðið hófst.

Væntingar launafólks til kjarasamninga hafa skýrst í launakönnunum. Það vill hærri laun, meira frí og styttri vinnuviku.

Þrátt fyrir meinta ofuráherslu á raforkumál var raforkuskömmtunarfrumvarpinu mikla frestað og óvissan alger.

Níu frumvörp urðu að lögum á lokadegi Alþingis fyrir jólafrí. Þar bar fjárlög og fjáraukalög hæst, en einnig má nefna lög um húsnæðismál vegna náttúruhamfara við Grindavík, desemberuppbót öryrkja og kílómetragjald á nýorkubíla.

Út kvisaðist að þolinmæði gagnvart verkfalli flugumferðarstjóra færi minnkandi hjá stjórnvöldum, en
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vildi þó ekki játa að frumvarp um verkfallsstöðvun
væri í undirbúningi.

Viðræður flugumferðarstjóra
og Samtaka atvinnulífsins voru
í sjálfheldu, en ríkissáttasemjari
vopnlaus vegna vanrækslu
Guðmundar Inga Guðbrandssonar félagsmálaráðherra.

Bláa lónið var opnað að nýju eftir fimm vikna lokun vegna jarðhræringa.

Útgerðarfélög í Stykkishólmi telja að frumvarp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um
heildarlög í sjávarútvegi sé aðför
að atvinnulífi þar.

Hátt í hundrað manns bíða nú inni á bráðalegudeildum eftir hjúkrunarrýmum. Meðalbið er 3-4 mánuðir en líka dæmi um að fólk megi bíða í rúmt ár.

Land reis enn við Svartsengi.

Á mánudagskvöld hófst eldgos af miklum krafti við Sundhnúkagíga norðaustur af Grindavík, mun stærra en fyrri gos á þessum
slóðum undanfarin ár. Gossprungan var 4 km löng, hraunflæði mikið
og sást gosið eða bjarminn af því mjög víða.

Almannavarnir gripu til þess ráðs að loka Keflavíkurvegi, svo menn komust bókstaflega hvorki lönd né strönd frá eða til Suðurnesja. Þar voru margir íbúar slegnir óhug og vildu gjarnan fara, en eins var þá flugleiðin til og frá landinu teppt.

Flugumferðarstjórar notuðu tækifærið til þess að komast úr klemmunni og aflýstu verkfallsaðgerðum 13 sekúndum eftir að gosið hófst eða þar um bil.

Því ótengt greindi Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, frá miklum vaxtaráformum. Hann vonast eftir að umsvifin tvöfaldist fyrir 100 ára afmæli félagsins 2037, með 70 til 100 flugvélar á sínum snærum.

Nýr meðferðarkjarni Landspítalans, hluti af hrúgunni sem verið er að sturta ofan í Þingholtin, kemst ekki í notkun 2025 eins og ætlað var, heldur í fyrsta lagi 2028. Ástæðan er sögð sú að það sé margt í mörgu.

Rannsókn Byggðastofnunar á atvinnutekjum eftir svæðum leiddi í ljós að þær voru að jafnaði mestar á Tálknafirði, 5,4 m.kr., næstum því jafnmiklar í Fjarðabyggð, en í þriðja sæti var Garðabær með 5,3 m.kr. Reykjavík var um miðbik listans með 4,4 m.kr.

Í öðrum jákvæðum fréttum utan af landi má nefna fordæmalitla mannfjölgun í Vogum, þar sem íbúum hefur fjölgað um 12% frá upphafi árs og eru nú 1.564.

Pétur Arason, listaverkasafnari og kaupmaður í Faco, dó 79 ára.

Eldgosið hélt áfram nokkuð ótrautt, en mun meira hraunfæði var en í fyrri gosum í þessari hrinu. Óttast var að aukin hætta steðjaði að Grindavík og að gosið gæti á fleiri stöðum.

Upp úr samflotsviðræðum aðildarfélaga ASÍ slitnaði, en Sólveig
Anna Jónsdóttir
, formaður
Eflingar, boðaði nýtt bandalag
verkalýðsfélaga, sem semja vildu
á grundvelli lífskjarasamningsins
um krónutöluhækkanir.

Raforkuskömmtunarfrumvarpið var varla komið til botns í pappírskörfum Alþingis þegar Landsvirkjun tilkynnti um skerðingu á orku til stórnotenda á Suðvesturlandi.

Fram kom að Bjarni Benediktsson hefði lagt til að skipa tvo nýja sendiherra, utan ráðuneytisins, þau Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra og Svanhildi Hólm Valsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.

Dregið hefur úr hælisbeiðnum Úkraínumanna á þessu ári, en Venesúelabúum fjölgaði. Palestínuarabar koma þar á eftir.

Erlendum íbúum með búsetu hér á landi fjölgaði um 10 þúsund milli ára. Hlutfallslega fjölgaði Palestínuaröbum mest, en þeir nánast tvöfölduðust á árinu.

Björn Leví Gunnarsson var
ræðukóngur Alþingis einu sinni enn. Hann flutti 225 ræður á 11 tímum.

Draga fór úr gosinu á Reykjanesskaga, sem af einhverjum ástæðum virtist valda sumum vonbrigðum með móður náttúru.

Jarðfræðingar sögðu ekkert að gera nema að venjast tíðari eldgosum, sem ekki myndu öll verða á þægilegum stöðum.

Bókaútgefendur merkja hruuuun í útgáfu þýddra skáldsagna og telja vitaskuld að hið opinbera (les: skattgreiðendur) þurfi að grípa inn í. Einhver þyrfti að segja þeim frá Pisa-könnuninni og lestrarkunnáttu.

Ríkið var dæmt til að greiða Reykjavíkurborg 3 milljarða vegna vangoldinna framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Sem reddar borginni fram yfir mánaðamót þegar Einar Þorsteinsson tekur við keðju og skuldaklöfum borgarstjóra.

Alþingi féllst ekki á hugmyndir
Samkeppniseftirlitsins um ábatann af starfsemi þess og stórfenglegar hugmyndir þess um aukin fjárframlög skattgreiðenda.

Eldgosið dugði ekki einu sinni til jóla og reyndist vera að hætti skáldsins T.S. Eliot, hófst með hvelli en lauk með kjökri.

Grindvíkingar fengu að fara aftur heim til sín, en aðeins má dvelja í bænum frá kl. 7-16.

gjöld Evrópusambandsins munu auka kostnað við sjóflutninga, en þar fyrir utan hafa gjaldskrár skipafélaganna hækkað um 15% í ár.

Matís, sem á að sérhæfa sig í rannsóknum og þróun í matvælaiðnaði, hefur fundið sér nýtt verkefni sem er að koma kæstum hákarli á heimsminjaskrá UNESCO. Þá geta endalok siðmenningar ekki verið langt undan.

Fjöldi ríkisstofnana gefur starfsmönnum frí milli jóla og nýárs. Skatturinn er þar á meðal, en þó er ekki ljóst hvort starfsmönnum verði gert að greiða tekjuskatt af þessum hlunnindum. Það hlýtur að vera.

Ísland er í 3. sæti Evrópuríkja hvað varðar einstaklingsbundna neyslu á hvern íbúa. Betur má ef duga skal.