Töfrateppi Þessar stelpur frá Grindavík urðu þess heiðurs aðnjótandi að fá að fara fyrstu ferðina á nýju töfrateppi Hlíðarfjalls.
Töfrateppi Þessar stelpur frá Grindavík urðu þess heiðurs aðnjótandi að fá að fara fyrstu ferðina á nýju töfrateppi Hlíðarfjalls. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vænta má þess að hvít jól verði víða um land og fór hitastigið vel niður fyrir frostmark í gær. Þá var Hlíðarfjall opnað í gær við góða mætingu og gott skíðafæri að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar forstöðumanns í Hlíðarfjalli

Vænta má þess að hvít jól verði víða um land og fór hitastigið vel niður fyrir frostmark í gær. Þá var Hlíðarfjall opnað í gær við góða mætingu og gott skíðafæri að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar forstöðumanns í Hlíðarfjalli. Hann segir nýtt töfrateppi vera mestu byltinguna á svæðinu: „Þetta veitir gott skjól fyrir litlu krílin sem eru að stíga sín fyrstu skref í skíðamennskunni.“

Skíðasvæðið verður opið yfir hátíðirnar að aðfangadegi undanskildum, þannig að jólabörn og skíðamenn geta samglaðst yfir hátíðirnar.

Þau jólabörn sem Morgunblaðið ræddi við í miðbæ Reykjavíkur í gær voru flest á því að jólaandinn svifi sem hæst frá og með Þorláksmessu eða deginum í dag. Það var þó heldur fátt um að vera í miðbæ Reykjavíkur þegar blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins tóku púlsinn á vegfarendum, en jólaandinn sveif þó yfir þeim sem gáfu á sér færi til spjalls og voru flestir búnir að ganga frá jólagjafainnkaupum.

Vænta má að meira verði um að vera í miðbænum nú í kvöld á Þorláksmessu, en hið minnsta tveir viðmælendur Morgunblaðsins sögðu jólaskapið ná hápunkti frá og með Þorláksmessu.

Flestir voru búnir að ganga frá jólagjafainnkaupum, en þó voru sumir á síðustu stundu eins og gengur og gerist um hátíðarnar.

‚Já, já, já, jólaskapið kemur með ljósadýrðinni!

Steingrímur Ellingsen

,Já, jólaskapið kemur vanalegast svona í lokin.

Sara
Sigmundsdóttir og hundur Snædís

,Já, að sjálfsögðu. Það kemur með snjónum og kuldanum.

Harpa, Katla, Matti og Sunneva

,Já, jólaskapið kemur hægt og rólega, en það nær alltaf hámarki hjá mér á Þorláksmessukvöldi.

Jón Nordal

,Já, ég er það! Ég er búin að punta lóðina hjá mér og setja upp jólaskrautið.

Unnur Guðjónsdóttir