Fallegt framtak Hér má sjá mynd frá afhendingu styrksins sem fram fór þann 15. desember í grunnskólanum.
Fallegt framtak Hér má sjá mynd frá afhendingu styrksins sem fram fór þann 15. desember í grunnskólanum. — Ljósmynd/Grunnskólinn í Hveragerði
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is „Fyrst var þetta nú bara að láta gott af sér leiða og efla samkennd og samhug meðal nemenda og starfsfólks,“ segir Sævar Þór Helgason, skólastjóri í Grunnskólanum í Hveragerði, en síðastliðin ár hafa nemendur og starfsfólk skólans haldið góðgerðarþema í nóvember.

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Fyrst var þetta nú bara að láta gott af sér leiða og efla samkennd og samhug meðal nemenda og starfsfólks,“ segir Sævar Þór Helgason, skólastjóri í Grunnskólanum í Hveragerði, en síðastliðin ár hafa nemendur og starfsfólk skólans haldið góðgerðarþema í nóvember.

Hafa safnað 11,4 milljónum

Afrakstur góðgerðardagsins hefur verið afhentur hinum ýmsu félagasamtökum frá árinu 2015 en málefnin hafa verið valin með tilliti til þess að börn njóti á einhvern hátt góðs af styrknum. Þá hafa umtalsverðar fjárhæðir safnast á þessum árum með sölu á vörum og eins hafa fjölmörg fyrirtæki stutt við söfnunina með beinum peningastyrkjum. Samtals hafa verið veittar rúmar 11,4 milljónir króna í styrki á þessum níu árum en í ár fengu samtökin Ljónshjarta tveggja milljóna króna styrk frá skólanum.

Segir Sævar Þór að með árunum hafi þráðurinn í þessu framtaki verið sá að börn hjálpi börnum en í dag sé þetta í raun orðið að ómissandi hefð á þessum árstíma í Hveragerði.

„Þetta er stór partur af aðdraganda jólanna. Það er hópur krakka sem nýtur þess að vera í svona uppbroti, vera að framleiða allt mögulegt. Við höfum alltaf kerti og svo eru fullt af fyrirtækjum sem styrkja þetta höfðinglega þannig að hráefniskostnaður er eiginlega enginn,“ segir hann.

Haldið í íþróttahúsinu

„Á góðgerðardaginn sjálfan
erum við með markaðstorg í íþróttahúsinu því þetta er orðið svo stórt að við getum ekki haft þetta lengur inni í skólanum. Þá er kaffihús og fjöldi bæjarbúa mætir í kaffi til okkar. Það er því mikil samheldni og stemning í kringum þetta,“ segir Sævar Þór og bætir við að ein vinsælasta varan síðastliðin ár sé heimagerður brjóstsykur.

„Við byrjum því að framleiða hann löngu áður og nú er boðið upp á brjóstsykursgerð sem val á unglingastigi.“

Segir hann að lokum að verkefnið sé krefjandi fyrir bæði starfsfólk og skipuleggjendur en á móti að sjálfsögðu fyrirhafnarinnar virði.

„Svona verkefni efla samkennd og það er eitthvað sem við þurfum að gera í mannlegu samfélagi í dag.“