Fyrstur Stekkjarstaur mætti fyrstur til byggða, stífur eins og tré, kom við í Þjóðminjasafninu og eftirtekt þeirra yngstu var óskipt.
Fyrstur Stekkjarstaur mætti fyrstur til byggða, stífur eins og tré, kom við í Þjóðminjasafninu og eftirtekt þeirra yngstu var óskipt. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hátíð jóla gengur senn í garð og eftirvænting barnanna er að ná hámarki. Aðventan hefur verið annasöm hjá börnum sem fullorðnum og úr nægu er að velja til að finna jólaandann. Litlu jólin í leik- og grunnskólum eru fastur liður og þar mæta gjarnan…

Hátíð jóla gengur senn í garð og eftirvænting barnanna er að ná hámarki. Aðventan hefur verið annasöm hjá börnum sem fullorðnum og úr nægu er að velja til að finna jólaandann.

Litlu jólin í leik- og grunnskólum eru fastur liður og þar mæta gjarnan hinir rauðklæddu sveinar til að gleðja börnin og dansa í kringum jólatré. Jólasveinar hafa verið á ferðinni síðan Stekkjarstaur kom fyrstur. Elsta kynslóðin í þeim hópi hefur sem fyrr mætt í Þjóðminjasafnið og haft hátt eins og hennar er siður. Jólasveinar nútímans gera einnig víðreist um borg og bý og slá þeim eldri ekkert við. Ketkrókur mætti í nótt og síðastur til byggða er Kertasníkir aðfaranótt aðfangadags. Verða þeir félagar á ferðinni allt fram á þrettándann þegar arkað verður á ný til fjalla, vonandi við blíðar móttökur hjá Grýlu og Leppalúða.

Jólin eru hefðbundin hjá flestum sem hafa húsaskjól. Að þessu sinni verður þó hluti af heilu byggðarlagi fjarri heimilum sínum. Grindvíkingar hafa komið sér fyrir víða um land og gera sitt besta til að halda í jólahefðirnar. Lögreglustjóri heimilaði þó íbúum í gær að gista í bænum, eftir að neyðarstig almannavarna var fært niður á hættustig. Óskandi er að allir eigi gleðileg jól.