Hið sanna innihald jólanna má aldrei gleymast. Í kirkjum landsins er boðskapurinn predikaður og undurfalleg trúartónlist hljómar og gleður.
Hið sanna innihald jólanna má aldrei gleymast. Í kirkjum landsins er boðskapurinn predikaður og undurfalleg trúartónlist hljómar og gleður. — Morgunblaðið/Óskar Pétur
Það er óendanlega falleg staðreynd að heimurinn er sneisafullur af fólki sem trúir á æðri mátt.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Við erum alltof gjörn á að ana áfram í sjálfhverfu og hugsunarleysi og skeyta að mestu um eigin hag. Kannski er þetta þægileg leið til að lifa lífinu en hún er hvorki sérlega merkileg né þroskandi og í henni felst ákveðinn flótti frá því að sýna auðmýkt gagnvart lífinu.

Auðmýkt er mikilvæg og í henni felst alls engin uppgjöf. Auðmýkt er viðurkenning á því að til sé nokkuð sem er okkur æðra. Í samtíma okkar er ákveðin hneigð til að gera lítið úr trú á æðri mátt, telja hana vera merki um einfeldni og afneitun á raunveruleikanum. Þeir sem gera lítið úr trú á æðri mátt virðast flestir líta svo á að það sem ekki sé hægt að sanna á vísindalegan hátt geti ekki verið til. Þannig sé trúin á almættið og líf eftir dauðann einungis óskhyggja þeirra sem vilja ekki horfast í augu við þann ískalda veruleika að dauðinn táknar algjör endalok.

Það er óendanlega falleg staðreynd að heimurinn er sneisafullur af fólki sem trúir á æðri mátt og finnur bæði styrk og huggun í þeirri vissu. Það skiptir engu hvaða nafni þessi trú nefnist, hún er mikil og yndisleg blessun í þessum heimi meðan hún er kærleiksrík og hafnar hatri, heift og ofstæki.

Stundum heyrir maður fólk segja nokkuð afsakandi að þótt það telji sig ekki sérlega trúað og sé ekki kirkjurækið þá hafi það sína barnatrú. Barnatrúin er einlæg og byggist á vissu um að maður njóti verndar. Þeir sem halda í þessa trú á fullorðinsárum lifa alls ekki í trúleysi, þótt þeir tali stundum þannig sjálfir.

Trú er ekki óbreytanlegt ástand. Sumir kasta trúnni mæti þeir áföllum meðan aðrir finna á erfiðum tímum styrk í trú sem þeir höfðu ekki áður. Það skiptir engu þótt einhverjir telji þessa trú vera flótta frá raunveruleikanum og fussi um leið yfir hugmyndum um framhaldslíf og endurfundi ástvina. Trúin er nokkuð sem fólk á með sjálfu sér og skoðanir annarra breyta því ekki.

Með reglulegu millibili birtast hér á landi kannanir sem sýna að fækkað hefur í þjóðkirkjunni og að guðstrú sé á undanhaldi. Kirkjan er stofnun og trú getur þrifist alveg ágætlega án hennar, þótt vissulega sé notalegt og dýrmætt að mæta í kirkju og hlýða á Guðs orð og guðdómlega tónlist. Það er engin ástæða til að kveina undan því þótt fækki í þjóðkirkjunni í samtíma sem einkennist um of af hávaðarifrildum, tortryggni og skorti á innri friði. Í slíku andrúmslofti er hætt við að trúnni sé lítill gaumur gefinn, jafnvel hæðst að henni, og kirkjan um leið léttvæg fundin og stimpluð sem afdönkuð og ömurleg. Það má alveg þola slíkt. Það er heldur engin ástæða fyrir fulltrúa og þjóna þjóðkirkjunnar að láta reglubundna talningu fjölmiðla á því hversu mikið fækkar í þjóðkirkjunni á hverju ári koma sér úr jafnvægi. Það virðist kannski ekki vera þannig, en trúin er einfaldlega alls staðar.

Trúin er ekki bara í hjörtum fólks um allan heim. Hún er alls staðar í umhverfinu. Stórkostlegustu tónskáld veraldarsögunnar hafa hyllt trúna í mikilfenglegum tónverkum sem jafnvel hinir allra trúlausustu geta ekki annað en hrifist af. Rithöfundar um allan heim vísa hvað eftir annað í orð Biblíunnar í verkum sínum. Verkum sem einkennast ekki af trúarhita og virðast ekki koma trú mikið við, en þar eru hugmyndir sem eru, þegar betur er að gáð, sóttar til Biblíunnar. Myndlistarsagan er einnig full af slíkum vísunum og verður ekki skilin til fullnustu án þekkingar á trúnni. Já, trúin er alls staðar sýnileg og mun verða það áfram.

Nú er runninn upp yndislegasti tími ársins, jólin sjálf. Við getum ekki afneitað þeirri staðreynd að þau byggjast mjög á veraldlegum hlutum. Við skulum samt ekki kalla þetta hreina áthátíð með tilheyrandi gjafastússi. Jólin eru miklu meira en það. Þau snúast um trú, von og kærleika. Nokkuð sem mætti vissulega vera mun meira af í heimi sem virðist svo oft fullur af illsku.

Trú á æðri mátt er ekki kjánaleg hugsun heldur hugsun sem byggist á innri sannfæringu og auðmýkt. Þetta er sannfæring sem stór hluti mannkyns á sameiginlega. Um jól sameinast fólk í gleði vegna þessarar vissu.

Gleðileg jól í Guðs friði!