Samkvæmt fyrri áformum ætti uppbygging hundraða íbúða við Kringluna að vera langt komin. Samhliða hafa verið kynnt áform um að setja Miklubraut í stokk og þétta byggð norðan við Kringluna. Tilefni þess að þetta er rifjað upp er að félagið…

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Samkvæmt fyrri áformum ætti uppbygging hundraða íbúða við Kringluna að vera langt komin. Samhliða hafa verið kynnt áform um að setja Miklubraut í stokk og þétta byggð norðan við Kringluna.

Tilefni þess að þetta er rifjað upp er að félagið Kringlureitur hefur fyrir hönd Reita undirritað samkomulag við dönsku arkitektastofuna Henning Larsen og THG arkitekta um þróun á fyrsta áfanga Kringlusvæðisins. Fjallað var um samkomulagið í Morgunblaðinu í fyrradag en skipulagssvæðið er sýnt á grafinu hér til hliðar. Reitir eiga svæðið en þar er m.a. gamla Morgunblaðshúsið.

Hinn 12. desember 2013 birtist viðtal í Morgunblaðinu við Guðjón Auðunsson forstjóra Reita en þar sagði að fasteignafélagið undirbyggi stækkun Kringlunnar til vesturs innan nokkurra ára. Jafnframt viðraði Guðjón hugmyndir um að hafa endastöð lestarsamgangna frá Keflavíkurflugvelli við Kringluna.

Hinn 31. mars 2016 var aftur rætt við Guðjón í Morgunblaðinu og upplýsti hann þá að Reitir áformuðu að byggja allt að 100 þúsund fermetra af atvinnu- og íbúðarhúsnæði við Kringluna. Hugmyndin væri að bæta við verslunum og skrifstofum, byggja nýtt hótel og reisa allt að 250 íbúðir við Kringluna.

Íbúðum fjölgað

Hinn 5. ágúst 2017 var aftur fjallað um áformin í Morgunblaðinu:

„Mun fleiri íbúðir verða byggðar við Kringluna í Reykjavík en boðað var. Samkvæmt aðalskipulagi átti að byggja þar 150-180 íbúðir en nú er miðað við 400-600 íbúðir. Nýja hverfið gæti því rúmað 1.200 íbúa.

Breytingin er hluti af nýju borgarskipulagi. Samkvæmt heimildum blaðsins úr borgarkerfinu á að þétta byggðina kerfisbundið meðfram fyrirhugaðri borgarlínu. Við Kringluna verður biðstöð fyrir borgarlínuna og mögulega fluglest,“ sagði þar. Rætt var við Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóra þróunarsviðs hjá Reitum, sem taldi raunhæft að ljúka skipulagsvinnu árið eftir, þ.e. 2018, og hefja framkvæmdir innan 2-3 ára.

Yrði í áföngum

Síðar sama ár, 9. nóvember 2017, var aftur rætt við Friðjón í Morgunblaðinu. Sagði hann mögulegt að nýtt Kringlusvæði yrði fullbyggt 2025. Síðan sagði orðrétt: „Greint var frá því í Ráðhúsinu síðdegis í gær að Kanon arkitektar urðu hlutskarpastir í hugmyndasamkeppni Reykjavíkurborgar og Reita sem unnin var í samstarfi með Arkitektafélagi Íslands.

Friðjón segir Reiti munu rýna tillöguna og máta hana við framtíðarsýn félagsins og Kringlunnar varðandi heildaruppbyggingu á svæðinu,“ sagði í fréttinni. Friðjón reiknaði með að uppbyggingin yrði í áföngum og hæfist jafnvel þegar árið 2020. Vonir væru bundnar við að svæðið yrði fullbyggt 2025.

Út frá stokkalausn

Hinn 30. október 2018 var aftur rætt við Friðjón í Morgunblaðinu. Sagði hann þá vera miðað við 160 þúsund fermetra af nýju húsnæði, þar með talið 850 íbúðir. Til samanburðar var rætt um 500-600 íbúðir um haustið árið áður.

„Þá kemur fram sú hugmynd að setja Miklubraut í stokk. Það breytir forsendum verkefnisins. Borgarlínan hefur jafnframt færst nær veruleika en þegar lagt var af stað í þetta verkefni,“ sagði Friðjón í samtali við blaðið en vinna við nýtt aðalskipulag var þá í gangi. Einnig var rætt við Guðjón forstjóra Reita sem taldi raunhæft að uppbyggingu á svæðinu yrði lokið árið 2030.

Reyndist tímafrekari

Loks sagði í Morgunblaðinu 15. janúar 2020 að skipulagsvinna vegna uppbyggingar um þúsund íbúða á Kringlusvæðinu hefði reynst tímafrekari en áætlað var. Uppbyggingin hæfist að óbreyttu 12-18 mánuðum síðar en áður var áætlað. Taldi Guðjón raunhæft að framkvæmdir gætu hafist 2022.

Guðjón sagði skipulagsmálin hafa tafist um að minnsta kosti 12 mánuði miðað við fyrri áætlanir. Reitir hefðu „haft væntingar um að skipulagsvinnan yrði sett í forgang í ljósi umræðu borgaryfirvalda um að setja Miklubraut í stokk og þétta byggð“. Nú er árið 2024 að renna upp og framkvæmdir eru ekki hafnar. Þá verður verkefnið áfangaskipt og alls óvíst hvenær framkvæmdir við Miklubrautarstokk hefjast. Samkvæmt upplýsingum frá Betri samgöngum er nú rætt um að Sæbrautarstokkur muni hafa forgang á Miklubrautarstokk.

Höf.: Baldur Arnarson