Guðmundur Jónsson fæddist 17. nóvember, 1944. Hann lést 12. desember, 2023.

Útför fór fram 22. desember 2023.

Nú þegar Guðmundur bróðir okkar er fallinn frá hrannast minningarnar upp í bland við söknuðinn. Ekkert okkar grunaði í vetrarbyrjun að hans gamli óvinur, krabbinn, væri kominn aftur á stjá og gengi skarpar fram en áður. Guðmundur hafði glímt við þann vágest fyrir nokkrum árum og þá haft betur. Huggun er þó harmi gegn að hann hafði lifað drjúga ævi við leik og störf, einkum þó störf því að honum féll sjaldnast verk úr hendi frá unglingsaldri og fram undir áttugasta aldursár.

Snemma kom í ljós að Guðmundur var sérlega verklaginn og útsjónarsamur við allt sem laut að vélum og tækjum ýmiss konar. Nýttust þessir eiginleikar vel við bústörfin og heimilishaldið yfirleitt. Minnumst við þess að oft flugu athugasemdir eins og að hann Guðmundur getur lagað þetta þegar eitthvað fór aflaga og reyndust það iðulega orð að sönnu. Enda fór það svo að hann valdi sér nám í bifvélavirkjun hjá Kaupfél. Árnesinga og starfaði allmörg ár við þá iðn. Reyndar stóð hugur hans einnig til náms í trésmíði og til lánsins átti hann kost á því síðar að stunda það nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands og starfaði hann við smíðar í nokkur ár hjá Helga Guðmundssyni, byggingam. frá Súluholti. Auk þessara starfa vann Guðmundur allmörg ár á vinnuvélum hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða, ýmist við jarðvinnslu, vegagerð eða aðrar framkvæmdir. Farið var víða og vinnudagurinn oft langur. Ekki var alltaf hvíldinni fyrir að fara þegar heim var komið því verkefnin voru iðulega mörg við uppbygginguna í Björk á sjöunda og áttunda áratugnum. Hann miklaði þetta ekki fyrir sér enda var það honum nánast sem eðlislægt að vera sífellt eitthvað að bjástra.

Síðustu starfsárin vann Guðmundur við mjólkurflutninga hjá Flóabúinu.

En lífið er ekki einungis vinna og strit, það vissi bróðir okkar og sinnti hann ýmsum áhugamálum. Hann var einn af stofnfélögum í Björgunarsveitinni Tryggva á Selfossi og tók virkan þátt í starfi hennar í áratugi. Naut hann sín vel í margháttuðum og krefjandi störfum sveitarinnar við leit, björgun og gæslu ýmiss konar. Hálendisferðir voru yndi hans og átti hann góða farkosti, vel búna jeppa og vélsleða til ferðalaga allan ársins hring. Auk þess átti hann hlut í fjallaskála við hálendið sem nýttist einkum til vetrarferða. Hann var gætinn og vel búinn í sínum ferðum, sem oft voru farnar í vetrarfærð við erfið skilyrði, enda þá mestu líkur á leitar- og björgunarbeiðnum. Minnumst við glöggt útkalla á viðkvæmustu stundum stórhátíða en Guðmundur æðraðist ekki og taldi sér litla vorkunn miðað við fjölskyldufólkið, einhleypur og barnlaus maðurinn. Hann hélt heimili með foreldrum okkar og var þeirra stoð og stytta í ellinni og færum við fram þakkir fyrir hans farsæla þátt við að gera þeim kleift að dvelja fram undir það síðasta í heimaranni. Segja má að honum hafi launast dygðin því að foreldrunum gengnum steig hann það gæfuspor að hefja sambúð með Katrínu Vestmann og eignuðust þau hlýlegt heimili á Selfossi.

Megi minning Guðmundar lifa björt.

Sigurður Jónsson.

Í dag kveðjum við Guðmund frænda okkar í Björk sem átti ríkan þátt í uppvexti okkar systkinabarnanna og síðar barna okkar. Dýrmætt er að rifja upp bernskuminningar þar sem Guðmundur, með sinni hlýju nærveru, leiðbeindi okkur við leik og störf í Björk. Í huga okkar var Guðmundur ávallt til staðar þegar á reyndi í búskapnum hjá ömmu og afa enda afar iðinn og duglegur alla tíð. Hann sá um að gera við og bjarga því sem bjarga þurfti og var einstaklega útsjónarsamur við þá iðju. Þolinmóður var hann að leyfa okkur börnunum að skottast í kringum sig og hugmyndaríkur við að fela okkur alvöruhlutverk í takt við aldur og áhuga. Hjálpsamur var hann að útbúa fyrir okkur leikaðstöðu hvort sem var til að spranga í hlöðunni, vera í búleik eða smíða kofa.

Guðmundur var duglegur að bjóða okkur með í skógræktarferðir enda virkur félagi í skógræktarfélagi Sandvíkurhrepps. Hann starfaði einnig með björgunarsveitinni og fékk mörg okkar til að liðsinna við fjáröflunarverkefni hennar. Ófáar fjallaferðir og vélsleðaferðir voru farnar og þá var alltaf gott að fá að sitja á sleðanum hjá honum enda traustur og varkár í öllu.

Í ættarútilegum í Björk á síðustu árum hélt Guðmundur áfram að gefa af sér og uppfræða yngri kynslóðina um leynigöngin dularfullu, heyskaparhætti fyrr á tíð og fara í vinsæla ævintýraferð um hlaðið á heyvagni.

Nýtni og nægjusemi voru hans aðalsmerki í lífinu sem við getum öll haft í heiðri sem veganesti til næstu kynslóða.

Við kveðjum Guðmund frænda okkar með hlýhug og þakklæti fyrir lærdómsríka samfylgd í gegnum lífið.

Kristín Hrönn, Jón, Ingibjörg Hrund, Anna Ingileif, Kristín, Helgi Júníus, Þórunn, Kristín Björk, Jóhanna Ýr,
Fríður Finna, Jón Ívar, Viktoría Björk, Gunnar, Kristín Una og Sigyn Björk.

Á uppvaxtarárunum vorum við svo lánsöm að eiga athvarf í Björk hjá ömmu og afa, Guðmundi frænda og Siggu frænku. Æskuminningarnar þaðan eru margar og góðar og átti Guðmundur sannarlega sinn þátt í að skapa þær. Hann var barngóður og þegar hann lék við yngstu kynslóðina allt fram á síðustu ár rifjaðist upp hvernig hann lék við okkur þegar við vorum lítil. Ósjaldan lumaði hann á Garpi eða kókómjólk úr búrinu handa litla fólkinu sem hændist svo að honum. Það var ævintýri að fá að leika í skúrnum í Björk, innan um tækin og tólin hans Guðmundar, skoða gryfjuna og bak við stóra tjaldið, allt undir hans vökula auga og vernd. Og ekki minnkaði spenningurinn þegar hann fór með okkur rúnt á fjórhjólinu. Guðmundur var laghentur og greiðvikinn og nutum við oft aðstoðar hans, hvort sem laga þurfti bíl eða taka í gegn íbúð. Hann var snillingur í öllu sem laut að vatnslögnum og nutu mörg heimili stórfjölskyldunnar góðs af því.

Guðmundur hafði alla tíð yndi af ferðalögum og fór víða. Heppnin var með honum þegar hann kynntist Katrínu og eignaðist í henni ferðafélaga, bæði í ferðum sínum innan lands og utan sem og í lífinu sjálfu. Hún var honum mikil stoð í veikindum hans og þökkum við henni fyrir það, um leið og við vottum henni samúð okkar.

Blessuð sé minning Guðmundar. Takk fyrir allt, kæri frændi.

Fríður Finna,
Gunnar, Kristín Una og Sigyn Björk.