Arnar Gunnlaugsson verður áfram þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings í fótbolta á næstu leiktíð. Þvílíka jólagjöfin segi ég nú bara, fyrir stuðningsmenn Víkings og auðvitað alla knattspyrnuáhugamenn hér á landi

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Arnar Gunnlaugsson verður áfram þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings í fótbolta á næstu leiktíð. Þvílíka jólagjöfin segi ég nú bara, fyrir stuðningsmenn Víkings og auðvitað alla knattspyrnuáhugamenn hér á landi.

Óskar Hrafn Þorvaldsson lét af störfum sem þjálfari Breiðabliks í lok október eftir fjögur ár í starfi og það hefði hreinlega verið of mikið að missa bæði Óskar Hrafn og Arnar á sama árinu. Þeir tveir hafa stimplað sig inn sem færustu þjálfarar landsins undanfarin tímabil og án þeirra væri knattspyrnan á Íslandi fátækari.

Arnar er með frábært lið í höndunum í Víkinni. Lið sem er hrikalega vel mannað og ætlar að gera betur en á síðustu leiktíð sem verður erfitt en það eina sem gæti toppað draumatímabilið í ár væri ef liðinu tekst að tryggja sér sæti í riðlakeppni í Evrópukeppni.

Auðvitað kemur sá tími að Arnar haldi út í „atvinnumennsku“ líkt og hann gerði sem leikmaður en við fögnum því að fá að njóta hans í að minnsta kosti eitt tímabil í viðbót. Ég get samt ímyndað mér að hann hafi verið í óþægilegri stöðu.

Þegar eitt af stóru liðunum í Svíþjóð kemur og bankar upp á hjá þér þá hlýtur bara að vera erfitt að loka hurðinni aftur. Þrátt fyrir að margir leikmenn hér á landi séu á góðum launum þá er íslenska deildin áhugamannadeild og það að fá tækifæri til þess að þjálfa í atvinnumannadeild kemur ekki á hverjum degi, sérstaklega ef maður er íslenskur þjálfari.

Áhugi á íslenskum þjálfurum hefur hins vegar færst mikið í aukana og vonandi sjáum við fleiri þjálfara stíga þetta stóra skref á næstu árum, þó það verði erfitt að horfa á eftir þeim.