Orka Framkvæmdir við Hvammsvirkjun gætu hafist næsta vor.
Orka Framkvæmdir við Hvammsvirkjun gætu hafist næsta vor.
Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is Umhverfisstofnun kynnti í gær áform um að veita heimild til breytinga á svonefndu vatnshloti í Þjórsá 1 vegna 95 MW Hvammsvirkjunar. Þar kemur fram að öll skilyrði séu uppfyllt í samræmi við ákvæði vatnalaga. Í vatnalögum er vatnshlot skilgreint sem eining vatns, t.d. stöðuvatn eða mikið magn vatns á einu svæði.

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Umhverfisstofnun kynnti í gær áform um að veita heimild til breytinga á svonefndu vatnshloti í Þjórsá 1 vegna 95 MW Hvammsvirkjunar. Þar kemur fram að öll skilyrði séu uppfyllt í samræmi við ákvæði vatnalaga. Í vatnalögum er vatnshlot skilgreint sem eining vatns, t.d. stöðuvatn eða mikið magn vatns á einu svæði.

Í niðurstöðum sínum segir Umhverfisstofnun meðal annars:

„Umhverfisstofnun telur því að tilgangur Hvammsvirkjunar til að tryggja raforkuöryggi varði almannahagsmuni sem vegi þyngra en ávinningur af því að umhverfismarkmið vatnshlotsins sem að framan er lýst náist. Þegar af þessari ástæðu telur Umhverfisstofnun að skilyrði b-liðar 2. mgr. séu uppfyllt.“

Komið að skuldadögum

„Það er mjög mikilvægt að þetta mál vinnist, að það komist niðurstaða í það. Þannig að ég fagna því að Umhverfisstofnun sé búin að afgreiða þetta,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir hins vegar að ferlinu sé ekki endilega lokið. Niðurstöður í málinu geta verið kærðar og þá gæti það komið til kasta Guðlaugs sem ráðherra. Þar af leiðandi geti hann ekki tjáð sig efnislega um niðurstöðu Umhverfisstofnunar.

Mögulega framkvæmt í vor

Spurður hvort virkjunin verði mikilvægur liður í að tryggja orkuskiptin margumræddu segir hann:

„Það vantar miklu meira en Hvammsvirkjun. Við erum bara komin á þann stað að það er komið að skuldadögum vegna þess að við höfum ekki sinnt þessu máli í 15-20 ár,“ segir hann og bætir við að mikilvægt sé að hlutir vinnist hratt og örugglega.

Endanleg niðurstaða verður tilkynnt að loknum fresti til athugasemda sem er til 17. janúar 2024. Verði heimildin veitt hefur Orkustofnun umfjöllun um umsókn Landsvirkjunar um virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun að nýju.

Stofnuninni ber að taka ákvörðun um útgáfu virkjunarleyfis innan tveggja mánaða frá því öll gögn hafa borist stofnuninni.

„Verði virkjunarleyfið veitt geta sveitarfélögin tvö, Rangárþing ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur, gefið út framkvæmdaleyfi,“ segir Landsvirkjun á vef sínum um niðurstöðu Umhverfisstofnunar.

„Gangi allt eftir gætu undirbúningsframkvæmdir fyrir Hvammsvirkjun hafist í vor.“

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson